Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Edward Jenner og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?

Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir

Edward Jenner hefur yfirleitt verið álitinn brautryðjandi bólusetninga gegn bólusótt og stundum kallaður faðir ónæmisfræðinnar. Rannsóknir Jenners á ónæmisaðgerðum með kúabóluvessa gegn bólusótt árið 1798 gáfu mönnum í fyrsta sinn von um að loks væri hægt að ná tökum á þessum hræðilega sjúkdómi.

Edward Jenner fæddist í Berkeley í Gloucestershire í Englandi 18. maí 1749, sonur sóknarprestsins. Þegar Jenner var aðeins 5 ára gamall missti hann báða foreldra sína og tók þá elsti bróðir hans Stephen, sem var prestur líkt og faðir þeirra, hann að sér. Ungur sýndi Jenner mikinn áhuga á náttúrunni sem hann unni alla ævi. Eitt aðaláhugamál hans var að leita að steingervingum í setlögum nærliggjandi hamra og kletta.

Jenner ákvað mjög snemma að læra læknisfræði og árið 1761 þegar hann var einungis 13 ára gamall var honum komið fyrir í lærlingsvist hjá sveitalækni að nafni Dr. Ludlow nálægt Bristol, þar sem hann nam bæði skurðlækningar og lyfjafræði. Það var þar sem hann heyrði mjaltastúlku segja: „Ég mun aldrei fá bólusótt, því ég hef fengið kúabólu.“1 Því var almennt trúað að mjaltastúlkur væru á einhvern hátt verndaðar gegn bólusótt. Þessi orð gætu hafa haft áhrif á ákvörðun hans að leita ónæmis gegn bólusótt með bóluefnisvessa úr kúabólu.

Árið 1770 fór Jenner til London til að ljúka menntun sinni. Þar sem engir háskólar voru í London á þessum tíma hélt hann þjálfun sinni áfram undir handleiðslu skoska skurðlæknisins John Hunter (1728-1793) á St. Georges-spítalanum. Hunter var einn virtasti vísindamaður og krufninga- og skurðlæknir þeirra tíma og þrátt fyrir að samskipti milli þeirra Jenners væru stundum stirð urðu þeir góðir vinir og entist vinátta þeirra til dauðadags Hunters. Hunter örvaði áhuga Jenners á náttúruvísindum og rannsóknir Jenners á gaukum urðu til þess að hann var gerður félagi í hinu virta vísindafélagi Royal Society. Hann átti sér mörg áhugamál og spilaði auk þess á fiðlu og skrifaði ljóð.

Árið 1772 sneri Jenner aftur til heimasveitarinnar Berkeley og varði mestum þeim tíma sem hann átti eftir ólifað sem læknir og skurðlæknir þar. Sem sveitalæknir átti hann oft eftir að hugsa til orða mjaltastúlkunnar um mátt kúabólunnar sem vörn gegn bólusótt, en það var árið 1796 sem hann tók fyrstu skrefin í löngu ferli í að útrýma einni af plágum mannkynsins, bólusóttinni.

Bólusótt (e. smallpox) er mjög smitandi sjúkdómur sem herjar aðeins á manninn og er einn af hrikalegustu sjúkdómum sem mannkynið hefur komist í kynni við. Afbrigði bólusóttar eru tvö. Variola major er mun skæðari og algengari, með miklum útbrotum og háum hita og getur dánartíðni verið á bilinu 3-35%. Variola minor er mildara afbrigði og dánartíðnin er rétt innan við 1%. Bólusótt hefur hrjáð mannkynið í þúsundir ára, bæði í Asíu og Evrópu. Sjúkdómurinn var útbreiddur á 18. öldinni og gusu upp faraldrar sem ollu miklum manndauða og þeir sem lifðu af voru oft illa skaddaðir og öróttir eftir bóluna. Blinda var algengur fylgikvilli og á 18. öld var þriðjungur allra skráðra tilfella blindu afleiðing bólusóttar.2



Útbrotin sem fylgja bólusóttinni koma fyrst á andlit og útlimi og breiðast síðan yfir á bolinn. Þau breytast síðan í upphleyptar bólur sem fyllast greftri. Næstu 1-2 vikurnar hreistra bólurnar og skilja síðan eftir sig ör.

Margir reyndu að gera sig ónæma með frumstæðri ónæmisaðgerð (e. variolation), þar sem heilbrigður einstaklingur var smitaður með vessa af mildara afbrigði bólusóttarinnar til að mynda ónæmi gegn alvarlegra afbrigði hennar. Þessi siður hafði verið stundaður í margar aldir í Kína og á Indlandi, en var „fluttur inn“ til Englands 1721-1722 af eiginkonu breska sendiherrans í Tyrklandi, Mary Wortley Montagu, sem hafði séð þessa ónæmisaðgerð framkvæmda þar. En þó að ónæmisaðgerðin hafi án efa bjargað mörgum var hún líka áhættusöm og stundum lést fólk af smitinu. Einnig var hætta á að smitaðir einstaklingar breiddu út sjúkdóminn til annarra sem ekki höfðu ónæmi gegn honum.

Jenner vissi að þeir einstaklingar sem fengið höfðu kúabólu fengu ekki bólusótt. Með rannsóknum og athugunum sínum, þar sem hann fylgdist meðal annars með mjaltastúlkum sem fengið höfðu kúabólu, var næsta skrefið stigið. Árið 1796 framkvæmdi hann það sem nú er fræg tilraun, er hann tók vessa úr bólu ungrar mjaltastúlku, Söru Nelmes, og sprautaði honum í handlegg 8 ára gamals drengs, James Phipps að nafni, sem aldrei hafði fengið bólusótt. Phipps varð smávægilega veikur en jafnaði sig fljótt. Sex vikum síðar bólusetti hann drenginn aftur og í þetta skipti með bólusóttarvessa. James sýndi engin einkenni og þar með sýndi Jenner fram á að aðferðin skapaði ónæmi fyrir bólusóttinni. Jenner kallaði ónæmisaðgerðina "vaccine" (e. vaccination, merkir bólusetning) úr orðin "vacca" sem þýðir kýr á latínu. Eftir að hafa gert fleiri prófanir, þar á meðal að bólusetja sinn eigin 11 mánaða gamla son, gaf hann sjálfur út litla bók, An Inquiry into the Causes and Effects of the Variolae Vaccinae, árið 1798.3 Viðbrögðin við bókinni vöktu bæði fordæmingu og eftirvæntingu. Menn gagnrýndu hann til að mynda harðlega fyrir að bólusetja fólk með vessa úr sýktu dýri. En greinilegir kostir ónæmisaðgerðarinnar og vörnin sem hún veitti gegn hinum hrikalega sjúkdómi sigraði og bóluefnið varð um síðir útbreitt. Um 1800 höfðu um 100.000 manns verið bólusettir gegn bólusóttinni um heim allan.4



Skopmynd eftir James Gillray (1757-1815) frá árinu 1802 þar sem Jenner bólusetur fólk sem síðan fær ýmsan „kúalegan“ útvöxt.

Þó að uppgötvun Jenners væri ekki sérlega vel tekið í Englandi til að byrja með þá hlaut hann fljótt viðurkenningu í öðrum löndum. Hann sendi bóluefni sitt út um allan heim og smám saman breiddist bólusetningaraðferðin út. Árið 1803 sendi Spánarkonungur leiðangur til nýlendna sinna í þeim tilgangi að bólusetja íbúana. Napóleón hafði líka trú á Jenner og árið 1805 hafði hann látið bólusetja alla hermenn sína með „bóluefni Jenners“. Í virðingarskyni við Jenner leysti Napóleón úr haldi tvo stríðsfanga eftir að Jenner hafði persónulega talað máli þeirra en heimildir greina frá því að Napóleón hafi sagt: „Ah Jenner, ég get ekki neitað honum um neitt.“5

Jenner hlaut ýmsan annan heiður bæði heima og erlendis. Háskólar og ýmis félög um heim allan sæmdu hann heiðursnafnbótum, hann fékk hring frá rússnesku keisaraynjunni og gjöf frá indjánahöfðingjum Norður-Ameríku og styttur voru reistar honum til heiðurs allt frá London til Tókýó. Hann eyddi þó mestum tíma sínum við rannsóknir og ráðgjöf í þróun og dreifingu á bóluefni sínu, ásamt því að rannsaka aðra þætti á sviði læknisfræðinnar. Hann gerði þó engar tilraunir til að hagnast af uppgötvun sinni, raunar varði hann svo miklum tíma í rannsóknir sínar að læknastofa hans og einkalíf liðu fyrir. Jenner giftist árið 1788 og eignaðist fjögur börn. Fjölskyldan bjó í Berkeley, í Chantry House, sem var gert að safni árið 1985. Jenner byggði lítið skýli í garði sínum sem hann kallað „Bólusetningarhofið“ (Temple of Vaccinia) þar sem hann bólusetti fátæka ókeypis. Hann hélt áfram að sinna áhuga sínum á náttúrunni, með sérstakri áherslu á fugla, og síðasta árið sem hann lifði kynnti hann rit sitt, Observations on the Migration of Birds, fyrir Royal Society. Hann lést 26. janúar 1823 af völdum heilablóðfalls og var jarðsettur í heimabæ sínum Berkeley.

Mikilvægi framlags Jenners til læknisfræðinnar felst ekki aðeins í því að hann bólusetti fólk með kúabóluvessa, heldur að hann sannaði að aðgerðin gerði menn ónæma gegn bólusóttinni. Hann gerði líka bólusetninguna aðgengilega fyrir fjölda fólks sem hafði aldrei heyrt um framkvæmd slíkrar aðgerðar áður. Þetta var fyrsta bóluefnið sem þróað hafði verið sem sýndi árangur og var eina forvörnin gegn hinum banvæna sjúkdómi. Hið þýðingarmikla starf hans endaði ekki með dauða hans, bólusetningin lagði grunninn að nútímaónæmisfræði.

Uppgötvun hans var gríðarlega mikilvæg læknisfræðilega og hefur bjargað óteljandi mannslífum. Engin lækning er til við bólusótt önnur en meðferð sem dregur úr einkennum sjúkdómsins.6 Árið 1979 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO yfir að bólusótt hefði verið útrýmt.

Tilvísanir:

Myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

22.7.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir. „Hver var Edward Jenner og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 22. júlí 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60231.

Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir. (2011, 22. júlí). Hver var Edward Jenner og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60231

Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir. „Hver var Edward Jenner og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 22. júl. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60231>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Edward Jenner og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?
Edward Jenner hefur yfirleitt verið álitinn brautryðjandi bólusetninga gegn bólusótt og stundum kallaður faðir ónæmisfræðinnar. Rannsóknir Jenners á ónæmisaðgerðum með kúabóluvessa gegn bólusótt árið 1798 gáfu mönnum í fyrsta sinn von um að loks væri hægt að ná tökum á þessum hræðilega sjúkdómi.

Edward Jenner fæddist í Berkeley í Gloucestershire í Englandi 18. maí 1749, sonur sóknarprestsins. Þegar Jenner var aðeins 5 ára gamall missti hann báða foreldra sína og tók þá elsti bróðir hans Stephen, sem var prestur líkt og faðir þeirra, hann að sér. Ungur sýndi Jenner mikinn áhuga á náttúrunni sem hann unni alla ævi. Eitt aðaláhugamál hans var að leita að steingervingum í setlögum nærliggjandi hamra og kletta.

Jenner ákvað mjög snemma að læra læknisfræði og árið 1761 þegar hann var einungis 13 ára gamall var honum komið fyrir í lærlingsvist hjá sveitalækni að nafni Dr. Ludlow nálægt Bristol, þar sem hann nam bæði skurðlækningar og lyfjafræði. Það var þar sem hann heyrði mjaltastúlku segja: „Ég mun aldrei fá bólusótt, því ég hef fengið kúabólu.“1 Því var almennt trúað að mjaltastúlkur væru á einhvern hátt verndaðar gegn bólusótt. Þessi orð gætu hafa haft áhrif á ákvörðun hans að leita ónæmis gegn bólusótt með bóluefnisvessa úr kúabólu.

Árið 1770 fór Jenner til London til að ljúka menntun sinni. Þar sem engir háskólar voru í London á þessum tíma hélt hann þjálfun sinni áfram undir handleiðslu skoska skurðlæknisins John Hunter (1728-1793) á St. Georges-spítalanum. Hunter var einn virtasti vísindamaður og krufninga- og skurðlæknir þeirra tíma og þrátt fyrir að samskipti milli þeirra Jenners væru stundum stirð urðu þeir góðir vinir og entist vinátta þeirra til dauðadags Hunters. Hunter örvaði áhuga Jenners á náttúruvísindum og rannsóknir Jenners á gaukum urðu til þess að hann var gerður félagi í hinu virta vísindafélagi Royal Society. Hann átti sér mörg áhugamál og spilaði auk þess á fiðlu og skrifaði ljóð.

Árið 1772 sneri Jenner aftur til heimasveitarinnar Berkeley og varði mestum þeim tíma sem hann átti eftir ólifað sem læknir og skurðlæknir þar. Sem sveitalæknir átti hann oft eftir að hugsa til orða mjaltastúlkunnar um mátt kúabólunnar sem vörn gegn bólusótt, en það var árið 1796 sem hann tók fyrstu skrefin í löngu ferli í að útrýma einni af plágum mannkynsins, bólusóttinni.

Bólusótt (e. smallpox) er mjög smitandi sjúkdómur sem herjar aðeins á manninn og er einn af hrikalegustu sjúkdómum sem mannkynið hefur komist í kynni við. Afbrigði bólusóttar eru tvö. Variola major er mun skæðari og algengari, með miklum útbrotum og háum hita og getur dánartíðni verið á bilinu 3-35%. Variola minor er mildara afbrigði og dánartíðnin er rétt innan við 1%. Bólusótt hefur hrjáð mannkynið í þúsundir ára, bæði í Asíu og Evrópu. Sjúkdómurinn var útbreiddur á 18. öldinni og gusu upp faraldrar sem ollu miklum manndauða og þeir sem lifðu af voru oft illa skaddaðir og öróttir eftir bóluna. Blinda var algengur fylgikvilli og á 18. öld var þriðjungur allra skráðra tilfella blindu afleiðing bólusóttar.2



Útbrotin sem fylgja bólusóttinni koma fyrst á andlit og útlimi og breiðast síðan yfir á bolinn. Þau breytast síðan í upphleyptar bólur sem fyllast greftri. Næstu 1-2 vikurnar hreistra bólurnar og skilja síðan eftir sig ör.

Margir reyndu að gera sig ónæma með frumstæðri ónæmisaðgerð (e. variolation), þar sem heilbrigður einstaklingur var smitaður með vessa af mildara afbrigði bólusóttarinnar til að mynda ónæmi gegn alvarlegra afbrigði hennar. Þessi siður hafði verið stundaður í margar aldir í Kína og á Indlandi, en var „fluttur inn“ til Englands 1721-1722 af eiginkonu breska sendiherrans í Tyrklandi, Mary Wortley Montagu, sem hafði séð þessa ónæmisaðgerð framkvæmda þar. En þó að ónæmisaðgerðin hafi án efa bjargað mörgum var hún líka áhættusöm og stundum lést fólk af smitinu. Einnig var hætta á að smitaðir einstaklingar breiddu út sjúkdóminn til annarra sem ekki höfðu ónæmi gegn honum.

Jenner vissi að þeir einstaklingar sem fengið höfðu kúabólu fengu ekki bólusótt. Með rannsóknum og athugunum sínum, þar sem hann fylgdist meðal annars með mjaltastúlkum sem fengið höfðu kúabólu, var næsta skrefið stigið. Árið 1796 framkvæmdi hann það sem nú er fræg tilraun, er hann tók vessa úr bólu ungrar mjaltastúlku, Söru Nelmes, og sprautaði honum í handlegg 8 ára gamals drengs, James Phipps að nafni, sem aldrei hafði fengið bólusótt. Phipps varð smávægilega veikur en jafnaði sig fljótt. Sex vikum síðar bólusetti hann drenginn aftur og í þetta skipti með bólusóttarvessa. James sýndi engin einkenni og þar með sýndi Jenner fram á að aðferðin skapaði ónæmi fyrir bólusóttinni. Jenner kallaði ónæmisaðgerðina "vaccine" (e. vaccination, merkir bólusetning) úr orðin "vacca" sem þýðir kýr á latínu. Eftir að hafa gert fleiri prófanir, þar á meðal að bólusetja sinn eigin 11 mánaða gamla son, gaf hann sjálfur út litla bók, An Inquiry into the Causes and Effects of the Variolae Vaccinae, árið 1798.3 Viðbrögðin við bókinni vöktu bæði fordæmingu og eftirvæntingu. Menn gagnrýndu hann til að mynda harðlega fyrir að bólusetja fólk með vessa úr sýktu dýri. En greinilegir kostir ónæmisaðgerðarinnar og vörnin sem hún veitti gegn hinum hrikalega sjúkdómi sigraði og bóluefnið varð um síðir útbreitt. Um 1800 höfðu um 100.000 manns verið bólusettir gegn bólusóttinni um heim allan.4



Skopmynd eftir James Gillray (1757-1815) frá árinu 1802 þar sem Jenner bólusetur fólk sem síðan fær ýmsan „kúalegan“ útvöxt.

Þó að uppgötvun Jenners væri ekki sérlega vel tekið í Englandi til að byrja með þá hlaut hann fljótt viðurkenningu í öðrum löndum. Hann sendi bóluefni sitt út um allan heim og smám saman breiddist bólusetningaraðferðin út. Árið 1803 sendi Spánarkonungur leiðangur til nýlendna sinna í þeim tilgangi að bólusetja íbúana. Napóleón hafði líka trú á Jenner og árið 1805 hafði hann látið bólusetja alla hermenn sína með „bóluefni Jenners“. Í virðingarskyni við Jenner leysti Napóleón úr haldi tvo stríðsfanga eftir að Jenner hafði persónulega talað máli þeirra en heimildir greina frá því að Napóleón hafi sagt: „Ah Jenner, ég get ekki neitað honum um neitt.“5

Jenner hlaut ýmsan annan heiður bæði heima og erlendis. Háskólar og ýmis félög um heim allan sæmdu hann heiðursnafnbótum, hann fékk hring frá rússnesku keisaraynjunni og gjöf frá indjánahöfðingjum Norður-Ameríku og styttur voru reistar honum til heiðurs allt frá London til Tókýó. Hann eyddi þó mestum tíma sínum við rannsóknir og ráðgjöf í þróun og dreifingu á bóluefni sínu, ásamt því að rannsaka aðra þætti á sviði læknisfræðinnar. Hann gerði þó engar tilraunir til að hagnast af uppgötvun sinni, raunar varði hann svo miklum tíma í rannsóknir sínar að læknastofa hans og einkalíf liðu fyrir. Jenner giftist árið 1788 og eignaðist fjögur börn. Fjölskyldan bjó í Berkeley, í Chantry House, sem var gert að safni árið 1985. Jenner byggði lítið skýli í garði sínum sem hann kallað „Bólusetningarhofið“ (Temple of Vaccinia) þar sem hann bólusetti fátæka ókeypis. Hann hélt áfram að sinna áhuga sínum á náttúrunni, með sérstakri áherslu á fugla, og síðasta árið sem hann lifði kynnti hann rit sitt, Observations on the Migration of Birds, fyrir Royal Society. Hann lést 26. janúar 1823 af völdum heilablóðfalls og var jarðsettur í heimabæ sínum Berkeley.

Mikilvægi framlags Jenners til læknisfræðinnar felst ekki aðeins í því að hann bólusetti fólk með kúabóluvessa, heldur að hann sannaði að aðgerðin gerði menn ónæma gegn bólusóttinni. Hann gerði líka bólusetninguna aðgengilega fyrir fjölda fólks sem hafði aldrei heyrt um framkvæmd slíkrar aðgerðar áður. Þetta var fyrsta bóluefnið sem þróað hafði verið sem sýndi árangur og var eina forvörnin gegn hinum banvæna sjúkdómi. Hið þýðingarmikla starf hans endaði ekki með dauða hans, bólusetningin lagði grunninn að nútímaónæmisfræði.

Uppgötvun hans var gríðarlega mikilvæg læknisfræðilega og hefur bjargað óteljandi mannslífum. Engin lækning er til við bólusótt önnur en meðferð sem dregur úr einkennum sjúkdómsins.6 Árið 1979 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO yfir að bólusótt hefði verið útrýmt.

Tilvísanir:

Myndir:...