Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fjallaljón (Puma concolor), sem einnig kallast púma, er kattardýr af undirættinni Felinae (smákettir) og er eina tegundin innan Puma-ættkvíslarinnar. Þó fjallaljón teljist til smákatta eru þau tiltölulega stór, karldýrin eru á bilinu 36 til 120 kg að þyngd og kvendýrin 29 til 64 kg. Litur þeirra er nokkuð breytilegur, frá gulbrúnum yfir í grábrúnan.
Fjallaljón lifa í Norður- og Suður-Ameríku. Ekkert spendýr á meginlandi Ameríku hefur jafn mikla útbreiðslu og fjallaljón, eða frá Eldlandi syðst í Suður-Ameríku, allt norður til suðausturhluta Alaska í Norður-Ameríku. Fjallaljón hafa því aðlagast mjög ólíkum búsvæðum, svo sem hálfeyðimerkum, barrskógum, gresjum, kjarrlendi, staktrjáasléttum, regnskógum og fjalllendi.
Útbreiðsla fjallaljóna í Norður-Ameríku.
Ekki er vitað hver heildarstofnstærð fjallaljóna er þar sem nákvæmar stofnstærðarmælingar liggja ekki fyrir frá stórum svæðum í suðurhluta útbreiðslusvæðis þeirra. Eins og gjarnan vill verða hefur sambúð fjallaljóna og manna verið dýrunum í óhag. Fyrstu skráðu heimildirnar um fjallaljón í Norður-Ameríku eru frá 1840 þegar landneminn John Olivier heyrði um og skráði niður að tveir “panþerar” hefðu verið drepnir við Cades Cove. Í skrifum frá 1859 var sagt frá því að panþerar væru til mikilla vandræða fyrir búfénað og upp úr því var farið að skipuleggja viðamiklar útrýmingarherferðir gegn þeim og öðrum stórum rándýrum í álfunni, svo sem úlfum og brúnbjörnum.
Fjallaljónum var útrýmt af stórum svæðum og fækkað verulega annars staðar. Til dæmis eru engin fjallaljón eftir í austurhluta Bandaríkjanna, að frátöldum nokkrum dýrum af undirtegundinni Puma concolor coryi á Flórída-skaganum, sem tóra enn á sífellt minnkandi búsvæði (aðallega í Everglades). Nánar er fjallað um þau í svari við spurningunni Af hverju er Flórída-púman látin fjölga sér með Texas-púmunni? Á ákveðnum stöðum hefur hagur fjallaljóna þó eitthvað vænkast síðastliðna áratugi, sérstaklega í Kaliforníuríki og í Klettafjöllunum þar sem nú er talið að um 5000 dýr haldi til.
Eins og flestar aðrar kattategundir mynda fress fjallaljóna óðul sem innihalda óðul nokkurra kvendýra. Dýrin fara reglulega um óðulin og pissa upp við tré til að merkja óðalsmörkin. Óðulin eru misstór og helgast stærðin helst af fæðuframboði og landfræðilegri legu. Eftir því sem nær dregur miðbaug eru óðulin minni, en óðul í fjalllendi eru þó gjarnan afar stór. Óðul kvendýra geta verið frá 26 til 350 km2, en óðul karldýranna eru frá 140 til 760 km2 .
Fjallaljón (Puma concolor) að vetrarlagi.
Líkt og kettir almennt (að ljónum undanskildum) eru fjallaljón að mestu einfarar, nema hvað fullorðin dýr geta umborið hvor önnur í fjóra til sex daga á æxlunartíma. Auk þess virðast bræður halda saman í nokkra mánuði eftir að þeir yfirgefa móður sína.
Pörunartími fjallaljóna er mismunandi eftir svæðum, á nyrstu svæðunum er æxlunartíminn bundinn við tímabilið desember til mars, en á regnskógarsvæðunum er æxlunartíminn ekki bundinn við neinn tiltekinn árstíma.
Öfugt við það sem margir halda þá nota fjallaljón ekki hella sem skjól heldur nota læðurnar ýmsar holur, meðal annars undir trjárótum, sem dvalarstaði fyrir kettlinga sína.
Rannsóknir hafa sýnt að læðurnar gjóta að meðaltali á tveggja ára fresti og er gotstærðin frá einum og allt upp í sex kettlinga. Meðgöngutíminn er á bilinu 82-96 dagar og eru kettlingarnir á spena í allt að 40-45 daga. Líkt og hjá öðrum kattategundum fæðast kettlingarnir blindir en opna augun 10-14 daga gamlir. Sex vikna gamlir fara þeir fyrst að bragða kjöt. Þeir yfirgefa móður sína venjulega um eins árs aldur, þó kvendýrin haldi sig lengur hjá móður sinni. Rannsóknir hafa sýnt að fjallaljón verða yfirleitt ekki eldri en 12 ára.
Ungt fjallaljón, um 8 mánaða gamalt.
Eins og algengast er meðal spendýra verða kvendýrin kynþroska á undan karldýrunum, eða við 30 mánaða aldur og karldýrin við 36 mánaða aldur. Fljótlega eftir að ungu fjallaljónin hafa yfirgefið móður sína fara þau á flakk og reyna að finna sér hentugt óðal, sem í senn á að geta fætt þau og veitt þeim nálægð við hitt kynið.
Fjallaljón eru kjötætur eins og önnur kattardýr. Það er alltof löng upptalning að nefna öll þau dýr sem fjallaljón veiða sér til matar en í stuttu máli eru spendýr algengust á matseðli þeirra, allt frá smáum nagdýrum upp í elgi. Stöku sinnum éta þau fugla eða jafnvel snigla þegar hart er í ári. Greining á fæðu fjallaljóna á tilteknum stað í Kaliforníuríki leiddi í ljós að 54% af veiði þeirra eru múlhirtir (Odocoileus hemionus), virginíu-hjörtur (Odocoileus virginianus) var 28% af fæðunni, skógarkanínur (Sylviaticus spp.) voru 5,8%, asnahéri (Lepus californicus) 2% og nautgripir 1,5%.
Hefðbundnar veiðiaðferðir fjallaljóna byggjast á því að læðast að bráðinni, stökkva á hana og bíta í háls eða hnakka, annað hvort til að kæfa hana eða spenna hálsliðina í sundur. Eftir að hafa étið nægju sína af nýdrepinni bráðinni fer fjallaljónið með afganginn á afvikinn stað og felur hann í laufblöðum eða einhverju öðru sem hægt er að nota til að hylja bráðina.
Fjallaljón eiga sér ekki marga náttúrulega óvini. Stöku sinnum verða þau úlfum eða björnum að bráð, en þá er oftast um að ræða ung eða veik dýr.
Upplýsingar um skyld efni má finna í eftirfarandi svörum Vísindavefsins eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um fjallaljón?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5509.
Jón Már Halldórsson. (2005, 23. desember). Hvað getið þið sagt mér um fjallaljón? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5509
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um fjallaljón?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5509>.