Algengar tegundir, eins og steppumammútinn (Mammuthus trogontherii) sem lifði á sléttum Evrasíu aðallega í Síberíu, voru mun hærri en afrískir fílar (Loxodonta africanus) eða allt að 4,8 metrar á herðakamb og voru stærstu tarfarnir rúmlega 8 tonn að þyngd. Önnur tegund, kólumbíuloðfíllinn (Mammuthus columbi) var áþekkur að stærð en talinn þyngri eða allt að 10 tonn. Að lokum má nefna þá tegund loðfíla sem sennilega var útbreiddustu á síðasta jökulskeiði, síberíska loðfílinn (Mammuthus primigenius) sem var líklega áþekkur afrískum fílum að stærð og þyngd (lesa má um afríska fíla í svörum sama höfundar við spurningunum Hvað getið þið sagt mér um afríska fílinn? og Er skógarfíllinn í Afríku sérstök tegund?) En það voru einnig til tegundir sem voru mun minni en þeir fílar sem lifa í dag, eiginlega dvergloðfílar sem voru allt niður í 120 cm á herðakamb. Til dæmis dvergmammútar af tegundinn Mammuthus lamarmorae sem lifðu á Miðjarðarhafseyjunni Sardiníu. Einnig má nefna afbrigði af síberíska loðfílnum sem lifði á Wrangel-eyju fyrir norðan Síberíu og voru á bilinu 1,8-2,3 m. Líkur hafa verið leiddar að því að mammút af stærðinni 1,8 m hafi verið um eða yfir 1,5 tonn að þyngd. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund: Heimildir og mynd:
- Á Wikipedia, skoðað 10.12.2010:
- Adrian Lister og Paul G. Bahn. Mammoths: Giants of the Ice Age Skoðað 10.12.2010.
- Mynd: Woolly mammoth (Mammuthus primigenius) á Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Mauricio Antón. Birt undir Creative Commons Attribution 2.5 leyfi. Sótt 10.12.2010.