Konur berjast fyrir kosningarétti í New York árið 1915.
Kápa bókarinnar Á rauðum sokkum. Á myndinni sést stytta af Lýsiströtu í kröfugöngu 1. maí 1970.
Sjöundi áratugur tuttugustu aldar einkenndist af pólitísku umróti og ólgu sem kristallaðist í róttækum hreyfingum. Stúdentauppreisnin fór sem eldur í sinu frá Evrópu til Bandaríkjanna og andóf gegn ríkjandi þjóðskipulagi, valdníðslu og almennu misrétti varð háværara með hverju ári. Önnur bylgja femínista varð til í þessu andrúmslofti. Hún tók við af hinni fyrri með því að beita sér áfram fyrir jöfnum rétti og tækifærum kvenna og karla í hinu opinbera rými svo sem launajöfnuði, atvinnutækifærum, menntun og dagvistun barna. Um leið krafðist önnur bylgjan gagngerra breytinga á einkasviðinu sem fólst helst í uppstokkun kjarnafjölskyldunnar og ráðstöfunarrétti kvenna yfir eigin líkama. Réttur til getnaðarvarna og fóstureyðinga spilaði þar lykilhlutverk.