sem segist eiga tæki þeirri náttúru gætt, að með því að horfa gegnum sjóngler þess megi greina mjög fjarlæga hluti, eins og í næsta nágrenni séu. Þetta tæki segir hann vera nýja uppfinningu.Handhafi bréfsins var Hans Lipperhey. Strax 2. október var einkaleyfisumsóknin tekin til umræðu á þinginu. Niðurstaðan var sú að einkaleyfi á sjónaukanum var hafnað, að því er virðist vegna ótta um að einkaleyfi myndi útbreiða þekkingu á gerð hans. Hér hafa hugmyndir um hernaðarnot greinilega ráðið ferðinni. Samtímis ákvað þingið að ráða Hans til að smíða allmarga sjónauka og var honum launað ríkulega fyrir. Því hefur verið haldið fram að Henry IV konungur Frakklands hafi komist yfir sjónauka fyrir árslok 1608. Í Frakklandi á maður að nafni Jacques Bovedere að hafa greint mikilvægi sjónaukans fyrir stjörnuathuganir og komið upplýsingum um hann til Ítalans Galíleós Galíleí. Árið eftir, 1609, smíðaði Galíleó sinn fyrsta stjörnusjónauka.
Sú gerð sjónauka sem Hans Lipperhey smíðaði er nefnd tveggja glerja ljósbrotssjónauki. Tvö sjóngler verka saman, þannig að aðfallandi ljósi er safnað saman og þau myndrænu boð sem ljósið ber verða þess vegna skýrari. Það sjóngler sem nær er myndefninu nefnist hlutgler (e. objective) og í því hlutverki er safngler eða kúpt linsa (converging lens, convex lens). Ljósmagnið í sjónaukanum verður þeim mun meiri sem safnglerið hefur stærra þvermál, og myndin verður þá skýrari og bjartari. Hitt glerið sem nær er auganu nefnist augngler (eyepiece, ocular). Í þessum fyrstu sjónaukum Lipperheys og Galíleós var dreifigler (diverging lens, concave lens) í því hlutverki. Sameiginlega verða þessi gler til þess að augað sér stækkaða mynd af hlutnum sem horft er á. Sjóngler hafa verið þekkt frá því um 2000 fyrir okkar tímatal, en slök gæði þessara fyrstu sjónglerja leyfðu ekki umtalsverða notkun. Fyrst um 1300 var hafin notkun sjónglerja í gleraugum og þá var notað náttúrulegt kvartsgler í stað þess tilbúna glers sem við þekkjum í dag. Í fyrstu sjónaukana var einnig notað náttúrulegt kvartsgler. Frekara lesefni af Vísindavefnum
- Hversu stóran sjónauka þarf til þess að geta séð ummerki um tunglendingu Apollo 11? eftir Sævar Helga Bragason
- Hversu stóran kíki þarf ég til að geta skoðað stjörnurnar? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvenær verður næstu kynslóð geimsjónauka skotið á loft? eftir Sævar Helga Bragason
- Hver var Galíleó Galíleí? eftir Hrafnhildi L. Runólfsdóttur og Þorstein Vilhjálmsson