Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Very Large Telescope (VLT) eru fjórir 8,2 metra breiðir stjörnusjónaukar í Paranal-stjörnustöðinni, starfræktir af ESO (European Southern Observatory, ísl. Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli). Paranal-stjörnustöðin er í 2.635 metra hæð yfir sjávarmáli í Atacama-eyðimörkinni í Síle, um 120 km suður af Antofagasta. Auk risasjónaukanna fjögurra eru fjórir aðrir 1,8 metra breiðir aukasjónaukar sem eru færanlegir. Saman geta þessir sjónaukar myndað víxlmæli sem greint getur 1 millibogasekúnduhornbil, eða sem samsvarar bilinu milli ljósa á bíl sem staðsettur væri á tunglinu.
Very Large Telescope (VLT) eru starfræktir af ESO.
SjónaukarnirAtacama-eyðimörkin er einn þurrasti staður jarðar. Þurrt og stillt háfjallaloftið veldur því að aðstæður til rannsókna í stjarnvísindum eru eins og best verður á kosið á jörðinni. Á góðu ári glatast að jafnaði aðeins ein nótt af hverjum tíu vegna óhagstæðra veðurskilyrða. Vegna þessara góðu aðstæðna er Paranal-stjörnustöðin, með VLT-sjónaukana í broddi fylkingar, heimsins fullkomnasta stjörnustöð.
VLT-sjónaukarnir eru flaggskip evrópskra stjarnvísinda. Þeir eru af Ritchey-Chrétien-gerð og á þeim er sægur hágæða mælitækja, litrófsgreina og myndavéla, sem gera stjarnvísindamönnum kleift að kanna alheiminn að stórum hluta á þeim bylgjulengdum rafsegulgeislunar sem komast í gegnum lofthjúpinn (nærútfjólubláum upp í miðinnrautt). Á sjónaukunum eru líka fullkomnustu aðlögunarsjóntæki sem völ er á og leiðrétta þau áhrif ókyrrðar í lofthjúpnum. Það tryggir að sjónaukarnir hafa sérstaklega skarpa sýn á alheiminn, næstum eins skarpa og ef sjónaukarnir væru úti í geimnum. Í nærinnrauðu ljósi ná VLT-sjónaukarnir allt að þrefalt skarpari myndum en Hubble-sjónaukinn með hjálp aðlögunarsjóntækninnar.
Á þessari mynd sést snævi þakið landslag Atacama-eyðimerkurinnar og fjallstindurinn þar sem VLT er. Vinstra megin við VLT er slóð eftir gervitungl og til hægri er loftsteinarák. Sjaldgæft er að þunn fönn þekji dökkt eyðimerkurlandslagið á jafnþurrum stað og Atacama-eyðimörkin er. Myndina tók Yuri Beletsky hjá ESO skömmu fyrir sólarupprás í ágústmánuði árið 2011.
Fyrsti staki sjónaukinn, Antu, bar alheiminn fyrst augum í maí árið 1998 en hóf reglubundin rannsóknarstörf í apríl 1999. Í dag eru allir sjónaukarnir starfræktir og hafa þeir haft ótvíræð áhrif á framfarir í rannsóknum á leyndardómum alheimsins. Með þeim var ein fyrsta ljósmyndin tekin af fjarreikistjörnu, hreyfingar stjarna umhverfis risasvartholið í miðju Vetrarbrautarinnar mældar og mælingar gerðar á glæðum fjarlægasta gammablossa sem fundist hefur hingað til.
Nöfn sjónaukanna
ESO hafði lengi hug á að gefa sjónaukunum fjórum rómantískari nöfn í stað þurru og leiðinlegu tækninafnanna UT1 til UT4. Efnt var til samkeppni meðal skólabarna í nágrenni stjörnustöðvarinnar og í mars 1999 voru valin fjögur nöfn á sjónaukana. Nöfnin eru byggð á uppástungu 17 ára stúlku sem stakk upp á að sjónaukarnir skyldu nefndir eftir nöfnum fyrirbæra himinsins á tungumáli Mapuche-fólksins. Mapuche-fólkið eru innfæddir Sílemenn, sem búa að mestu leyti á svæði sunnan Bio-Bio árinnar, um 500 km sunnan Santiago, höfuðborgar Síle. Sjónaukarnir fjórir nefnast nú:
Vetrarbrautaslæðan yfir hjálparsjónaukunum í Paranal-stjörnustöðinni. Myndina tók Yuri Beletsky hjá ESO
Residencia-hótelið
Alla jafna starfa um 120 manns við Paranal-stjörnustöðina. Þær frábæru rannsóknaaðstæður sem ríkja á Paranal-fjalli eru aftur á móti ekki ákjósanlegar fyrir fólkið. Í þessu umhverfi vex nánast ekkert utandyra. Loftrakinn fellur oft undir 10% og frá sólinni eiga útfjólubláir geislar greiðari leið í gegnum lofthjúpinn. Háfjallaloftið veldur fólki súrefnisskorti og rakatapi. Það er ekki auðvelt að lifa og starfa í þessum aðstæðum.
Til þess að vinna bug á þessu byggði ESO hótel, Residencia, á staðnum. Á hótelinu ríkir gjörólíkt loftslag en utandyra. Þar er loftið rakt og svalt og vísindamenn og annað starfsfólk getur látið líða úr sér í sundlaug þar innandyra.
Hótelið er snilldarlega hannað og fellur nánast fullkomlega inn í eyðimerkurlandslagið. Það var ástæða þess að hótelið kom talsvert við sögu í James Bond-kvikmyndinni Quantum of Solace. Hótelið var þá griðarstaður Dominics Green sem Bond hundelti í myndinni.
Hótelið, Residencia, sem stjörnufræðingar gista á þegar þeir heimsækja Paranal-stjörnustöð ESO í Síle. Myndina tók M. Tarenghi hjá ESO.
VLT-víxlmælirinn
Meginhlutverk VLT-sjónaukanna er að starfa sjálfstætt en hægt er að láta þá starfa saman sem eina heild. Stakur VLT-sjónauki getur greint fyrirbæri sem eru fjórum milljörðum sinnum daufari en hægt er að sjá með berum augum.
Séu sjónaukarnir látnir starfa saman mynda þeir VLT-víxlmælinn. Þá mynda sjónaukarnir fjórir einn 16 metra breiðan sjónauka. Með því að bæta fjórum hjálparsjónaukum við fæst víxlmælir með allt að 200 metra grunnlínu. Sjónaukarnir allir safna ljósinu saman, því er svo beint í gegnum leiðslur neðanjarðar og þar kemur það saman í einn punkt.
Með víxlmælinum nást því svipuð greinigæði og fengjust með einum 200 metra breiðum sjónauka. Þannig getur VLT-víxlmælirinn greint 0,001 bogasekúnduhornbil. Mælirinn einskorðast við fyrirbæri með mikla yfirborðsbirtu en aðeins fyrirbæri sem eru heitari en 1000°C, eins og stjörnur og kjarnar vetrarbrauta, hafa nógu mikla yfirborðsbirtu til þess að gagnast VLT-víxlmælinum. En ef við lítum fram hjá því og setjum áðurnefnt bogasekúnduhornbil í samhengi gæti víxlmælirinn sundurgreint bílljós í bíl sem staðsettur væri á tunglinu. En vegna þess hve yfirborðsbirtan þarf að vera mikil getur mælirinn ekki greint Apollo-geimförin.
Myndir:
Fengnar af Stjörnufræðivefnum. Myndirnar eru upphaflega frá ESO. Ljósmyndarar eru tilgreindir þegar við á. (Sóttar 21.8.2012).
Sævar Helgi Bragason. „Hvað getið þið sagt okkur um risasjónaukana í Atacama-eyðimörkinni í Síle?“ Vísindavefurinn, 11. desember 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63090.
Sævar Helgi Bragason. (2012, 11. desember). Hvað getið þið sagt okkur um risasjónaukana í Atacama-eyðimörkinni í Síle? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63090
Sævar Helgi Bragason. „Hvað getið þið sagt okkur um risasjónaukana í Atacama-eyðimörkinni í Síle?“ Vísindavefurinn. 11. des. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63090>.