Af hverju titrar kjálkinn og glamrar í tönnunum þegar manni verður kalt?Eins og önnur spendýr hefur maðurinn jafnheitt blóð. Það þýðir að líkamshita hans er haldið við 37°C eða því sem næst og þar gegnir undirstúka heilans lykilhlutverki. Þar er hitastillistöð og undirstúkan fær upplýsingar frá hitanemum á yfirborði líkamans sem haldast í hendur við hitastig umhverfisins. Einnig fær hún vitneskju um hitastig blóðsins. Falli hitastig umhverfisins greina hitanemarnir í húðinni það (og seinna þeir sem fylgjast með hitastigi blóðsins). Sem svar við þessari breytingu sendir undirstúkan taugaboð sem setja í gang ýmis ferli sem stuðla að aukinni varmamyndun í líkamanum og draga úr varmatapi. Hvort tveggja leiðir til þess að líkamshiti hækkar. Ferlin sem um ræðir eru eftirfarandi:
- Æðaþrenging: Driftaugaboð örva þrengingu æða í húðinni sem dregur úr flæði heits blóðs úr innri líffærum til húðarinnar. Þetta dregur úr varmaflutningi frá innri líffærum til yfirborðsins og stuðlar þar með að hækkun líkamshita.
- Hraðari efnaskipti: Driftaugar örva nýrnahettumerg til að seyta adrenalíni og noradrenalíni í blóðið. Þessi hormón auka efnaskipti (bruna) frumnanna sem hefur í för með sér aukna varmamyndun.
- Skjaldkirtilshormón: Skjaldkirtillinn örvast til að seyta hormónum sínum í blóðið. Þau hafa svipuð áhrif og merghormónin sem nefnd eru hér að ofan, það er auka bruna og þar með varmamyndun.
- Beinagrindarvöðvar: Margir vöðvar í líkamanum koma fyrir í pörum þannig að þegar annar dregst saman slaknar á hinum og öfugt. Örvun varmamyndandi hluta hitastillistöðvar í undirstúku örvar þá hluta heilans sem auka spennu í vöðvum. Eftir því sem spenna vöðvanna eykst tognar á þeim en við það fer af stað togviðbragð sem endar með því að þeir dragast saman. Sá samdráttur veldur togi á mótvöðvum þeirra sem á endanum leiðir til samdráttar þeirra síðarnefndu og svo koll af kolli. Þessi síendurtekna hringrás kallast skjálfti. Skjálfti eykur hraða varmamyndunar. Þegar skjálfti er í hámarki getur varmamyndun orðið fjórfalt hraðari en við eðlilegar kringumstæður.