Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Af hverju er yfirleitt talað um Þingeyrarklaustur sem fyrsta klaustur á Íslandi en ekki hið skammlífa Bæjarklaustur í Bæ í Borgarfirði?
Mat manna á hvort klaustur hafi nokkurn tímann verið í Bæ er mikið á reiki. Í skýringum með landnámuútgáfu sinni ritaði Jakob Benediktsson (1968, bls. 64, nmgr. 4) að Hróðólfur trúboðsbiskup „[...] virðist hafa komið upp vísi að klaustri í Bæ“. Einar Laxness (1995, bls. 49) gengur lengra og álítur Hróðólf hafa stofnsett „[…] klaustur og e.t.v. skóla […]“ á staðnum. Undirritaður hallast að svipaðri skoðun og Jakob en hefur þó viðhaft varfærnara orðalag og rætt um að „kirkjuleg miðstöð“ hafi komist á í Bæ í tíð Hróðólfs. (Hjalti Hugason 2000, bls. 146) Hér skiptir mestu hvaða merking er lögð í orðið klaustur og hvernig ummæli í Landnámabók um munka í Bæ eru metin.
Undirrituðum er ekki ljóst á hvaða grunni Einar Laxness reisir þá skoðun sína að Hróðólfur kunni ekki aðeins að hafa stofnað klaustur í Bæ heldur líka skóla nema gengið sé út frá að skólar hafi jafnan verið í klaustrum og raunar verið nauðsynleg forsenda fyrir að klausturlíf gæti haldið velli en það krafðist nokkurrar menntunar að dvelja í klaustri. Klausturfólk varð bæði að vera fært um að taka þátt í helgihaldi á latínu og að stunda aðra iðju sem var ástunduð í klaustrum. Á miðöldum og raunar lengi eftir það virðist ekki hafa verið gerður greinarmunur á skóla annars vegar og námi og kennslu almennt hins vegar. Þannig er rætt um að biskupar í öndverðri kristni hér og einstakir prestar fyrr og síðar hafi haldið skóla þar sem á nútímamáli væri fremur sagt að þeir hafi kennt einum eða fleiri nemendum jafnvel að staðaldri.
Mat manna á hvort klaustur hafi nokkurn tímann verið í Bæ er mikið á reiki. Þar til fornleifarannsóknir hafa leitt annað í ljós verður því tæpast gengið lengra en að segja að í Bæ hafi hugsanlega verið ástundað munklífi um skeið á 11. öld.
Nú á dögum merkir skóli nefnilega stofnun sem starfar á grundvelli ákveðins skipulags, á ákveðnum stað, í sérhæfðu húsi og undir fastri stjórn. Því getur orkað tvímælis og jafnvel verið villandi að ræða um skóla á biskupsstólum landsins jafnafdráttarlaust og lengi hefur verið gert. Þar getur eiginlegt skólahald hafa verið stopult þótt gera megi ráð fyrir að þar hafi jafnan verið stundað nám og kennsla. Eins er með hugtakið klaustur. Það merkir stofnun af ákveðnu tagi sem starfar á grundvelli fastrar klausturreglu, er rekin með tekjum af jarðeignum í eigu klaustursins, hefur á að skipa tilteknum embættismönnum og öðru klausturfólki og stendur fyrir ýmiss konar kirkjulegu og jafnvel veraldlegu starfi svo sem líknarþjónustu, kennslu, landbúnaði og jafnvel bókmennta- eða listiðju.
Það þarf því ekki að vera augljóst að klaustur í eiginlegum skilningi þurfi að hafa verið alls staðar þar sem munkar eða nunnur höfðust við um lengri eða skemmri tíma. Í ljósi núverandi þekkingar er þannig alls ekki unnt að álykta að í Bæ hafi nokkru sinni starfað klaustur í sömu merkingu og að Þingeyrum eða á Skriðu á Fljótsdal til dæmis að taka. Þar til fornleifarannsóknir hafa leitt annað í ljós verður því tæpast gengið lengra en að segja að í Bæ hafi hugsanlega verið ástundað munklífi um skeið á 11. öld. Víkur þá sögunni að skriflegum heimildum.
Í Landnámabók er að finna stuttan þátt af Ásólfi nokkrum alskik, kristnum manni, sem á að hafa komið til landsins seint á landnámsöld, tekið fyrst land á Suðurlandi en hrakist af trúarástæðum vestur á Akranes þar sem hann átti frændum og trúbræðrum að mæta og gerðist þar einsetumaður. Í Sturlubók sem rituð var af Sturlu Þórðarsyni (1214–1284) segir af landnámi bræðranna Þormóðar og Ketils sem helguðu sér land milli Kalmansár og Urriðaár og bjuggu hvor sínu megin Akrafjalls. Sonur Ketils var Jörundur hinn kristni í Jörundarholti, síðar Görðum, á Akranesi. Hann á að hafa tekið Ásólfi vel og reist honum einsetumannshús að Innrahólmi sem síðar varð kirkjustaður. (Landnámabók 1968, bls. 60, 62, 64). Ásólfs-þáttur er með miklum helgisagnablæ þegar í þessari gerð.
Í landnámugerð Hauks Erlendssonar (d. 1334) sem er yngri er þátturinn enn ævintýralegri en þar segir meðal annars frá draumvitrunum að Ásólfi látnum í því sambandi:
En er Hróðólfr byskup fór brott ór Bæ, þar er hann hafði búit, þá váru þar eptir munkar þrír. Einn þeira dreymði, at Ásólfr mælti við hann: „Sentu húskarl þinn til Halldórs at Hólmi ok kaup at honum þúfu þá, er á fjósgötu er [það er leiði Ásólfs — innsk HH], ok gef við mörk silfurs.“ Munkurinn gerði svá. Húskarlinn gat keypta þúfuna ok gróf síðan jörðina ok hitti þar manns bein; hann tók þau upp ok fór heim með. Ena næstu nótt eptir dreymði Halldór, at Ásólfr kom at honum ok kvezk bæði augu mundu sprengja ór hausi honum, nema hann keypt bein hans slíku verði sem hann seldi. Halldórr keypti bein Ásólfs ok lét gera tréskrín ok setja yfir altari. (Landnámabók 1968, bls. 65 — leturbr. HH)
Hér er lýst beinaupptöku dýrlings hver svo sem sannfræði textans kann að vera.
Með þessu er upptalið það sem sagt verður um munklífi í Bæ á grundvelli ritaðra heimilda og virðist ekki mögulegt að draga af ummælunum víðtækar ályktanir um klaustur á staðnum. Þess má geta að í Sturlubók er ekki annað að sjá en þeir frændur hafi verið norrænir menn. Í Hauksbók segir á hinn bóginn að Þormóður og Ketill hafi komið hingað frá Írlandi sem og dóttir Ketils en systir Jörundar hafi heitið Eðna og verið gift á Írlandi manni sem hét Konáll og hefur verið keltneskur. Á Ásólfur að hafa verið sonur þeirra.
Unnið við uppgröft á Skriðuklaustri.
Eitt af einkennum Hauksbókar er ríkur áhugi höfundar fyrir öllu sem írskt var. Þá má benda á að höfundur hélt mjög til haga efni frá svæðinu frá Kjalarnesi til Akraness en Haukur var Vestlendingur og kann að hafa verið kunnugur efni þaðan meðal annars munnmælum sem Sturlu hefur ef til vill ekki verið kunnugt um eða hann ekki viðurkennt. („Veraldleg sagnaritun 1120–1400“ 1992, bls. 304)
Hróðólfur (Rúðólfur, d. 1052) sá sem hér um ræðir var einn af trúboðsbiskupunum sem Ari fróði nefndi til sögunnar. (Íslendingabók 1968, bls. 18) Hann var benediktínamunkur sem hafði gengið í þjónustu Ólafs Haraldssonar konungs helga/digra (995–1030) á Englandi og hafði stundað kristniboð í Noregi og Svíþjóð áður en hann kom hingað. Svipuðu máli gegnir um fleiri sem komu við sögu fyrstu kristni hér. Hróðólfur hefur líklega dvalið hérlendis í tæp 20 ár frá því um 1030. Héðan hvarf hann að nýju til Englands og varð ábóti í Abingdon-klaustri. (Hjalti Hugason 2000, bls. 34–35, 144–145) Sýnir þetta hve mikil tengsl voru milli Íslands, Norðurlandanna og Englands á kristnitökutímanum og hve mikilvægt hlutverk engil-saxnesk kristni gegndi við kristnun Íslands og raunar Norðurlanda að Danmörku helst undanskilinni.
Engin ástæða er til að efast um að Hróðólfur hafi um tíma haft aðsetur sitt í Bæ og að þar hafi þá verið nokkurs konar kristniboðsstöð. Þá er líklegt að hann hafi ekki verið einn á ferð heldur haft með sér hóp munka og einhverjir þeirra kunna að hafa orðið eftir þegar hann fór af landi brott. (Hjalti Hugason 2000, bls. 146, 222). Eftir veru Hróðólfs í Bæ eru líklega enn til nokkur spor en í túninu þar er að finna lauk af sérstakri tegund sem vex ekki annars staðar á landinu. Vitað er að munkar fluttu með sér jurtir sem meðal annars voru notaðar til lækninga og hafa haldið velli á hinum fornu klausturstöðum. Hér verður þó litið svo á að munklífið í Bæ hafi ekki risið undir því að geta kallast klaustur í nútímamerkingu. Þessari niðurstöðu geta forleifarannsóknir þó hnekkt í framtíðinni og þá ber vissulega að hafa það sem sannara reynist.
Heimildir og hjálpargögn:
Einar Laxness, 1995: Íslandssaga i–r, (Alfræði Vöku-Helgafells), Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Hjalti Hugason, 2000: Frumkristni og upphaf kirkju, (Kristni á Íslandi I, ritstj. Hjalti Hugason), Reykjavík: Alþingi.
Íslendingabók, 1968: Íslenzk fornrit I, Jakob Benediktsson gaf út, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, bls. 1–28.
„Veraldleg sagnaritun 1120–1400“, Íslensk bókmenntasaga I, ritstj. Vésteinn Ólason, Reykjavík: Mál og menning, bls. 263–418 (Sverrir Tómasson).
Landnámabók, 1968: Íslenzk fornrit I, Jakob Benediktsson gaf út, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, bls. 29–397.
Hjalti Hugason. „Var klaustur í Bæ í Borgarfirði?“ Vísindavefurinn, 2. október 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64905.
Hjalti Hugason. (2015, 2. október). Var klaustur í Bæ í Borgarfirði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64905
Hjalti Hugason. „Var klaustur í Bæ í Borgarfirði?“ Vísindavefurinn. 2. okt. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64905>.