Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til þess að svara þessari spurningu þarf fyrst að huga að skilgreiningu á fyrirbærinu listheimur en um það er meðal annars hægt að lesa í svari við spurningunni Hefur samtímalist einhver áhrif á samfélagið? og í svari Gunnars Harðarsonar við spurningunni Hvernig er hægt að útskýra hvað list er? Meginatriðið í þeirri skilgreiningu er eftirfarandi:
...list er fyrst og fremst flokkun, hugtak og orðræða, en ekki sjálfstætt fyrirbæri. Þá er samtímalistin hluti af samfélagslegu og efnahagslegu kerfi (listheimi), sem bandaríski félagsfræðingurinn Howard S. Becker ræddi í bók sinni Listheimur (Art Worlds). Þar skilgreindi hann listheiminn sem eins konar net þeirra einstaklinga sem vinna í sameiningu að því að skapa þau listaverk sem listheimurinn er þekktur fyrir.
Besta leiðin til að fá upplýsingar og yfirsýn yfir það sem listheimurinn velur og sýnir á alþjóðlegum listsýningum og í áhrifamestu samtímalistasöfnum heimsins er að skoða vefsíður og sýningar safna eins og Tate Modern í London, Palais de Tokyo og Centre George Pompidou í París, og MoMA í New York. Listviðburðir eins og Feneyjatvíæringurinn og Documenta sem haldin er í Kassel í Þýskalandi á 5 ára fresti, sýna enn fremur þá listamenn sem efstir eru á baugi hverju sinni.
Í fyrsta sinn í sögunni verður kynjahalli leiðréttur á sérsýningu Feneyjatvíæringsins 2019 undir stjórn breska sýningarstjórans Ralph Rugoff. Þessi ákvörðun endurspeglar þá tilhneigingu innan listheimsins undanfarin ár að stefna að leiðréttingu kynjahalla og hleypa listamönnum jaðarþjóða og svokallaðra frumbyggja að borðinu. Heimsvæðing listheimsins (e. globalized artworld) sem hófst um og eftir 1990 hafði í för með sér að dregið hefur verið úr yfirburðum (e. hegemony) hins vestræna listheims og vestrænar listastofnanir hafa opnað sýningarstaði sína fyrir listamönnum úr öðrum heimshlutum, víkkað sjónarhornið og reynt að breyta innkaupastefnu sinni. Þá hafa ný samtímalistasöfn risið í flestum stórborgum heims og stór listhverfi hafa verið byggð í borgum eins og Peking.[1]
Bodys Isek Kingelez er einn af þeim listamönnum sem átti verk á sýningunni Töframenn jarðarinnar. Sýningin er nú talin mikilvægt birtingarform þeirrar umpólunar sem varð í vestrænum listheimi í lok 20. aldar, því hún kynnti til sögunnar listamenn frá heimshornum sem áður höfðu staðið á jaðrinum og boðaði þar með nýja sýn á listsköpun og ákveðna endurskoðun á listhugtakinu almennt.
Franski sýningarstjórinn Jean-Hubert Martin tók á vissan hátt fyrsta skrefið í átt að þessari þróun eða gliðnun listheimsins í stofnanalegum skilningi á sýningunni Magiciens de la Terre (Töframenn jarðarinnar), sem haldin var í frönsku menningarmiðstöðinni Centre George Pompidou árið 1989. Sýningin er nú talin mikilvægt birtingarform þeirrar umpólunar sem varð í vestrænum listheimi í lok 20. aldar, því hún kynnti til sögunnar listamenn frá þeim heimshornum sem áður höfðu staðið á jaðrinum og boðaði þar með nýja sýn á listsköpun og ákveðna endurskoðun á listhugtakinu almennt. Sýningin breytti jafnframt landamærum listheimsins og endurspeglaði val sýningarstjóra þá almennu heimsvæðingu listarinnar sem framundan var. Markaðsvæðing samtímalistar á heimsvísu fylgdi í kjölfarið með falli Sovétríkjanna, afnámi aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku, opnun kínverskra markaða, auk heimsvæðingar borga eins og Dubai, Singapúr og Hong-Kong. Sýningin fylgdi þannig fast í fótspor útbreiðslu ný-kapítalisma á heimsvísu.[2]
Viðfangsefni þessarar heimsvæddu listar eru ekki lengur eingöngu af fagurfræðilegum og formgerðarlegum toga, heldur hafa önnur fjölbreytt listform svo sem þátttöku- og samfélagslegamiðuð myndlist fengið mikil vægi. Auk þess hefur stafræna byltingin gjörbreytt framleiðsluaðferðum listamanna og viðtöku áhorfenda og dreifingu verka. Samtímalist er gagnrýnin og samfélagslega miðuð og nýtir stafræna tækni og samfélagsmiðla sem viðfang og tæki. Listamenn taka iðulega pólitíska afstöðu til þeirra mála sem efst eru á baugi og tengja verk sín við umræðu um loftslagsmál, nýlenduminningar, flóttamannavandann, mannsal, fólksflutninga, mengun, niðurbrot lífríkisins, genarannsóknir, mannrækt, tækniframfarir og falskar fréttir, svo nokkur dæmi séu nefnd. Tengsl listheimsins og þeirrar umbreytingar á heimsmyndinni sem hefur orðið á 21. öld eru þess vegna margslungin. Þessi þekkingarfræðilega og samfélagslega miðaða myndlist nýtir ýmis greiningartæki fræðaheimsins og gerir orðræðu hans að sínum.
Listamenn sækja í auknu mælim efnivið til fortíðarinnar (e. archival turn), nýta jafnvel rannsóknargögn og safnamuni í þeim tilgangi að afbyggja valda- og þekkingarkerfi samtímans og spyrja um leið spurninga um uppruna hugtaka eins og menningararfleifð, sjálfsmyndir og vísindakerfi samtímans.[3] Listamenn setja sig þá í spor fræðimannsins sem leitar heimilda, nýtir safnakost eða gögn sem hráefni verka eða gerir safngripi beinlínis að viðfangi verka sinna. Nefna mætti verk Ólafar Nordal, Musée Islandique (2012), sem dæmi um slíka gagnrýna rannsóknarlist þar sem spurningum er beint að rótum hins rasíska hugmyndaheims eða að útópíu genetískra rannsókna.
Aðrir fjalla um afleiðingar þrælahalds 19. aldar og áhrif þess á skynjun, fagurfræði, sjálfsmynd, minningar, þjóðarímyndir,og ójöfnuð í samfélaginu. Nefna mætti listamenn á borð við Yinka Shonibare, Kara Walker, Lorna Simpson og William Kentridge, öll taka þau pólitíska afstöðu í verkum sínum og vinna úr áföllum (e. trauma) fortíðarinnar á meðan aðrir minna á jaðarstöðu sína í misskiptum heimi svo sem Chéri Samba og Amidou Dossou en sýningin Töframenn jarðarinnar kom báðum þessum listamönnum á kortið. Áföll fortíðar og samtíma eru áberandi viðfangsefni samtímans, til að mynda í verkum kínverska andófsmannsins Ai Weiwei, en hann aflaði sér óvinsælda kínverskra yfirvalda með gagnrýni sinni þegar þúsundir kínverskra skólabarna létust í jarðskjálftum í Sichuan árið 2009. [4]
Yinka Shonibare tekur pólitíska afstöðu í verkum sínum og vinnur úr áföllum (e. trauma) fortíðarinnar. Þetta verk hans heitir End of Empire.
Listfræðingurinn, safnstjórinn og sýningastjórinn Okwui Enwezor[5] sem stýrði Feneyjatvíæringnum 2015, er fyrsti svarti listfræðingurinn sem hefur haft áhrif á heimsvísu. Marxísk sýn hans á listheiminn er undir áhrifum menningarrýnisins og fræðimannsins Stuart Hall (1932-2014). Gagnrýnar greiningaraðferðir Hall höfðu áhrif á fjölda breskra listamanna og birtast til að mynda í pólitískum vídeóverkum breska listamannsins Isaac Julien (f. 1960), en hann berst einnig fyrir réttindum hinsegin fólks og rannsakar meðal annars sögu svartra homma.
Ný bylgja femínisma og áhrif #MeToo-byltingarinnar hefur haft mikil áhrif og birtist meðal annars í endurkomu látinna listakvenna inn í hinn alþjóðlega listheim. Kvikmyndir af gjörningaverkum kúbönsku listakonunnar Ana Mendieta (1948-1985), sem lést að öllum líkindum af völdum heimilisofbeldis, hafa verið færðar yfir í stafrænt form og þar með gerðar aðgengilegar á ný. [6] Þá hefur #MeToo-byltingin breytt afstöðu áhorfanda til ákveðinna verka og til framsetningar þeirra í söfnum. Þannig hefur gagnrýni á liststofnanir verið áberandi á allra síðustu mánuðum og hafa stærstu heimssöfnin jafnvel neyðst til að endurskoða afstöðu sína til ákveðinna listaverka, listamanna og sýningarstjóra.[7]
Vert er þó að hafa í huga að list er ekki stjórnmálafl. Listaverk geta hvorki komið í veg fyrir mannsal, uppgang þjóðernisofstækis né linað þjáningar flóttafólks. [8] Viðfang listarinnar er því að einhverju leyti ætíð hún sjálf, en nýmiðlar og stafræn tækni munu á næstu áratugum breyta framsetningu og innihaldi myndlista, auk þess sem upplifun og þátttaka áhorfenda mun án efa taka miklum stakkaskiptum.
Tilvísanir:
Æsa Sigurjónsdóttir. „Hvað er að gerast í listheiminum í dag?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30312.
Æsa Sigurjónsdóttir. (2019, 20. mars). Hvað er að gerast í listheiminum í dag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30312
Æsa Sigurjónsdóttir. „Hvað er að gerast í listheiminum í dag?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30312>.