Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Loðfílar urðu til með milljón ára þróun þar sem tegundir þurftu að aðlagast breyttum aðstæðum í náttúrunni.
Talið er að ísöld (pleistósen) hafi hafist fyrir um 2,6 milljónum ára og lokið fyrir um 10.000 árum. Á þessum tíma í jarðsögunni skiptust á kuldaskeið þar sem loftslag var kalt og styttri hlýskeið þar sem loftslag var mun hlýrra, jafnvel svipað því sem nú er. Um ísöld og orsakir hennar er hægt að lesa í öðrum svörum á Vísindavefnum sem nefnd eru neðst í þessu svari.
Mammuthus primigenius.
Þær miklu veðurfarssveiflur sem voru á tímum ísaldar reyndu mjög á aðlögunarhæfni lífríkisins, þar á meðal stórra spendýra eins og fíla. Svæði sem áður voru gróskumikil urðu gróðurvana sökum kulda og fóru jafnvel undir ís þegar útbreiðsla jökla jókst. Sumar dýrategundir færðu sig sunnar, aðrar dóu út og enn aðrar tegundir löguðu sig að aðstæðum, þróuðu til dæmis með sér mikla feldi til að geta varist þessum kuldum auk þess sem lifnaðarhættir þeirra breyttust með samsvarandi breytingum á líkamsgerð.
Loðfílar eru af ætt fíla (Elephantidae) eins og nafnið gefur til kynna. Talið er að fílaættin hafi verið komin fram fyrir um fimm milljónum ára í Afríku og að frumfíllinn hafi í megindráttum litið út eins og fílar nútímans. Fílaættin greindist síðan í kvíslir, ein þeirra færði sig austur til suðaustur Asíu og varð með tímanum að asíska fílnum en önnur hélt sig við Afríku og er forveri þeirra fíla sem nú lifa þar. Mammútar (Mammuthus), sem eru þriðja kvíslin, héldu hins vegar norður til Evrópu og dreifðust síðan austur um Síberíu.
Fyrstu mammútarnir komu fram í norður Afríku fyrir um 3-4 milljónum ára en það mun hafa verið tegundin Mammuthus africanavus. Smám saman fikruðu mammútarnir sig norður um Evrópu og Evrasíu og greindust í nokkrar tegundir.
Snemma á ísöld nam tegundin Mammuthus meridionalis Norður-Ameríku og af henni komu nokkrar tegundir svo sem kolumbíu- eða jefferson-loðfíllinn (Mammuthus columbi) sem var gríðarstór skepna, allt að 4 metrar á herðakamb og vó rúmlega 8 tonn.
Langþekktasta tegund mammúta er þó síberíski loðfíllinn eða ullarloðfíllinn (Mammuthus primigenius) sem mun hafa þróast frá steppuloðfílnum (Mammuthus trogontherii) fyrir um 200 þúsund árum síðan. Þessi tegund lifði á þurrum svæðum í úrkomuskjóli stóra ísaldarjökulsins víða í Evrasíu. Heilfryst eintök þessarar tegundar hafa fundist í Síberíu auk þess sem víða má finna bein skepnunnar við ár og fljót svæðisins, meðan annars í sífrera síberísku túndrunnar. Einhverjir hafa metið það svo að í sífrera Síberíu og við fljót svæðisins séu leifar allt að 150 milljón ullarloðfíla, bæði heilfryst dýr og aðrar jarðneskar leifar þeirra.
Mjög heillegar leifar ullarloðfílskálfs sem fundust í Síberíu.
Talið er að steppuloðfílar og síberískir loðfílar hafa verið uppi á sama tíma, alla vega á fyrir hluta tilvistraskeiðs síðarnefndu tegundarinnar. Að öllum líkindum hafa síberískir loðfílar komið fyrst fram í norðanverðri Síberíu. Þær þróunarfræðilegu breytingar sem urðu frá upprunalega mammútnum í Afríku til ullarloðfílsins voru meðal annars stærðin, og má í því sambandi vísa til hinnar svokölluð reglu Bergmanns sem gerir ráð fyrir að almennt gildi um dýrategundir sem hafa jafnheitt blóð og mikla útbreiðslu, að einstaklingar sem lifa nálægt pólunum séu stærri en einstaklingar sömu tegundar sem lifa fjær pólunum.
Önnur eftirtektarverð breyting frá fyrstu mammútunum til þeirra sem seinna lifðu norðar er á tanngerðinni og tengist hún breytingum á fæðu. Fyrstu mammútarnir lifðu aðallega á mjúkum plöntuvefjum en hjá síberísku loðfílunum var hærra hlutfall fæðunnar trénaðar plöntur, tré og harðgerðari heimskautajurtir sem juku verulega útbreiðslu sína á köldum skeiðum ísaldar.
Rannsóknir vísindamannanna Sher og Lister hafa sýnt að ísaldarfánan kom fyrst fram í Síberíu en eftir því sem jöklar breiddu úr sér í Evrópu fluttu dýrin sig vestur á bóginn og lifðu þar samhliða evrópsku fánunni. Síberíski loðfíllinn virðist hafa haft betur í samkeppni við evrópska steppuloðfílinn í Evrópu. Ullarloðfíllinn varð því alls ráðandi í Evrasíu.
Heimildir og mynd:
Adrian M. Lister og Andrei V. Sher. The Origin and Evolution of the Woolly Mammoth. Science. Nóvember 2001: 294 (5544) bls. 1094 – 1097.
Adrian M. Lister. Mammoths: Giants of the Ice Age, University of California Press; 2009.
Jón Már Halldórsson. „Hvernig urðu loðfílarnir til?“ Vísindavefurinn, 29. janúar 2010, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12151.
Jón Már Halldórsson. (2010, 29. janúar). Hvernig urðu loðfílarnir til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12151
Jón Már Halldórsson. „Hvernig urðu loðfílarnir til?“ Vísindavefurinn. 29. jan. 2010. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12151>.