Utan á tennur setjast óhreinindi og litur sem gera þær dökkar. Þar á meðal er tannsýklan sem er mjúkur, þunnur hjúpur, myndaður úr matarleifum, bakteríum, munnvatni og dauðum frumum, og límist utan á tennurnar. Þessi óhreinindi eru tilvalin fæða fyrir munnbakteríurnar til að fjölga sér og myndast þannig ákjósanleg gróðrarstía fyrir tannskemmdasýklana. Tannkrem eru framleidd til hreinsunar á tönnum. Í þeim eru ýmis fægiefni, hreinsiefni, bragðefni, lyf, flúor og í sumum jafnvel bleiki- eða lýsingarefni. Þegar tannsýkla myndast kemur tannkremið, ásamt tannbursta og tannþræði að góðum notum til að hreinsa óhreinindin burt. Flúorinn í tannkreminu breytir yfirborðsspennu glerungs, líkt og bón á bílalakki, þannig að tennurnar hrinda tannsýklunni betur frá sér og hún nær ekki að festast í eins miklum mæli. Hann kemur einnig í veg fyrir efnaskipti sýklanna svo að þeir ná ekki að fjölga sér eins mikið. Flúor herðir auk þess glerunginn. Ekki er beinlínis hægt að segja að sykur geri tennur svartar, en sykur veldur tannskemmdum og tannskemmdir verða oftast dökkar á litinn, litast þá af fæðu eða öðru sem í munninn fer. Ef mikils magns af sykri er neytt, eykur það tannskemmdatíðni mikið. Miklu máli skiptir í hvaða formi sykurinn er, sem neytt er, og hversu oft hans er neytt. Sykur sem loðir við tennurnar og er lengi í snertingu við tönnina, til dæmis sykur í karamellum, viðheldur miklu sykurmagni í munni og veldur meiri skaða heldur en sykur sem stendur stutt við í munninum, svo sem uppleystur í fljótandi formi. Sömuleiðis skiptir miklu máli að sykurs sé ekki neytt allt of oft yfir daginn því þá nær ekki munnvatnið að jafna út lækkað sýrustig í munni. En hvernig eykur sykurinn tíðni tannskemda? Til þess að tannáta geti myndast þurfa að vera til staðar sýrumyndandi sýklar, sérstaklega Streptococcus mutans og Lactobacillus. Tannskemmdasýkilinn Streptococcus mutans er talinn eiga stærstan þátt í því að tennur skemmist. Sykrungur auðveldar þyrpingamyndun og vöxt sýklanna í tannsýklunni. Þessir sýklar gerja sykrung, breyta honum í utanfrumufjölsykrunga sem svo auðvelda viðloðun sýklanna við tennurnar og geta verkað sem varabirgðir gerjanlegra kolvetna sem nauðsynleg eru til myndunar á sýru. En sykur, með sýru og bakteríum, er undirrót sýklumyndunar sem litar tennur oftast dökkar. Þar að auki minnka utanfrumufjölsykrungarnir gegndræpi tannsýklunnar svo að munnvatnið kemst síður í gegn til að eyða sýrunni, sem sýklarnir hafa gerjað úr sykrinum. Sýran sem sýklarnir hafa myndað ræðst á glerunginn og leysir hann upp svo að hann verður gljúpur og enn þá betri festa fyrir sýkluna og glerungurinn mislitast síðan og tannáta byrjar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eru tennurnar bein? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju fær maður kul í tennurnar? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Skemmir sódavatn tennur? eftir Peter Holbrook
- Er betra fyrir tannheilsuna að neyta sykurskertra gosdrykkja í stað sykraða, þá í sambandi við tannátu? eftir Þorbjörgu Jensdóttur og Peter Holbrook
- Er appelsínusafi óhollari en gos? eftir Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur
- Er mjólkurneysla tannskemmandi? eftir Sigfús Þór Elíasson
- Fer sýra, til dæmis úr sítrónu, illa með tennur? eftir Þorbjörgu Jensdóttur og Peter Holbrook
- Af hverju eru tennur hvítar? eftir EDS