Sem dæmi um svona áhættuvörn mætti hugsa sér einfaldan sjóð með einn milljarð í eigin fé sem aflar eins milljarðs í viðbót með því að fá lánuð hlutabréf í B hf. og selja þau. Síðan notar sjóðurinn tvo milljarða til að kaupa hlutabréf í A hf. Þetta er væntanlega ekki skynsamlegt nema sjóðstjórinn telji að líklegt sé að bréf í A hf. hækki meira (eða lækki minna ef illa árar almennt) en bréf í B hf. Ef hlutabréf lækka almennt, til dæmis um 10%, þá lækkar verðmæti bréfanna í A um 200 milljónir en á móti kemur að bréfin í B lækka um 100 milljónir, þannig að heildartapið af hlutabréfaeign sjóðsins verður einungis mismunurinn, eða 100 milljónir. Það getur því falist nokkur vörn gegn áhættu í því að eiga tilteknar eignir og taka um leið skortstöðu í öðrum svipuðum eignum. Stundum beita sjóðirnir skortstöðu ekki sérstaklega til að afla fjár eða verjast áhættu heldur til að hagnast á lækkun á verði tiltekinna eigna sem stjórnendur sjóðanna telja sig sjá fyrir. Þannig gæti vogunarsjóður veðjað á að tiltekin hlutabréf lækki í verði, með því að taka skortstöðu í viðkomandi bréfum, eða veðjað á að ákveðinn gjaldmiðill veikist, með því að taka lán í honum. Yfirleitt er talið að félagsfræðingurinn Alfred Winslow Jones hafi sett upp fyrsta vogunarsjóðinn, í Bandaríkjunum árið 1949. Slíkir sjóðir vöktu þó litla athygli fyrstu árin. Umsvif vogunarsjóða hafa hins vegar vaxið mjög mikið undanfarna tvo áratugi eða svo og nú skipta þeir miklu máli á mörgum mörkuðum. Yfirleitt eru vogunarsjóðir lokaðir almenningi, það er einungis tilteknum fjárfestum er gefinn kostur á að kaupa sig inn í þá. Ein skýring á því er að nokkuð ríkar kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf til sjóða sem seldir eru almenningi og það hentar vogunarsjóðum illa, enda vilja þeir halda spilunum þétt að sér. Önnur skýring er að þessir sjóðir taka oft mikla áhættu og það hentar helst fjársterkum aðilum sem geta staðið af sér talsvert tap. Þriðja skýringin er að fjárfestingarstefna og starfsemi þessara sjóða er oft mjög flókin og því vart á færi nema sérfræðinga og reyndra fjárfesta að leggja mat á það hvort skynsamlegt er að leggja fé í þá. Hér er rétt að hafa í huga að rekstraraðilar vogunarsjóða setja alla jafna upp mun hærra gjald fyrir að reka slíka sjóði en venjulega verðbréfasjóði. Algengt er að talsvert hátt hlutfall af verðmæti sjóðs renni á hverju ári til að greiða fyrir reksturinn og að auk þess fái rekstraraðilinn talsverða hlutdeild í ávöxtun. Sjóðurinn þarf því að ná mjög góðri ávöxtun til að réttlæta umsýslukostnaðinn frá sjónarhóli fjárfesta. Í lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2005 er fjallað ítarlega um þær kröfur sem gerðar eru til verðbréfasjóða sem eru opnir almenningi. Slíkir sjóðir þurfa meðal annars starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu eða hliðstæðri eftirlitsstofnun í heimalandi sínu og sæta eftirliti þess. Einnig er í lögunum heimild til að reka sjóði sem ekki taka við fé frá almenningi. Þeir þurfa ekki starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins og sæta ekki eftirliti þess. Vogunarsjóðir byggja á þessari heimild eða sambærilegri heimild í lögum annarra landa. Þeir hafa ekki heimild til að kynna sig sem verðbréfasjóði. Vogunarsjóðir hafa oft verið gagnrýndir, jafnvel nokkuð harkalega. Stundum eru þeir gagnrýndir fyrir há gjöld og að skila ekki árangri sem réttlætir þau. Oftar eru þeir þó gagnrýndir fyrir skort á gagnsæi og það hve mikla áhættu þeir taka, sem getur jafnvel valdið vandræðum fyrir fjármálakerfið í heild. Þannig hafa ýmsir vogunarsjóðir tapað stórfé, jafnvel hrunið alveg. Það getur valdið viðsemjendum þeirra, til dæmis þeim sem lána þeim bréf eða eru mótaðilar í afleiðuviðskiptum tjóni. Frægasta dæmið um vogunarsjóð sem lenti í vandræðum er bandaríski sjóðurinn Long Term Capital Management, LTCM. LTCM var gríðarstór og með mjög flókið eignasafn sem lenti allt í uppnámi árið 1998. LTCM tapaði stórfé þegar veðmál þess fóru hver á fætur öðru á annan veg en stjórnendur fyrirtækisins höfðu vænst. LTCM hafði byggt á tiltölulega litlu eigin fé og það varð á örstuttum tíma nánast uppurið. Ekki var hægt með góðu móti að selja eignir LTCM til að greiða upp skuldir vegna þess að markaðurinn fyrir eignirnar var mjög erfiður og upphæðirnar svo háar að verð eignanna hefði lækkað talsvert ef reynt hefði verið að selja þær allar í einu. Á endanum greip bandaríski seðlabankinn í New York inn í og fékk hóp fjármálafyrirtækja, sem áttu mikið undir því að vandræði LTCM smituðu ekki út frá sér, til að leggja talsvert fé inn í fyrirtækið svo að hægt væri að selja eignir þess í rólegheitum og greiða upp skuldirnar án þess að viðsemjendur LTCM yrðu fyrir tjóni. Þótt það hafi tekist að bjarga LTCM þannig að aðrir en eigendur sjóðsins urðu ekki fyrir tjóni þá hefur sú reynsla og ýmis önnur dæmi um vandræði vogunarsjóða orðið til þess að rætt hefur verið opinberlega, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, um nauðsyn þess að setja starfsemi þeirra einhverjar skorður. Eitt helsta áhyggjuefnið er að margir sjóðir lendi í svipuðum vandræðum á sama tíma og neyðist allir til að selja sambærilegar eignir fyrirvaralítið. Það gæti valdið miklum óróleika á mörkuðum. Annað áhyggjuefnið er sem fyrr segir að skortur á gagnsæi sjóðanna og áhættusækni þeirra auki líkurnar á því að vandræði þeirra valdi verulegu tjóni fyrir viðsemjendur þeirra og jafnvel komi af stað fjármálakreppu. Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvernig er hægt að lofa að minnsta kosti 10% ávöxtun á mánuði?
- Hvernig elta menn vísitölu?
- Hvað er veðkall?
- Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að starfa við verðbréfaviðskipti?
- Hvað eru afleiður og þá afleiðustöður og notkun þeirra í fyrirtækjarekstri?
- Hvað þýðir „skortstaða“ í viðskiptum?
- Hversu lengi getur hækkun á hlutabréfum fyrirtækja haldið áfram? Endar ekki með því að eitthvað springur?
- Stjórnar græðgi hlutabréfaverði?
- Hvaða hlutabréf er best að kaupa?
- New York Times. Sótt 5.6.2008.