Félagskerfi
Afríski fíllinn er félagsdýr sem lifir í nánum hópum með mikil og flókin samskiptakerfi. Félagskerfi þeirra einkennist af svokölluðu mæðraveldi. Kjarni hjarðarinnar samanstendur af einni eða fleiri gömlum kúm áamt kvenkynsafkomendum þeirra í nokkra ættliði. Engir fulltíða tarfar eru í hópnum, en tarfarnir yfirgefa hópinn þegar þeir verða kynþroska við 8-13 ára aldur. Óskyldum einstaklingum er venjulega ekki í hörðina og er því skyldleiki einstaklinga innan hennar mikill. Yfirleitt er elsta kýrin í hópnum leiðtoginn og er vald hennar ótvírætt. Þegar hún fellur frá tekur elsta dóttir hennar við.
Félagskerfi afríska fílsins einkennist af svokölluðu mæðraveldi.
Fengitími fílsins getur verið hvenær sem er þó oftast beri kýrnar í upphafi regntímans þegar gróður verður brátt í blóma og nóg verður af safaríkri og næringaríkri fæðu. Rannsóknir hafa sýnt að kálfar sem fæðast á þurrkatíma þroskist hægar. Þeir þurfa að vera á sífelldu flakki með hjörðinni í leit að fæðu og vatni og kýrin hefur því minni tíma til að sinna afkvæmi sínu.
Fílskýr hugsa lengi um kálfa sína.
Afríski fíllinn er talinn þurfa að éta um það bil 1/20 af líkamsþyngd sinni á hverjum degi. Þetta er gríðarlegt magn eða um 100 til 300 kg af gróðri á dag. Vatnsþörfin er einnig mjög mikil eða um 150-200 kg af vatni á dag. Magi fíla er hlutfalllslega minni en hjá öðrum grasbítum, en meltingin er að sama skapi afar hröð. Meltingarvegurinn er um 30 metrar á lengd og er fæðan um 11-20 klst að ganga í gegn. Vegna örs úskilnaðar spilar fílinn sennilega stórt hlutverk í hringrás næringarefna í vistkerfinu.
Fíll í Kenía að teygja sig eftir æti.
Oft hefur verið sagt að afríski fíllinn ætti sér enga óvini og er það að nokkru leiti rétt. Þó hafa menn margsinnis orðið vitni af því á Chobe verndarsvæðinu í Botswana að tugir fullorðinna ljóna hafa í sameiningu fellt fullorðna fíla á þurrkatímanum. Algengara er þó að ljón og hýenur, og jafnvel villihundar, veiði unga kálfa. Menn og fílar
Einn blóðugasti vitnisburður um samskipti manna og villtra dýra er rányrkja mannsins á afríska fílnum á 19. og 20. öld. Menn hafa í aldaraðir veitt fíla sér til matar. Þegar evrópskir nýlenduherrar settust að í álfunni fluttu með sér öflug skotvopn varð leikurinn afar ójafn. Hollenskir Búar gengu hart fram gegn fílnum upp úr 1830 og útrýmdu þeim úr Höfðalandi í Suður-Afríku. Þeir færðu sig norður í Transvaal eftir að Bretar hrökktu þá úr Höfðalandi og eyddu fílum einnig þar og reyndar allt norður að Sambesífljóti. Þegar fílabein komst í tísku upp úr 1880 hafði það afdrifarík áhrif á fílinn í Austur- og Mið-Afríku. Á þrjátíu ára tímabili svo drepnir um 70 þúsund fílar árlega eða um það bil tvær miljónir dýra! Eftir 1910 var reynt að koma á veiðitakmörkunum enda þá orðið augljóst að í óefni stefndi. Allt bendir þó til að allt að 17 þúsund dýr hafi verið felld árlega fram eftir 20. öldinni. Algjört veiðibann var sett á árið 1960, en reyndist ekki gera það gagn sem til var ætlast. Vegna lélegs veiðieftirlits og spillingar í hinum nýfrjálsu Afríkuríkjum varð veiðiþjófnaður og smygl á fílabeini brátt blómstrandi iðnaður. Aukið eftirlit með veiðum og verndarsvæðum hefur þó eitthvað dregið úr þessari þróun. Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvað getið þið sagt mér um indverska fílinn?
- Vaxa fílabein (skögultennur) á öllum fílum, bæði karlkyns og kvenkyns?
- Hvað ganga fílar lengi með afkvæmi sín?
- Eru fílar hræddir við mýs? eftir Pál Hersteinsson
- McDonald. D. The new encyclopedia og mammals.. Oxford University Press, Oxford.
- Vaughan, T. A. 1986. Mammalogy. Third Edition. Saunders College Publishing, Fort Worth.
- Vaughan, T. A., J. M. Ryan, N. J. Czaplewski. 2000. Mammalogy. Fourth Edition. Saunders College Publishing, Philadelphia.