Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Sturla Þórðarson og hvað gerði hann merkilegt?

Úlfar Bragason

Sturlugata liggur um lóð Háskóla Íslands. Hún er kennd við Sturlu Þórðarson (1214-1284), sagnaritara, skáld og lögmann. Helstu heimildir um hann er að finna í þeim hluta Sturlungu-samsteypunnar, sem kallast Íslendinga saga og hann sjálfur mun hafa sett saman, Þorgils sögu skarða og í Sturlu þætti sem fylgir á eftir Þorgils sögu í Reykjarfjarðarbók, öðru skinnhandriti samsteypunnar, og þeim handritum sem af því eru runnin.

Sturla var sonur Þórðar Sturlusonar, goðorðsmanns á Stað á Ölduhrygg, og Þóru, frillu hans. Þórður var eldri bróðir Snorra Sturlusonar en um ættir Þóru er ekkert vitað. Með henni átti Þórður fimm börn, meðal annars Ólaf hvítaskáld (d. 1259) sem einnig var skáld og fræðimaður. Sturla ólst upp hjá ömmu sinni, Guðnýju Böðvarsdóttur, og mun síðan hafa verið með hléum í Reykholti hjá Snorra. Hefur þess verið getið til að þar hafi hann lært að yrkja og skrifa. Hann kvæntist Helgu Þórðardóttur, sem var af helstu valdaættum við innanverðan Breiðafjörð, Skarðverjum og Staðarhólsmönnum, um 1235. Bjó hann lengst að Staðarhóli í Saurbæ og fór með erfðagoðorð Sturlunga, Snorrungagoðorð, en ættingjar konu hans studdu völd hans. Sturla var lögsögumaður 1251. Hann varð lendur maður Gissurar Þorvaldssonar jarls 1259 og var meðal þeirra höfðingja vestanlands sem sóru Hákoni konungi Hákonarsyni land og þegna 1262. Árið 1262 fór Sturla á fund Magnúsar konungs Hákonarsonar lagabætis og gerðist handgenginn honum. Hann varð lögmaður um allt land 1272 og var hann það til 1276 en síðan norðanlands og vestan til 1282. Hann sat í Fagurey á Breiðafirði síðustu æviár sín og þar lést hann 30. júlí 1284. Var hann jarðaður að kirkju Péturs postula á Staðarhóli. Börn Helgu og Sturlu voru Snorri á Staðarhóli, Þórður hirðprestur Magnúsar lagabætis og dæturnar Ingibjörg og Guðný sem giftar voru inn í valdaættir á Norðurlandi.

Þrátt fyrir að Sturla Þórðarson væri óskilgetinn varð hann einn helsti valdsmaður á Íslandi um sína daga. Sem ungur maður fylgdi hann frændum sínum að málum og varð sjálfur vitni af mörgum helstu atburðum sem hann sagði síðar frá í Íslendinga sögu sinni. Eftir að Snorri Sturluson hafði verið tekinn af lífi 1241 varð Sturla einn helsti áhrifamaður meðal Sturlunga sem þeir leituðu jafnan fylgis og ráða hjá. Völd hans stóðu þó einkum við Breiðafjörð. Óvíst er yfir hversu langan tíma Íslendinga saga nær í Sturlungu samsteypunni en fræðimenn telja nú líklegast að hún hafi náð yfir atburði frá 1183 til 1242 og síðan aftur frá 1250 til 1262 eða 64. Síðari hlutinn er þó brotakenndur og er ef til vill aðeins hugsaður sem viðaukar við aðrar sögur um atburði þessara ára sem Sturla þekkti. Sturla er því höfundur frásagna um tvo helstu viðburði Sturlunga sögu, Örlygsstaðabardaga 1238, sem hann tók þátt í, og Flugumýrarbrennu 1253, þar sem tengdasonur hans, Hallur Gissurarsonar, lét lífið og Ingibjörg, dóttir hans, slapp naumlega frá. Frásagnirnar af þessum atburðum eru meðal þess ægilegasta og jafnframt listilegasta sem skrifað var hér á landi á 13. öld. Í Íslendinga sögu nær frásagnarlist Sturlu hæst: mannlýsingar, sviðsetningar, undirbúningur stórviðburða með spásögnum og draumum og sjónbeining í frásögn.

Sturla Þórðarson var sagnaritari, skáld og lögmaður og fór meðal annars með erfðagoðorð Sturlunga, Snorrungagoðorð.

Vitnað er til vísna eftir Sturlu í Íslendinga sögu. Þá orti hann vísur um Þverárbardaga 1255 og drápu um Þorgils skarða sem vitnað er til í Þorgils sögu. Í Sturlu þætti er sagt frá því að Sturla orti til lofs Hákoni konungi og Magnúsi lagabæti. Hafa þessi kvæði að líkindum greitt götu hans í konungsgarði og orðið til þess að Magnús konungur fékk honum að skrifa sögu Hákonar konungs og síðan sína eigin sögu. Hákonar saga er varðveitt en aðeins brot af Magnúss sögu. Þykja þær bera því vitni að sagnaritarinn hafi bæði verið bundinn heimildum í skrifum sínum og að hann gerði sögurnar að ráði konungs. Hákonar saga er talin miklu síðri Íslendinga sögu í frásögn þótt deilum konungs og Skúla hertoga sé þar til að mynda afbragðsvel lýst. Sagan þykir hins vegar góð heimild um 13. öldina í sögu Noregs.

Auk þessara rita er Sturlu eignuð ein gerð Landnámu og jafnvel talið að hann hafi tekið saman Kristni sögu þótt það sé ekki sannað. Stefán Karlsson færði rök fyrir því að svokallaður Resensannáll væri verk Sturlu og víst er að atburðatöl og tímatalsfræði hafa verið honum til stuðnings í sagnaritun sinni. Þá er talið að Sturla hafi komið að gerð lögbókarinnar Járnsíðu, sem leidd var í lög hér á landi 1272, á meðan hann dvaldist í Noregi 1263-1271.

Löngum hefur verið talið að Sturla Þórðarson hafi ritað um Gretti sterka og byggist það á því að vísað er til hans í Grettlu. Honum hafa einnig verið eignaðar aðrar Íslendingasögur: Eyrbyggja, Laxdæla og Njáls saga. Engin bein rök eru fyrir því önnur en að hann er meðal fárra nafngreindra íslenskra höfunda á 13. öld. Miklu heldur væri að eigna honum frumdrög að Guðmundar sögu góða en í Íslendinga sögu fjallar hann oft um biskup og jafnan af skilningi.

Í Sturlu þætti er þess getið að Þórður Narfason, seinna lögmaður á Skarði á Skarðsstönd, hafi verið hjá Sturlu veturinn eftir að Sturla kom úr Noregsdvöl sinni. En það er helst talið að einhver Narfasona hafi sett Sturlungu saman og berast böndin helst að Þórði. Svonefndum Sturlunguformála, það er greinargerð ritstjórans fyrir verkinu lýkur með þessum orðum: „Ok treystum vér honum bæði vel til vits og einurðar at segja frá, því at hann vissa ek alvitrastan ok hófsamastan. Láti guð honum nú raun lofi betri.“ Hafa þessi orð almennt verið tekin sem órækt vitni um að leggja mætti trúnað á frásögn Sturlu af atburðum á Sturlungaöld enda hafa sagnfræðirit stuðst mjög við hana. Hafa þau einnig gjarnan verið höfð fyrir satt um aðra sagnaritun hans.

Ítarefni:
  • Sturlustefna. Ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir og Jónas Kristjánsson. (Rit Stofnunar Árna Magnússonar 32) Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1988.
  • Guðrún Nordal. Ethics and Actions in Thirteenth-Century Iceland. (The Viking Collection 11) Odense: Odense U.P., 1998.
  • Úlfar Bragason. Ætt og saga: Um frásagnarfræði Sturlungu eða Íslendinga sögu hinnar miklu. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010.

Mynd:

Höfundur

rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

20.7.2011

Síðast uppfært

11.8.2021

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Úlfar Bragason. „Hver var Sturla Þórðarson og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn, 20. júlí 2011, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60305.

Úlfar Bragason. (2011, 20. júlí). Hver var Sturla Þórðarson og hvað gerði hann merkilegt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60305

Úlfar Bragason. „Hver var Sturla Þórðarson og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn. 20. júl. 2011. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60305>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Sturla Þórðarson og hvað gerði hann merkilegt?
Sturlugata liggur um lóð Háskóla Íslands. Hún er kennd við Sturlu Þórðarson (1214-1284), sagnaritara, skáld og lögmann. Helstu heimildir um hann er að finna í þeim hluta Sturlungu-samsteypunnar, sem kallast Íslendinga saga og hann sjálfur mun hafa sett saman, Þorgils sögu skarða og í Sturlu þætti sem fylgir á eftir Þorgils sögu í Reykjarfjarðarbók, öðru skinnhandriti samsteypunnar, og þeim handritum sem af því eru runnin.

Sturla var sonur Þórðar Sturlusonar, goðorðsmanns á Stað á Ölduhrygg, og Þóru, frillu hans. Þórður var eldri bróðir Snorra Sturlusonar en um ættir Þóru er ekkert vitað. Með henni átti Þórður fimm börn, meðal annars Ólaf hvítaskáld (d. 1259) sem einnig var skáld og fræðimaður. Sturla ólst upp hjá ömmu sinni, Guðnýju Böðvarsdóttur, og mun síðan hafa verið með hléum í Reykholti hjá Snorra. Hefur þess verið getið til að þar hafi hann lært að yrkja og skrifa. Hann kvæntist Helgu Þórðardóttur, sem var af helstu valdaættum við innanverðan Breiðafjörð, Skarðverjum og Staðarhólsmönnum, um 1235. Bjó hann lengst að Staðarhóli í Saurbæ og fór með erfðagoðorð Sturlunga, Snorrungagoðorð, en ættingjar konu hans studdu völd hans. Sturla var lögsögumaður 1251. Hann varð lendur maður Gissurar Þorvaldssonar jarls 1259 og var meðal þeirra höfðingja vestanlands sem sóru Hákoni konungi Hákonarsyni land og þegna 1262. Árið 1262 fór Sturla á fund Magnúsar konungs Hákonarsonar lagabætis og gerðist handgenginn honum. Hann varð lögmaður um allt land 1272 og var hann það til 1276 en síðan norðanlands og vestan til 1282. Hann sat í Fagurey á Breiðafirði síðustu æviár sín og þar lést hann 30. júlí 1284. Var hann jarðaður að kirkju Péturs postula á Staðarhóli. Börn Helgu og Sturlu voru Snorri á Staðarhóli, Þórður hirðprestur Magnúsar lagabætis og dæturnar Ingibjörg og Guðný sem giftar voru inn í valdaættir á Norðurlandi.

Þrátt fyrir að Sturla Þórðarson væri óskilgetinn varð hann einn helsti valdsmaður á Íslandi um sína daga. Sem ungur maður fylgdi hann frændum sínum að málum og varð sjálfur vitni af mörgum helstu atburðum sem hann sagði síðar frá í Íslendinga sögu sinni. Eftir að Snorri Sturluson hafði verið tekinn af lífi 1241 varð Sturla einn helsti áhrifamaður meðal Sturlunga sem þeir leituðu jafnan fylgis og ráða hjá. Völd hans stóðu þó einkum við Breiðafjörð. Óvíst er yfir hversu langan tíma Íslendinga saga nær í Sturlungu samsteypunni en fræðimenn telja nú líklegast að hún hafi náð yfir atburði frá 1183 til 1242 og síðan aftur frá 1250 til 1262 eða 64. Síðari hlutinn er þó brotakenndur og er ef til vill aðeins hugsaður sem viðaukar við aðrar sögur um atburði þessara ára sem Sturla þekkti. Sturla er því höfundur frásagna um tvo helstu viðburði Sturlunga sögu, Örlygsstaðabardaga 1238, sem hann tók þátt í, og Flugumýrarbrennu 1253, þar sem tengdasonur hans, Hallur Gissurarsonar, lét lífið og Ingibjörg, dóttir hans, slapp naumlega frá. Frásagnirnar af þessum atburðum eru meðal þess ægilegasta og jafnframt listilegasta sem skrifað var hér á landi á 13. öld. Í Íslendinga sögu nær frásagnarlist Sturlu hæst: mannlýsingar, sviðsetningar, undirbúningur stórviðburða með spásögnum og draumum og sjónbeining í frásögn.

Sturla Þórðarson var sagnaritari, skáld og lögmaður og fór meðal annars með erfðagoðorð Sturlunga, Snorrungagoðorð.

Vitnað er til vísna eftir Sturlu í Íslendinga sögu. Þá orti hann vísur um Þverárbardaga 1255 og drápu um Þorgils skarða sem vitnað er til í Þorgils sögu. Í Sturlu þætti er sagt frá því að Sturla orti til lofs Hákoni konungi og Magnúsi lagabæti. Hafa þessi kvæði að líkindum greitt götu hans í konungsgarði og orðið til þess að Magnús konungur fékk honum að skrifa sögu Hákonar konungs og síðan sína eigin sögu. Hákonar saga er varðveitt en aðeins brot af Magnúss sögu. Þykja þær bera því vitni að sagnaritarinn hafi bæði verið bundinn heimildum í skrifum sínum og að hann gerði sögurnar að ráði konungs. Hákonar saga er talin miklu síðri Íslendinga sögu í frásögn þótt deilum konungs og Skúla hertoga sé þar til að mynda afbragðsvel lýst. Sagan þykir hins vegar góð heimild um 13. öldina í sögu Noregs.

Auk þessara rita er Sturlu eignuð ein gerð Landnámu og jafnvel talið að hann hafi tekið saman Kristni sögu þótt það sé ekki sannað. Stefán Karlsson færði rök fyrir því að svokallaður Resensannáll væri verk Sturlu og víst er að atburðatöl og tímatalsfræði hafa verið honum til stuðnings í sagnaritun sinni. Þá er talið að Sturla hafi komið að gerð lögbókarinnar Járnsíðu, sem leidd var í lög hér á landi 1272, á meðan hann dvaldist í Noregi 1263-1271.

Löngum hefur verið talið að Sturla Þórðarson hafi ritað um Gretti sterka og byggist það á því að vísað er til hans í Grettlu. Honum hafa einnig verið eignaðar aðrar Íslendingasögur: Eyrbyggja, Laxdæla og Njáls saga. Engin bein rök eru fyrir því önnur en að hann er meðal fárra nafngreindra íslenskra höfunda á 13. öld. Miklu heldur væri að eigna honum frumdrög að Guðmundar sögu góða en í Íslendinga sögu fjallar hann oft um biskup og jafnan af skilningi.

Í Sturlu þætti er þess getið að Þórður Narfason, seinna lögmaður á Skarði á Skarðsstönd, hafi verið hjá Sturlu veturinn eftir að Sturla kom úr Noregsdvöl sinni. En það er helst talið að einhver Narfasona hafi sett Sturlungu saman og berast böndin helst að Þórði. Svonefndum Sturlunguformála, það er greinargerð ritstjórans fyrir verkinu lýkur með þessum orðum: „Ok treystum vér honum bæði vel til vits og einurðar at segja frá, því at hann vissa ek alvitrastan ok hófsamastan. Láti guð honum nú raun lofi betri.“ Hafa þessi orð almennt verið tekin sem órækt vitni um að leggja mætti trúnað á frásögn Sturlu af atburðum á Sturlungaöld enda hafa sagnfræðirit stuðst mjög við hana. Hafa þau einnig gjarnan verið höfð fyrir satt um aðra sagnaritun hans.

Ítarefni:
  • Sturlustefna. Ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir og Jónas Kristjánsson. (Rit Stofnunar Árna Magnússonar 32) Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1988.
  • Guðrún Nordal. Ethics and Actions in Thirteenth-Century Iceland. (The Viking Collection 11) Odense: Odense U.P., 1998.
  • Úlfar Bragason. Ætt og saga: Um frásagnarfræði Sturlungu eða Íslendinga sögu hinnar miklu. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010.

Mynd:

...