Margir reyndu að gera sig ónæma með frumstæðri ónæmisaðgerð (e. variolation), þar sem heilbrigður einstaklingur var smitaður með vessa af mildara afbrigði bólusóttarinnar til að mynda ónæmi gegn alvarlegra afbrigði hennar. Þessi siður hafði verið stundaður í margar aldir í Kína og á Indlandi, en var „fluttur inn“ til Englands 1721-1722 af eiginkonu breska sendiherrans í Tyrklandi, Mary Wortley Montagu, sem hafði séð þessa ónæmisaðgerð framkvæmda þar. En þó að ónæmisaðgerðin hafi án efa bjargað mörgum var hún líka áhættusöm og stundum lést fólk af smitinu. Einnig var hætta á að smitaðir einstaklingar breiddu út sjúkdóminn til annarra sem ekki höfðu ónæmi gegn honum. Jenner vissi að þeir einstaklingar sem fengið höfðu kúabólu fengu ekki bólusótt. Með rannsóknum og athugunum sínum, þar sem hann fylgdist meðal annars með mjaltastúlkum sem fengið höfðu kúabólu, var næsta skrefið stigið. Árið 1796 framkvæmdi hann það sem nú er fræg tilraun, er hann tók vessa úr bólu ungrar mjaltastúlku, Söru Nelmes, og sprautaði honum í handlegg 8 ára gamals drengs, James Phipps að nafni, sem aldrei hafði fengið bólusótt. Phipps varð smávægilega veikur en jafnaði sig fljótt. Sex vikum síðar bólusetti hann drenginn aftur og í þetta skipti með bólusóttarvessa. James sýndi engin einkenni og þar með sýndi Jenner fram á að aðferðin skapaði ónæmi fyrir bólusóttinni. Jenner kallaði ónæmisaðgerðina "vaccine" (e. vaccination, merkir bólusetning) úr orðin "vacca" sem þýðir kýr á latínu. Eftir að hafa gert fleiri prófanir, þar á meðal að bólusetja sinn eigin 11 mánaða gamla son, gaf hann sjálfur út litla bók, An Inquiry into the Causes and Effects of the Variolae Vaccinae, árið 1798.3 Viðbrögðin við bókinni vöktu bæði fordæmingu og eftirvæntingu. Menn gagnrýndu hann til að mynda harðlega fyrir að bólusetja fólk með vessa úr sýktu dýri. En greinilegir kostir ónæmisaðgerðarinnar og vörnin sem hún veitti gegn hinum hrikalega sjúkdómi sigraði og bóluefnið varð um síðir útbreitt. Um 1800 höfðu um 100.000 manns verið bólusettir gegn bólusóttinni um heim allan.4
Þó að uppgötvun Jenners væri ekki sérlega vel tekið í Englandi til að byrja með þá hlaut hann fljótt viðurkenningu í öðrum löndum. Hann sendi bóluefni sitt út um allan heim og smám saman breiddist bólusetningaraðferðin út. Árið 1803 sendi Spánarkonungur leiðangur til nýlendna sinna í þeim tilgangi að bólusetja íbúana. Napóleón hafði líka trú á Jenner og árið 1805 hafði hann látið bólusetja alla hermenn sína með „bóluefni Jenners“. Í virðingarskyni við Jenner leysti Napóleón úr haldi tvo stríðsfanga eftir að Jenner hafði persónulega talað máli þeirra en heimildir greina frá því að Napóleón hafi sagt: „Ah Jenner, ég get ekki neitað honum um neitt.“5 Jenner hlaut ýmsan annan heiður bæði heima og erlendis. Háskólar og ýmis félög um heim allan sæmdu hann heiðursnafnbótum, hann fékk hring frá rússnesku keisaraynjunni og gjöf frá indjánahöfðingjum Norður-Ameríku og styttur voru reistar honum til heiðurs allt frá London til Tókýó. Hann eyddi þó mestum tíma sínum við rannsóknir og ráðgjöf í þróun og dreifingu á bóluefni sínu, ásamt því að rannsaka aðra þætti á sviði læknisfræðinnar. Hann gerði þó engar tilraunir til að hagnast af uppgötvun sinni, raunar varði hann svo miklum tíma í rannsóknir sínar að læknastofa hans og einkalíf liðu fyrir. Jenner giftist árið 1788 og eignaðist fjögur börn. Fjölskyldan bjó í Berkeley, í Chantry House, sem var gert að safni árið 1985. Jenner byggði lítið skýli í garði sínum sem hann kallað „Bólusetningarhofið“ (Temple of Vaccinia) þar sem hann bólusetti fátæka ókeypis. Hann hélt áfram að sinna áhuga sínum á náttúrunni, með sérstakri áherslu á fugla, og síðasta árið sem hann lifði kynnti hann rit sitt, Observations on the Migration of Birds, fyrir Royal Society. Hann lést 26. janúar 1823 af völdum heilablóðfalls og var jarðsettur í heimabæ sínum Berkeley. Mikilvægi framlags Jenners til læknisfræðinnar felst ekki aðeins í því að hann bólusetti fólk með kúabóluvessa, heldur að hann sannaði að aðgerðin gerði menn ónæma gegn bólusóttinni. Hann gerði líka bólusetninguna aðgengilega fyrir fjölda fólks sem hafði aldrei heyrt um framkvæmd slíkrar aðgerðar áður. Þetta var fyrsta bóluefnið sem þróað hafði verið sem sýndi árangur og var eina forvörnin gegn hinum banvæna sjúkdómi. Hið þýðingarmikla starf hans endaði ekki með dauða hans, bólusetningin lagði grunninn að nútímaónæmisfræði. Uppgötvun hans var gríðarlega mikilvæg læknisfræðilega og hefur bjargað óteljandi mannslífum. Engin lækning er til við bólusótt önnur en meðferð sem dregur úr einkennum sjúkdómsins.6 Árið 1979 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO yfir að bólusótt hefði verið útrýmt. Tilvísanir:
- 1Joseph McNally. 2001. Biography: A brief life of Dr Edward Jenner. Seminars in Pediatric Infectious Diseases, vol 12 (1): 81-84.
- 2 Smallpox á WHO (World Health Organization).
- 3 Kara Rogers ritstj., Medicine and Healers Through History, Rosen Educational Services, 2011, bls. 48.
- 4 Jenner, Edward á Medical Discoveries.
- 5 Sheryl Persson, Smallpox, Syphilis and Salvation: Medical Breakthroughs that changed the World, Kindle edition, 2010, bls. 35.
- 6 Smallpox á WHO (World Health Organization).
- Mynd af Jenner: Edward Jenner á Founders of Biological and Medical Sciences. Sótt 8. 7. 2011.
- Mynd af sjúklingi með bólusótt: Learn NC. Sótt 11. 7. 2011.
- Skopmynd: Cowpox á Wikipedia. Sótt 8. 7. 2011.