Hæsti hiti sem mælist í munnholi er 37,2 °C kl. 6 og 37,7 °C kl. 16 og hærri hiti en þetta er venjulega skilgreint sem óeðlilega hár líkamshiti eða sótthiti. Hiti mældur djúpt í endaþarmi er venjulega 0,6 °C hærri en hiti í munnholi. Sólarhringssveiflan í líkamshita, milli morgunhita og síðdegishita, er almennt talin vera um 0,5 °C en getur hjá sumum verið allt að 1 °C. Þessi munur á líkamshita að morgni og síðdegi (kvöldi) helst oftast þó að um sótthita sé að ræða. Hjá konum er líkamshitinn lágur frá byrjun blæðinga og fram að egglosi en þá hækkar hann nokkuð hratt (á 1-2 dögum) um um það bil 0,5 °C og helst hár fram að næstu blæðingum. Mestar líkur eru á getnaði um það leyti sem líkamshitinn er að hækka. Ýmislegt fleira getur haft áhrif á líkamshitann og má nefna sem dæmi stórar máltíðir, þungun, hormónajafnvægi og aldur. Líkamshitanum er stjórnað af undirstúku heilans (e hypothalamus). Varmi myndast einkum í lifur, beinagrindarvöðvum og hjartavöðva og hann tapast út í gegnum húðina. Við ofkælingu geta vöðvarnir aukið varmamyndun með stöðugri virkni sem lýsir sér með hrolli og skjálfta og við ofhitnun eykst varmatap í húð með auknu blóðflæði (roði) og aukinni svitamyndun. Þetta er býsna öflugt kerfi sem getur haldið líkamshitanum réttum við erfiðar aðstæður, mikinn kulda og hita. Við vissar aðstæður, eins og til dæmis sýkingar, verður óeðlileg hækkun á líkamshita yfir þau gildi sem eru eðlileg fyrir viðkomandi einstakling og nefnist það ástand sótthiti. Sótthiti er talinn vera hluti af varnarkerfi líkamans gegn sýklum og getur drepið eða hamið vöxt sumra sýkla. Þetta kann að virðast flókið svar við einfaldri spurningu en málið er nokkuð snúið ef vel er að gáð. Fleiri tengd svör:
- Hver eru áhrif hita og kulda á mannslíkamann?
- Af hverju er manni stundum kalt þegar maður er með hita?
- Hvers vegna skelfur maður af kulda?
- Hvers vegna svitnar maður?
- Hvers vegna fær fólk beinverki þegar það veikist?
Upprunaleg spurning Elvu hljóðaði svona:
Alveg síðan ég var barn hefur líkamshiti minn alltaf verið 37,6 °C en ekki 37 °C. Er það eðlilegt?