Það liggur í hlutarins eðli að sá sem sigrar í svona leik nær ávöxtun sem er vel yfir meðaltali allra þátttakenda (og yfir meðaltali ávöxtunar á markaðinum). Það þýðir því lítið að dreifa áhættu. Þeir sem það gera lenda að öllum líkindum nálægt meðaltalinu. Þeir sem taka mikla áhættu, veðja á eitt fyrirtæki sem stendur í mjög sveiflukenndum rekstri, lenda að öllum líkindum langt frá meðaltalinu - annaðhvort vel fyrir ofan það eða vel fyrir neðan það. Þá er líka ráðlegt að skipta um fyrirtæki af og til á leiktímabilinu. Það skiptir engu hve langt fyrir neðan meðaltalið keppandi í svona leik lendir, ólíkt því sem á við þegar fólk hættir raunverulegum peningum. Það sem skiptir máli er að hámarka líkurnar á því að lenda langt fyrir ofan meðaltalið. Miklu erfiðara er að ráðleggja um það hvaða fyrirtæki best er að kaupa þegar fólk er að hætta raunverulegum peningum. Reyndar eru til ýmsar aðferðir til að leggja mat á verðmæti fyrirtækja en það er efni í að minnsta kosti nokkur háskólanámskeið og verður ekki gert hér. Ef fólk festir umtalsverðan hluta eigna sinna í hlutabréfum skiptir miklu að dreifa áhættunni, það er að kaupa í mörgum hlutafélögum sem standa í ólíkum rekstri og á ólíkum mörkuðum. Það eru líka til ýmsar aðferðir til að finna út hvernig best er að standa í því en ekki er heldur rými til að lýsa þeim hér. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er veðkall? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað er vogunarsjóður? eftir Gylfa Magnússon
- Hversu lengi getur hækkun á hlutabréfum fyrirtækja haldið áfram? Endar ekki með því að eitthvað springur? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað eru hlutabréfavísitölur? eftir Gylfa Magnússon
- Stjórnar græðgi hlutabréfaverði? eftir Gylfa Magnússon
- Gecko & Fly. Sótt 14.2.2000.
Hvaða fyrirtæki er best að kaupa á hlutabréfamarkaðinum? (Ég er í hlutabréfaleik Landsbréfa og vil vita hvaða fyrirtæki er best að kaupa þar)