Þegar komið er í læknaskóla tekur þar við fjögurra ára nám. Fyrstu tvö árin er kennsla í almennum raungreinum, auk þess sem nemar fá fyrstu kynni af heilbrigðiskerfinu. Á þriðja ári er meiri áhersla á verknám og lært hvernig mismunandi greinar heilbrigðiskerfisins vinna saman. Á fjórða ári er frekara verknám og læknanemar eru kynntir fyrir sínu persónulega hlutverki innan heilbrigðiskerfisins. Á þriðja og fjórða ári byrja nemar auk þess að vinna að umsókn sinni um starfsnám (e. residency) í skurðlækningum. Til þess að fá stöðu á spítala sem læknir í sérnámi þarf að taka svo kallað USMLE-próf (United States Medical Licensing Examination). Þetta próf þurfa íslenskir læknar sem lokið hafa grunnnámi hér á landi einnig að taka, vilji þeir fara í sérnám til Bandaríkjanna. Einnig þarf að hafa fengið nokkurra vikna klíníska þjálfun (e. clerkship) í umræddri sérgrein og afla sér þannig meðmæla, en þetta er oftast gert á þriðja og fjórða ári í læknaskóla, auk þess að senda umsókn og mæta í viðtöl á spítalann sem sótt er um námsstöðu á. Fyrsta árið í sérnámi svipar til kandídatsárs á Íslandi. Nemi (e. intern) hefur þá hafið full störf á spítalanum og að árinu loknu fæst almennt lækningaleyfi. Síðan tekur við fimm til sjö ára sérhæft starfsnám í skurðlækningum. Þeir læknar sem sérhæfa sig á ákveðnu sviði svo sem hjarta-, barna- eða æðaskurðlækningum þurfa að fá frekari starfsþjálfun (e. fellowship training) í að minnsta kosti eitt ár og þegar því er lokið fær læknir loks leyfi til að starfa sjálfstætt og án eftirlits. Læknisfræðinám er langt og strangt og auk þessarar löngu skólagöngu þá komast læknar sífellt í kynni við ný tilfelli sem þeir hafa ekki fengist við áður. Auk þess eru stöðugar framfarir á sviði læknavísinda og ný tækni lítur dagsins ljós svo nauðsynlegt er fyrir lækna að bæta við þekkingu sína allan starfsferilinn. Mynd:
- Health Informatics. Sótt. 1. 7. 2011.