Greinigæði sjónauka og reyndar einnig augna mælast í bogasekúndum. Greinigæði mannsauga eru best um 28 bogasekúndur en greinigæði Hubblesjónaukans eru 2000 sinnum meiri eða 0,0127 bogasekúndur. Þetta þýðir að sjónaukinn getur hæglega greint milli bílljósa í 30.000 km fjarlægð. Tunglið er 1800 bogasekúndur í þvermál og það þýðir að allt sem er minna en 200 metrar í þvermál lítur út eins og óskýr punktur fyrir augum Hubbles. Þrátt fyrir að sjónaukar á jörðinni séu stærri en Hubble, eru greinigæði þeirra minni vegna lofthjúpsins. Við getum því útilokað bæði Hubblesjónaukann og sjónauka á jörðinni til að sanna tungllendingarnar, því stærstu hlutirnir sem skildir voru eftir á tunglinu eru neðri helmingur lendingarfarsins og tungljeppinn, hvort tveggja einungis nokkrir metrar að stærð. Hubblesjónaukinn og aðrir sjónaukar á jörðinni geta einfaldlega ekki séð svo smáa hluti á yfirborði tunglsins. Jafnvel þó að Hubble gæti séð tungllendingarsvæðin, væri nokkrum vandkvæðum bundið að mynda þau. Tunglið ferðast nefnilega hraðar um himininn en nokkurt annað fyrirbæri himinsins og Hubblesjónaukinn getur ekki fylgt eftir fyrirbæri sem ferðast svo hratt. Það er engu að síður til leið til þess að mynda svæðin. Ef mynd er tekin á hárréttu augnabliki, við sólsetur eða sólarupprás séð frá lendingarsvæðunum, er hægt að sjá skuggana sem myndast frá hlutunum á yfirborðinu. Þetta er hins vegar erfitt ferli og á yfirborðinu er líka steinar, hæðir og fjöll sem varpa líka skugga og flækja málið. En hversu stór þyrfti sjónauki að vera svo hægt væri að sjá leifarnar? Ef stærstu hlutirnir sem skildir voru eftir á tunglinu eru um tveir metrar í þvermál, gæti sjónauki með 150 metra spegil og 0,001 bogasekúndna greinigæði, hæglega séð leifarnar. VLT sjónaukarnir (Very Large Telescope) fjórir í Chile ættu að geta gert þetta, en þeir gætu greint milli bílljósa á tunglinu. Bygging þeirra sést hér að neðan.
Heimildir:
- Freedman, R. A. og Kaufmann, William. Universe. W. H. Freedman and Company, New York, 1998. 5. útgáfa.
- Gunnlaugur Björnsson. Undur Veraldar, ritstj. Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimskringla, Reykjavík, 1988.
- Plait, Philip. Bad Astronomy: Misconceptions and Misuses Revealed from Astrology to the Moon Landing ‘Hoax’. Wiley and Sons, Bandaríkin, 2002.