Hvað er hugmyndasaga og hvað getur maður mögulega orðið eftir að hafa menntað sig í henni?Einfalt svar gæti verið svohljóðandi: Hugmyndasaga er saga hugmynda, hugmyndastrauma eða hugmyndakerfa, hvort sem um er að ræða heimspekilegar hugmyndir, vísindakenningar, pólitískar stefnur eða lista- og menningarstrauma. Annað einfalt svar gæti verið að hugmyndasaga hverfist um þær hugmyndir sem menn hafa haft um sig sjálfa, aðra, náttúruna, guð og hvernig sé best að skipuleggja samfélög manna, út frá sögulegri framvindu eða samhengi þeirra hugmynda. Stuttar og laggóðar skýringar eru góðar og gildar en stundum gera þær lítið annað en að umorða spurninguna sjálfa; það er að segja, hugmyndasaga er saga hugmynda! Til að draga upp aðeins nákvæmari en jafnframt margbrotnari mynd er hægt að skoða hugmyndasögu sem akademískt fag og gefa dæmi um viðfangsefni hugmyndasagnfræðinga, helstu sjónarmið og stefnur innan greinarinnar. Hugmyndasaga er á mörkum heimspeki, bókmenntafræði og sagnfræði. Hún hefur ekki verið kennd á Íslandi sem sjálfstætt fag eða grein þó einstaka námskeið í hugmyndasögu hafi verið kennd innan annarra greina svo sem heimspeki. Í Bandaríkjunum hefur það sem kallast á ensku History of Ideas hlotið nokkra útbreiðslu og er framgangur greinarinnar þar í landi oft eignaður sagnfræðingnum Arthur O. Lovejoy (1872-1962). Sjónarhorn Lovejoy var að mögulegt væri að afmarka ákveðnar grunnhugmyndir eða hugmyndastef sem rekja mætti gegnum mannkynssöguna og hægt væri að greina, þrátt fyrir ólíkar birtingarmyndir á mismunandi tímabilum og stöðum á jarðarkringlunni. Ein helsta gagnrýni sem komið hefur fram á hugmyndir Lovejoy er sú að oft geti reynst erfitt að afmarka merkingu einnar og sömu hugmyndar sem tengd er við ákveðið hugtak, í gegnum ólík tímabil í sögunni. Sagnfræðingurinn Quentin Skinner, sem gagnrýndi Lovejoy harðlega, benti í þessu sambandi á mikilvægi hins sögulega og aðstæðubundna samhengis. Sama hugtak, orð eða hugmynd getur haft mjög mismunandi merkingu í ólíkum menningarheimum eða hjá hugsuðum ólíkra tíma. Hugmyndin um náttúrulögmál er ágætt dæmi en hún hafði ólíka merkingu hjá stóumönnum í fornöld, upplýsingarhugsuðunum 17. og 18. aldar og síðar nasistum í Þýskalandi 20. aldar.1 Á eftirstríðsárunum fór að bera á breyttu sjónarhorni í faginu innan bandarískra háskóla og hefur sú stefna eða grein verið nefnd Intellectual History á ensku. Þar er ekki eingöngu einblínt á greiningu einstakra hugmynda og ritaðar hugmyndir fræðinga og heimspekinga heldur einnig útbreiðslu þeirra og miðlun ásamt því að taka til umfjöllunar hugmyndir almennings, eða venjulegs fólks.2 Í Þýskalandi er greinin þekkt undir nafninu Geistesgeschichte og á sér nokkra hefð þar. Á Norðurlöndunum og þá sérstaklega í Svíþjóð hefur hugmyndasaga öðlast sterkan sess í flóru hugvísindagreinanna og er Idé- och lärdomshistoria eða idé- och vetenskapshistoria kennd við alla helstu háskóla þar í landi. Upphaf greinarinnar má rekja til einnar undirgreinar bókmenntafræðinnar, það er bókmenntasögu, en fékk stöðu sérstakrar greinar árið 1932 þegar Johan Nordström var skipaður prófessor í hugmyndasögu við Uppsalaháskóla. Á heimasíðu hugmyndasögudeildarinnar í Gautaborgarháskóla er faginu lýst á þessa leið:
Hugmyndasagnfræðingurinn rannsakar hvernig maðurinn hefur séð og skilið sjálfan sig og umheiminn á ólíkum tímabilum. Hvað er það sem aðskilur menn og dýr? Úr hverju er alheimurinn? Hvernig ber að skipuleggja samfélag? Get ég vitað nokkuð með vissu? Hvað er gott líf? Spurningar sem þessar beina sjónum að sögu heimspekinnar og vísindanna. En hugmyndasagnfræðingar rannsaka ekki einungis heildarsamhengin og hinar svokölluðu stóru hugmyndir viðurkenndra hugsuða heldur einnig þann samfélagslega jarðveg sem hugmyndir vaxa í, sem og þankagang almennings og hefðir. Samspil heimilda og samhengis er miðlægt í sjónarhorni hugmyndasagnfræðinnar. Stofnanir, tækni og miðlar eru mikilvæg atriði til að nálgast og öðlast skilning á því hvernig mannskilningur og ólíkar heimsmyndir mótast og dreifast.3Af þessu má sjá að hugmyndasagnfræðin hefur þverfaglegan blæ og eitt aðalsmerki hennar er að hún er ekki skýrt afmörkuð. Það er ekki heimildin sem skilgreinir fagið heldur hvernig við lesum heimildina og hvaða spurninga við spyrjum um fortíðina. Heimildin getur verið allt frá heimspekiriti, vísindalegri ritgerð, pólitískum bæklingi, verkfræðiteikningu eða auglýsingasnepli. Aðferð hugmyndasagnfræðinga er því að lesa texta og setja þá í sögulegt samhengi.4 En hvorki texti né samhengi eru einföld hugtök. Hversu vítt og yfirgripsmikið þarf samhengið að vera til að skýra efni textans? Hvaða sjónarhorn eða öllu heldur hverra sjónarhorn á að taka til greina og hvernig skilgreinum við texta? Skiptir kyn höfundarins eða litarháttur máli þegar túlka á textann? Hvað þýðir það þegar við segjum að einhver hugmynd hafi verið barn síns tíma? Er hægt að segja að texti hafi einhlíta og innbyggða merkingu eða er það undir lesandanum komið hvað þar finna má? Margir hugmyndasagnfræðingar beita túlkunarfræði í rannsóknum sínum og styðjast þá einkum við kenningar þýska heimspekingsins Hans-Georgs Gadamer (1900-2002). Gadamer lagði áherslu á hinn huglæga þátt lesandans við túlkun texta eða listaverka og talaði í því sambandi um samruna ólíkra sjóndeildarhringa. Hver nýr lestur skapar eitthvað nýtt, þar sem sjóndeildarhringur lesandans eða áhorfandans og sjóndeildarhringur verksins bræðast saman.5 Franski heimspekingurinn Michel Foucault er sennilega sá einstaklingur sem haft hefur mest áhrif á hugmyndasagnfræðina. Foucault stundaði rannsóknir við hugmyndasögudeildina í Háskólanum í Uppsölum á 6. áratug seinustu aldar og lagði þar fram doktorsritgerð sína um sögu geðveikinnar. Verkið var þó ekki samþykkt til doktorsgráðu sökum þess að prófessor Sten Lindroth þótti hún innihalda fullmikið af huglægum alhæfingum sem skorti vísindalegar stoðir. Þess má geta að í dag er varla hægt að ljúka námi í hugmyndasögu í Svíþjóð án þess að lesa eitt eða fleiri verk eftir Foucault. Seinna meir hlaut Foucault prófessorsstöðu í College de France í París sem bar yfirskriftina prófessor í sögu hugmyndakerfa.6 Foucault var meðal annars undir áhrifum þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsches og beitti svokallaðri sifjafræðilegri aðferð í rannsóknum sínum. Sagnfræðingur sem beitir sifjafræðilegri aðferð leitar ekki að uppsprettu merkingar, yfirskilvitlegum sannleika eða línulegri framvindu sögulegra atburða heldur beinir hann sjónum sínum að átökum og togstreitu, framleiðni sannleika og sambandi valds og þekkingar.
Sifjafræðin skipar sér ekki í andstöðu við söguna eins og drambsamt og djúpskyggnt augnaráð heimspekingsins andspænis moldvörpuaugum vitringsins; hún setur sig hins vegar upp á móti yfirsögulegri beitingu hreinnar merkingar og óendanleika markhyggjunnar. Hún setur sig upp á móti leitinni að „upprunanum“. 7Ekki síst vegna áhrifa hugmynda Foucault hefur farið fram mikil endurskoðun á hinni svokölluðu kanónu vestrænna vísinda og heimspeki undanfarin ár. Hugtakið kanóna vísar til þess hverjir teljast til lykilhöfunda og hvaða textar eru álitnir mikilvægir. Kanóna myndar það sem við köllum þekkingar-, menningar-, eða jafnvel hugsanahefð. Í því samhengi hefur verið bent á að raddir ýmissa jaðarhópa og kvenna hafi verið þaggaðar niður og framlag þeirra til hugmyndasögunnar gert lítt sýnilegt eða bjagað. Bæði feminískt- og síðnýlendusjónarhorn hafa því sett svip sinn á aðferðir hugmyndasögunnar seinustu ár og hefur það umbreytt hugmyndum um bæði texta og samhengi. Viðfangsefni hugmyndasagnfræðinnar eru þannig mörg og umsvif hennar og áhrif fara vaxandi. Tilvísanir:
1 Encyclopedia Britannica. 2013. History of Ideas, Intellectual History. historiography :: Intellectual history -- Britannica Online Encyclopedia (Skoðað 23.7.2013). 2 Encyclopedia Britannica. 2013. History of Ideas, Intellectual History. historiography :: Intellectual history -- Britannica Online Encyclopedia. (Skoðað 23.7.2013). 3 Heimasíða hugmyndasögudeildarinnar við Gautaborgarháskóla 2013. Idé- och lärdomshistoria . (Skoðað 23.7.2013). 4 Butler, Leslie. 2012. „From history of ideas to ideas in history“. Modern Intellectual History, tölublað 9, fyrsta útgáfa, apríl 2012, bls. 157-169. 5 Um Hans-Georg Gadamer í Stanford Encyclopedia of philosophy. Hans-Georg Gadamer (Stanford Encyclopedia of Philosophy). (Skoðað 1.8.2013). 6 Wikipedia. 2013. Michel Foucault. Michel Foucault - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 23.7.2013). 7 Foucault, Michel. 2005. „Nietzsche, sifjafræði, saga“. (Þýð. Björn Þorsteinsson) í Alsæi, vald og þekking (ritstj. Garðar Baldvinsson). Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Myndir:
- The Graph of Ideas | Flickr - Photo Sharing! Myndrétthafi er Tom Wigley. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 30.07.2013).
- File:Bergonic chair.jpg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12.03.2014).