Svo getur bóla líka átt við tískusveiflur eða slíkt, til dæmis þegar við segjum 'þetta er bara bóla' eða 'þetta er ekki ný bóla'. Þá notum við orðið í frekar niðrandi merkingu um eitthvað sem við teljum að verði skammlíft og sæti ekki miklum tíðindum. Rétt eins og þegar við fáum bólu á húðina á okkar sem springur svo án þess að nokkuð fleira gerist. Einnig getur orðið bóla táknað skæðan smitsjúkdóm sem líka er kallaður bólusótt (variola). Þegar hún er í kúm nefnist hún kúabóla og er meðal annars notuð til að framleiða bóluefni gegn bólusótt í mönnum. Sóttvarnaraðferðin sem við köllum bólusetningu á rætur að rekja til þess þegar menn byrjuðu að nota kúabóluefni gegn bólusótt. Bólusetning nefnist á erlendum málum vaccinataion en vacca er latína og þýðir kýr.
Stórabóla var skæð bólusótt sem geisaði á Íslandi á árunum 1707-1709. Sú bóla barst líklega til landsins með fötum manns sem lést úr bólu á leiðinni hingað. Um 18.000 manns dóu úr stórubólu en það var þriðjungur þjóðarinnar. Bólan lagðist aðallega á þá sem fæddust eftir bólufaraldurinn árið 1672. Ónæmiskerfi þeirra sem höfðu fengið bóluna í fyrra skiptið var líklega betur í stakk búið til að verjast stórubólu. Um ónæmiskerfið er hægt að lesa meira í svari við spurningunni Hvernig vinnur ónæmiskerfið? Er hægt að verða ónæmur fyrir kvefi?
Heimild og mynd:
- Íslenska alfræðiorðabókin. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1990.
- Smallpox Galleries
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.