Fleiri staðir koma til greina þegar finna á þann stað þar sem mest rignir, til dæmis bærinn Lloro í Kólumbíu í Suður-Ameríku en þar á ársúrkoma að hafa verið 13.300 mm. Þetta er hins vegar áætluð úrkoma og ekki opinbert úrkomumet. Síðan má nefna fjallið Wai‛ale‛ale á eyjunni Kaua‛i í Hawaii-eyjaklasanum. Þar er meðalársúrkoma um 11.680 mm. Ólíkt stöðunum tveimur á Indlandi sem nefndir eru í upphafi þá er úrkoman ekki árstíðabundin á þessari eyju heldur dreifist hún jafnar yfir árið. Þannig má kannski segja að þetta sé votviðrasamasti staður á jörðinni þó heildarmagnið sé eitthvað örlítið minna annars staðar. Mesta sólahringsúrkoma sem mælst hefur á jörðinni var hins vegar á eyjunni Réunion í Indlandshafi en 15.-16. mars 1952 mældist úrkoman þar 1.870 mm. Þurrasti staður jarðar er hins vegar gjarnan talinn vera Atacama-eyðimörkin í norður Chile meðfram strönd Kyrrahafsins. Á einhverjum veðurstöðvum í eyðimörkinni hefur ekki mælst úrkoma áratugum saman. Ólíkt mörgum öðrum þekktum eyðimörkum, svo sem Sahara í Afríku, er Atacama-eyðumörkin ekki mjög heitur staður; meðalhiti yfir daginn er á bilinu 0°C-25°C. Háþrýstisvæði á Kyrrahafi kemur í veg fyrir að úrkoma berist inn yfir Atacama-eyðimörkina úr vestri og hinn mikli Andesfjallgarður sem liggur með allri vesturströnd Suður-Ameríku kemur í veg fyrir úrkomu úr austri þar sem mest allur raki er farinn úr loftinu þegar það berst vestur yfir fjöllin. Til samanburðar við þessa úrkomumestu og þurrustu staði heims má geta þess að mesta ársúrkoma sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð var á Kvískerjum í Öræfum árið 2002, 4630,4 mm, en ákomumælingar á jöklum benda til mun meiri ársúrkomu þar en í byggð. Mesta mánaðarúrkoma á landinu mældist á Kollaleiru í Reyðarfirði í október 2002, 971,5 mm, en mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi kom úr mælinum á Kvískerjum að morgni 10. janúar 2002, 293,2 mm. Nánar er fjallað um úrkomumet á Íslandi í svari Trausta Jónssonar við spurningunni Hvar á landinu hefur komið mest úrkoma? Einnig má benda svar Haraldar Ólafssonar við spurningunni Af hverju myndast ský og af hverju falla þau ekki til jarðar? þar sem hægt er að fræðast meira um úrkomu. Heimildir:
- Cherrapunji á Encyclopædia Britannica Online. Skoðað 16. 6. 2008.
- Cherrapunji á Wikipedia. Skoðað 16. 6. 2008.
- Driest Place á Extreme Science. Skoðað 13. 6. 2008.
- Global Measured Extremes of Temperature and Precipitation á National Climatic Data Center. Skoðað 16. 6. 2008.
- Global Weather & Climate Extremes á World Meteorological Organization . Skoðað 17. 6. 2008.
- Mawsynram á Wikipedia. Skoðað 16. 6. 2008.
- Stefan Anitei. The Driest Place on Earth: the Atacama Desert á Softpedia. Skoðað 16. 6. 2008
- Trausti Jónsson. Mesta úrkoma á Íslandi á vef Veðurstofu Íslands. Skoðað 16. 6. 2008.
- Wettest Place á Extreme Science. Skoðað 13. 6. 2008.
- Wettest Place on Earth á Universe Today. Skoðað 16. 6. 2008.
- Þorsteinn Sæmundsson. Almanak fyrir Ísland árið 2003. Reykjavík, Háskóli Íslands. 2002.
- Kort af Indlandi: Perry-Castañeda Library Map Collection. Sótt 17. 6. 2008.
- Kort sem sýnir meðalársúrkomu: Grolier Online. Sótt 18. 6. 2008.
Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008.