Í Canis-ættkvíslinni eru alls níu tegundir. Þær eru úlfur eða gráúlfur (Canis lupus), rauðúlfur (C. rufus), sléttuúlfur (C. latrans), dingóinn (C. dingo), hundur (C. familiaris) og loks fjórar tegundir sjakala. Talið er að tegundir ættarinnar hafi fyrst komið fram á Eocene-tímabilinu fyrir um 38-54 milljónum ára. Steingervingafræðingar hafa fundið tegundir frá þessu tímabili sem greinast í fimm ættkvíslir. Tegund einnar þeirra (Cynodictis) líkist mjög svonefndum þefketti og telja fræðimenn að viðskilnaður þessarar ættar við önnur rándýr hafi átt sér stað á þessu tímabili. Úlfurinn (Canis lupus) er stærsti meðlimur hundaættarinnar og fyrir tíma mannsins hafði hann mesta útbreiðslu þeirra. Hann lifði um alla Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Vísindamenn hafa skipt honum niður í allt að 32 deilitegundir, allt frá stórvöxnum heimskautaúlfum (C. lupus tundarium og albinus) til smárra deilitegunda sem lifa á Arabíuskaganum og í Mið-Asíu. Alls eru þekktar 21 tegund refa og finnast þeir alls staðar nema í Ástralíu og á Suðurheimskautssvæðinu. Tegundir af ættkvíslinni Vulpes eru meðal annars rauðrefurinn (Vulpes vulpes) og grárefur (V. cinereoargenteos). Rauðrefur er stærsta refategundin og að öllum líkindum sú algengasta. Grárefur sem einnig er nefndur trjárefur vegna klifurhæfileika, lifir á sléttum Norður-Ameríku. Innan vulpes-ættkvíslarinnar eru þekktar tólf tegundir refa. Sjö tegundir eru til af Suður-Amerísku refunum Dusicyon. Í ættkvíslinni Alopex er aðeins til ein tegund, heimskautarefurinn (Alopex lagopus). Hann lifir meðal annars norðarlega á Grænlandi, í Norður-Alaska og Kanada, Íslandi, Svalbarða og nyrst í Rússlandi. Í fjórðu ættkvíslinni Otocyon er einnig aðeins ein tegund Otocyon megalotis, sérhæfð skordýraæta með hálfgerð leðurblökueyru; hún lifir í sunnanverðri Afríku. Heimild og myndir
- Macdonald, David (ritstj.), The Encyclopedia of Mammals, Abindgon, Oxford, 1995.
- Namibian Wildlife
- Traffic