Sléttuúlfar eru oft kallaðir litli bróðir úlfsins.
Útbreiðslusvæði fárra landdýra nær yfir jafn mörg gróður- og veðurfarsbelti og útbreiðsla sléttuúlfsins. Hann finnst allt frá 72. breiddagráðu við íshafsströnd Alaska og allt suður til regnskóga Gvatemala. Skýringu þessarar miklu útbreiðslu sléttuúlfsins má einkum rekja til mikillar aðlögunarhæfni hans sem og minnkandi samkeppni vegna rénunar úlfastofnsins. Upprunalega lifðu sléttuúlfar einkum á gresjunum miklu. Í kjölfar þess að stórri veiðibráð var nánast útrýmt þar á öndverðri 19. öld fór hann hins vegar að færa sig inn á ný svæði. Mikil aðlögunarhæfni sléttuúlfsins gerði honum kleift að lifa hvort sem var í skóglendi, fjalllendi og jafnvel á freðmýrum. Síðustu áratugi hefur útbreiðsla hans aukist enn frekar þrátt fyrir miklar ofsóknir mannsins. Útbreiðslumynstur sléttuúlfsins hefur jafnframt þótt sýna sterka samsvörun við útbreiðslu og aðlögun rauðrefsins (Vulpes vulpes) á síðustu áratugum. Fæðunám og samskipti við önnur dýr
Rannsóknir hafa sýnt að allt að 90% af fæðu sléttuúlfs eru spendýr. Tegundasamsetningin er mjög breytileg milli svæða og eftir árstíma, sérstaklega á norðlægari svæðum. Stærstur hluti fæðunnar er þó venjulega smærri spendýr svo sem skógarkanínur (Sylvilagus floridanus), mýs, moldvörpur (Talpidae) og jarðíkornar (Marmotini). Á sumum svæðum fella sléttuúlfar jafnvel stærri bráðir eins og elgi (Alces alces), hirti og nautgripi. Einnig éta þeir skriðdýr og fugla og jafnvel skordýr eða aðra landhryggleysingja.
Hér sést sléttuúlfur ráðast á kind.
Sléttuúlfynjan verður kynþroska venjulega á öðru ári eða við 20 mánaða aldur. Fengitíminn er í janúar til febrúar en þá gefur úlfynjan frá sér sterka lykt sem laðar að karldýr úr nágrenninu. Úlfynjan velur sér aðeins eitt karldýr til að makast við og sér parið sameiginlega um uppeldi yrðlinganna. Einkvæni er algengt meðal sléttuúlfa en úlfynjan velur sér venjulega sama karldýr og árið áður. Parið byrjar venjulega á því að leita uppi gamla jarðholu sem hefur verið grafin af greifingja, marðardýri eða jafnvel nagdýri. Afar sjaldgæft er að sléttuúlfar grafi sínar eigin holur. Þegar kemur að goti hverfur úlfynjan niður í jarðholuna og karldýrið sér þá eitt um veiðarnar.
Sléttuúlfur í Yellowstone-þjóðgarðinum.
Sléttuúlfurinn á einstaklega auðvelt með að laga sig að breytilegri fæðu og er eins og áður segir líkur rauðrefi að því leyti. Fæðufjölbreytnin er þó heldur minni hjá sléttuúlfinum. Þeir leggja sér þó jafnvel til munns ávexti og gras og finna oft fæðu í ruslahaugum. Sléttuúlfurinn er þó rándýr og hefur víða lagst á búpening en maðurinn þrengir sífellt að útbreiðslusvæði hans. Þetta er ein helsta ástæða þess að reynt hefur verið að útrýma honum en slíkar herferðir hafa ekki borið mikinn árangur. Þær hafa þvert á móti haft þau áhrif að hann hefur dreift sér inn á stærri og fjölbreytilegri svæði. Líkt og rauðrefur hefur hann meira að segja komið sér fyrir i borgum og byggðum þar sem hann herjar á gæludýr og rótar í sorpi. Aðgerðir til að útrýma honum þaðan hafa heldur ekki gengið og sennilega er því vænlegast að fólk aðlagist lífi með sléttuúlfinum í úthverfum stórborga Bandaríkjanna. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað eru refir og úlfar mikið skyldir? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvaðan komu fyrstu hundarnir og hvernig eru hundar ræktaðir? eftir Margréti Björk Sigurðardóttur
- Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvers vegna góla úlfar upp í tunglið? eftir Pál Hersteinsson
- Hvað eru til margar hunda- og kattategundir í heiminum? eftir Margréti Björk Sigurðardóttur
- Robert M. Timm, Rex O. Baker, Joe R. Bennett og Craig C. Coolahan. 2004. Coyote Attacks: An Increasing Suburban Problem.. Hopland Research & Extension Center.
- Morey, Paul. 2004. Landscape use and diet of coyotes, Canis latrans, in the Chicago metropolitan area, meistaraprófsritgerð, Utah State University.
- Nowak, R. 1999. Walker's Mammals of the World. The Johns Hopkins University Press, Baltomore.
- Parker, Gerry. 1995. Eastern Coyote: Story of Its Success. Nimbus Publishing, Halifax, Nova Scotia.