Stjörnufræðingar segja oft að tvær stjörnur séu um tíu gráður hvor frá annarri. Það þýðir að ef línur væru dregnar frá augum athuganda, þar sem hann eru miðja ímyndaðs hrings, til hvorrar stjörnu, myndu línunar tvær mynda 10° horn við augu hans. Þannig er fjarlægðin milli leiðarastjarnanna Dubeh og Merak í Stóra-Birni 5°, en þessar stjörnur benda einmitt á Pólstjörnuna í Litla-Birni. Stjörnufræðingar nota hornmálin einnig til að lýsa sýndarstærð himinfyrirbæra. Til dæmis er hornið sem fullt tungl myndar á himninum um ½°. Við segjum því að sýndarþvermál tunglsins sé ½°. Á himninum eru tunglið og sólin þau fyrirbæri sem hafa mesta sýndarstærð, þó að þau séu ekki nema ½° í þvermál. Eins og við vitum og sjáum á nóttinni er sýndarþvermál stjarnanna miklu minna en tungls og sólar og því langt innan við eina gráðu. Til þess að skilgreina smærri horn skiptum við því einni gráðu í 60 bogamínútur sem eru táknaðar með ´, til dæmis 60´. Bogamínúta er mjög smá eining en þó of stór til að mæla stjörnurnar og því er til enn smærri eining sem við nefnum bogasekúndu. Ein bogasekúnda er sextugasti huti úr bogamínútu eða 1/3600 úr gráðu og 1/1296000 úr hring. Í þessari mjög smáu einingu mælast til að mynda greinigæði augna og sjónauka, aðskilnaður tvístirna og sýndarþvermál sumra fyrirbæra himinsins. Sem dæmi má nefna að ef fjarlægð milli tveggja fyrirbæra á himninum væri fjórði hluti úr gráðu, er sagt að fjarlægðin milli þeirra sé 15 bogamínútur. Björtustu reikistjörnurnar eru hins vegar oft aðeins nokkrar bogasekúndur að þvermáli. Sem dæmi má nefna að 1. janúar árið 1998 var sýndarþvermál Satúrnusar aðeins 17,9 bogasekúndur. Þar sem þetta er svo lítil stærð var engin leið að sjá einhver smáatriði á Satúrnusi, eins og til dæmis hringina, og því þyrftum við að notast við sjónauka til að sjá hana nánar. Sjónaukinn eykur þá sýndarþvermál Satúrnusar. Væri spegill sjónaukans 10 sentímetrar að þvermáli, gæti hann greint smáatriði sem væru aðeins 1 bogasekúnda. Þetta jafngildir því að geta séð breidd krónupenings í 4 kílómetra fjarlægð.
- Hversu stóran sjónauka þarf til þess að geta séð ummerki um tungllendingu Apollo 11? eftir Sævar Helga Bragason.
- Er eitthvað sérstakt við Pólstjörnuna? eftir Sævar Helga Bragason.
- Freedman, R. A. og Kaufmann, William. Universe. W. H. Freedman and Company, New York, 1998. 5. útgáfa.
- Vefsíða Sky & Telescope.
Mynd af Stóra Birni: allthesky.com - Digital Images of the Sky