Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Edwin Powell Hubble fæddist í bænum Marshfield í Missouri-ríki í Bandaríkjunum þann 29. nóvember 1889. Strax sama ár fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til borgarinnar Wheaton í Illinois-ríki. Hubble heillaðist snemma af undrum vísindanna og átti það til að sökkva sér í vísindaskáldsögur eftir Jules Verne og Henry Rider Haggard.
Edwin Hubble var fyrirtaks nemandi en jafnvel enn betri íþróttamaður og til marks um það átti hann um tíma ríkismet Illinois í hástökki. Í háskóla hélt Hubble áfram íþróttaiðkun sinni og stundaði þar aðallega körfuknattleik og hnefaleika, en lærði þess á milli fyrir háskólapróf í stærðfræði, stjörnufræði og heimspeki.
Um 1910 hélt Hubble til Oxford-háskóla í Englandi á námsstyrk en hélt ekki áfram að læra stjörnufræði, heldur lagði stund á laganám og spænsku. Árið 1913 sneri hann heim frá Englandi og var staðráðinn í að starfa sem lögfræðingur og setti upp litla stofu í Louisville í Kentucky. Smám saman varð honum þó ljóst að hann naut sín ekki sem lögfræðingur og að aðaláhugamál hans var stjörnufræði. Hann ákvað að snúa sér að stjörnufræðinni, réð sig til starfa við Yerkes-athugunarstöðina og útskrifaðist með doktorsgráðu frá Chicago-háskóla árið 1917.
Eftir að hafa gegnt herskyldu í fyrri heimsstyrjöldinni hóf Hubble störf við stjörnuathugunarstöðina á Wilson-fjalli í Kaliforníu. Aðalrannsóknarverkefni hans voru þokur, daufir ljósblettir á himninum sem enginn vissi hvað væru. Árið 1924 tilkynnti hann um uppgötvun á Sefítum, eða breytistjörnum í Andrómedu-vetrarbrautinni. Kona sem starfaði við Harvard-háskóla, Henrietta Leavitt að nafni, fann út leið til þess að reikna fjarlægð til Sefíta og með aðferðum hennar tókst Hubble að komast að því að Sefítarnir voru mjög fjarlægir og gátu því ekki verið innan Vetrarbrautarinnar okkar. Henrietta sjálf fékk aldrei að taka þátt í rannsóknunum því að konum var meinaður aðgangur að stjörnusjónaukanum vegna þess að stjórnandi stöðvarinnar taldi þær trufla karlmennina sem þar unnu. En vegna uppgötvunar Hubbles og útreikninga Henriettu varð alheimurinn allt í einu miklu stærri en áður var talið.
Uppgötvun þeirra varð til þess að fleiri og fleiri vetrarbrautir fundust. Hubble byrjaði þá skilgreina vetrarbrautirnar út frá stjörnunum í þeim, fjarlægð þeirra, lögun og birtu, en mitt í þessu krefjandi verkefni gerði hann aðra mjög mikilvæga uppgötvun. Með því að athuga rauðvikið í ljósinu frá vetrarbrautunum gat hann séð að þær voru að fjarlægast hver aðra með hraða sem er í réttu hlutfalli við fjarlægðina. Með öðrum orðum, eftir því sem fjarlægðin milli vetrarbrautanna jókst, því hraðar fjarlægðust þær. Hlutfallið hefur verið nefnt Hubble-stuðullinn. Þessi uppgötvun varð til staðfestingar á Miklahvellskenningunni og þar með að heimurinn væri að þenjast út. Hubble reyndi að reikna út upphafpunkt útþenslunnar og þar með aldur alheimsins og taldi hann vera um tveggja milljarða ára, en í dag eru 20 milljarðar taldir nær lagi.
Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út vildi Hubble ganga aftur í herinn og berjast, en sannfærðist þó að lokum um að hann gæti verið þjóðfélaginu dýrmætari sem vísindamaður en hermaður.
Þegar 200 þumlunga sjónaukinn á Palomar-fjalli var opnaður, varð Hubble þess heiðurs aðnjótandi að nota hann fyrstur. Aðspurður um hvað hann vonaðist eftir að finna með nýja sjónaukanum svaraði Hubble: "Við vonumst til að finna eitthvað sem við áttum ekki von á".
Edwin Hubble hélt áfram störfum bæði við sjónaukann á Wilson-fjalli og á Palomar-fjalli alveg þar til hann lést þann 28. september árið 1953. Banamein hans var segastífla í heila. Til heiðurs honum nefndu menn sjónauka sem hefur opnað mönnum mikilfenglegri sýn út í alheiminn en nokkur annar sjónauki í sögunni, Hubble sjónaukann.
Útbúinn fimm skilningarvitum, kannar maðurinn alheiminn umhverfis hann og kallar ævintýrin vísindi. -- Edwin Hubble.
Sævar Helgi Bragason. „Hvernig tengist Edwin Hubble sjónaukanum sem við hann er kenndur?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2003, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3128.
Sævar Helgi Bragason. (2003, 11. febrúar). Hvernig tengist Edwin Hubble sjónaukanum sem við hann er kenndur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3128
Sævar Helgi Bragason. „Hvernig tengist Edwin Hubble sjónaukanum sem við hann er kenndur?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2003. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3128>.