Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Veðkall er þýðing á enska heitinu 'margin call'. Hugtakið er meðal annars notað í verðbréfaviðskiptum þegar hlutabréf eru keypt með lánsfé að hluta og bréfin sett að veði fyrir láninu. Algengt er að sá sem veitir lánið krefjist þess að verðmæti bréfanna sem lögð eru að veði sé nokkru meira en upphæðin sem lánuð er.
Lækki verð hlutabréfanna þá getur lánveitandinn krafið lántakann um betra veð. Það er kallað veðkall. Lántakinn getur annaðhvort brugðist við veðkallinu með því að greiða inn á skuldina eða með því að leggja fram aðrar eignir sem veð. Hugsanlegt er að lántakinn selji einhvern hluta bréfanna sem hann keypti til að greiða lánveitandanum. Jafnvel er hugsanlegt að hann verði þvingaður til þess af lánveitandanum, sem hefur heimild til að selja hlutabréf lántakans ef hann getur ekki lagað stöðuna með öðrum hætti.
Þetta má skýra með dæmi.
Gerum ráð fyrir að Ketkrókur eigi eina milljón króna og fái aðra milljón lánaða hjá Hurðaskelli til að kaupa hlutabréf í Grýlukertagerðinni hf. Hurðaskellir fær öll bréfin að veði. Hann fær því að veði bréf sem eru tvöfalt meira virði en upphæð lánsins. Ketkrókur kaupir bréfin á genginu 10, það er hann fær hlutabréf að nafnvirði 200.000 krónur fyrir milljónirnar tvær. Þeir Hurðaskellir og Ketkrókur semja jafnframt um að veðið þurfi alltaf að vera að minnsta kosti 50% meira virði en lánsupphæðin. Ef það gengur ekki eftir þá fær Ketkrókur veðkall frá Hurðaskelli. Til einföldunar skulum við gera ráð fyrir að lánið beri enga vexti.
Nú gengur heldur illa hjá Grýlukertagerðinni, markaðurinn fyrir framleiðsluna reynist ekki jafngóður og spár gerðu ráð fyrir. Því lækkar gengi bréfanna niður í 6. Bréfin sem Ketkrókur keypti og lét Hurðaskelli fá að veði eru því einungis 1,2 milljóna króna virði. Verðmæti bréfanna er því einungis 20% meira en skuld Ketkróks við Hurðaskell, það er minna en þau 50% sem áskilin voru. Hurðaskellir gefur því út veðkall til Ketkróks.
Ef Ketkrókur hefði haldið sig við ketið í stað útrásar í kertagerð hefði Hurðaskellir kannski ekki þurft að gefa út veðkall.
Ketkrókur á nú þrjár leiðir úr vandanum:
Ef hann á aðrar eignir sem hægt er að veðsetja þá gæti það dugað. Hann þarf að leggja fram eignir að verðmæti að minnsta kosti 300 þúsund til að uppfylla skilyrðin fyrir láninu. Ef hann gerir það þá hefur Hurðaskellir eignir að verðmæti 1,5 milljón að veði, sem er 50% meira en lánsupphæðin.
Ef hann á laust fé þá getur hann greitt inn á lánið. Ef hann reiðir fram 200 þúsund skuldar hann 800 þúsund en Hurðaskellir hefur bréf að andvirði 1,2 milljónir að veði, sem er 50% meira en 800 þúsund. Þessi greiðsla dugar því til að fullnægja skilmálunum sem þeir félagar komu sér saman um í upphafi.
Ketkrókur getur selt hlutabréf í Grýlukertum og notað afraksturinn til að greiða inn á lánið. Hann þarf að selja bréf fyrir 600 þúsund krónur, það er bréf að nafnvirði 100 þúsund á genginu 6. Hann greiðir síðan Hurðaskelli 600 þúsund og skuldar þá einungis 400 þúsund. Hurðaskellir heldur eftir bréfum að andvirði 600 þúsund sem veð fyrir láninu. Veðið er þá 50% meira en lánsupphæðin. Þessi leið er oft kölluð þvinguð sala.
Leysi Ketkrókur vandann ekki sjálfur, það er ef hann bregst ekki við veðkallinu, þá getur Hurðaskellir ákveðið að fara leið 3 hvort sem Ketkróki líkar betur eða verr.
Það liggur í hlutarins eðli að veðköll eru algengust þegar verð á hlutabréfum fer almennt lækkandi. Vegna þess að veðköllin geta neytt eigendur hlutabréfa til að selja þau þá getur það jafnvel valdið enn meiri verðlækkun en ella.
Samningar geta verið talsvert flóknari en að ofan greinir. Vextir á lánum skipta til dæmis máli. Sé lán tekið í annarri mynt en hlutabréf eru skráð í, til dæmis tekið erlent lán til að kaupa íslensk hlutabréf, þá geta breytingar á gengi gjaldmiðla valdið veðköllum. Þótt veðköll séu einna algengust þegar hlutabréf eru lögð að veði, vegna þess að verð þeirra getur sveiflast mikið, þá geta einnig komið til veðköll þegar aðrar eignir eru veðsettar, ef verðmæti þeirra rýrnar af einhverjum orsökum eða lánsupphæðin hækkar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Í Morgunblaðinu 28. nóvember 2007 talar sérfræðingur um að mörg veðköll hafi átt sér stað og skýri það þróun á verðmæti félaga á markaði. Þetta heitir 'margin call' á ensku. Hvernig er hugtakið skýrt?