Þegar við höldum í suðurátt frá Reykjavík lækkar Pólstjarnan smám saman á himninum, um jafnmargar gráður og landfræðileg breidd minnkar, eða um eina gráðu fyrir hverja 111 km sem við færumst suður á bóginn. Þetta sést vel á myndinni hér á eftir.
Í mörgum menningarsamfélögum hafa menn notfært sér Pólstjörnuna til að rata um ókunn lönd og um hafið í siglingum. Hæð hennar segir til um landfræðilega breidd og stefnan til hennar sýnir norður eins og hér hefur verið lýst. Hér á norðurslóð er hún svo hátt á lofti að hún sýnir norður ekki alveg eins skýrt og í suðlægari löndum. Auk þess eru bjartar nætur hér á sumrin eins og kunnugt er og menn geta þá ekki notað Pólstjörnuna í þessum tilgangi á ferðalögum.