Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kerlingarfjöll hafa flest einkenni fullþroska megineldstöðvar, fjölbreytilegar gosmyndanir, reisulega ríólítgúla, öskjubrot og háhitasvæði. Þau eru vel afmörkuð landfræðilega, tignarlegur og litríkur fjallaklasi sem rís upp yfir hálendið við suðvesturhorn Hofsjökuls, milli Kjalar og Þjórsárvera. Ekki er vitað um neinar bergmyndanir eldri en frá núverandi segulskeiði sem hófst fyrir um 780.000 árum. Elsta aldursgreint berg í fjöllunum er 336.000 ára.1
Mikil eldvirkni hefur verið í Kerlingarfjöllum á síðustu jökul- og hlýskeiðum ísaldar.2 Rúmlega 20 aðgreindar goseiningar úr kísilríku bergi eru þekktar, en meðal þeirra eru allir helstu tindar svæðisins. Aldur þeirra dreifist á tæplega 300.000 ára bil (sjá töflu hér að neðan). Eldvirknin virðist að mestu hafa orðið undir jökulís, og einungis tveir tindar, Höttur og Loðmundur, eru með hraun á kolli. Bendir það til þess að gosin hafi náð upp úr jöklinum. Nokkur jökulurin basalthraun vitna um gos á jökulvana landi. Tvær allgreinilegar öskjur eru í Kerlingarfjöllum, og raunar má sjá vísi að þeirri þriðju.3 Háhitasvæðið þar er þrískipt, það er Efri- og Neðri-Hveradalir í austuröskjunni og Hverabotn sem virðist tengjast vesturöskjunni.
Aldursgreiningar í Kerlingarfjöllum (Flude, 2005)
Eining
Aldur í þúsundum ára
Vikmörk ($\pm$)
Draugafell
336
16
Höttur
331
16
Tindur
279
15
Efri-Kisubotnahnjúkur
265
8
Klakkur
255
5
Tröllabarmur, austurhlíð
249
14
Eyvindur
247
7
Höttur, syðri tindur
209
14
Ögmundur
208
10
Loðmundur
175
8
Snækollur
171
8
Mænir
156
17
Hverahnjúkur
133
9
Fannborg
79
6
Höggunarsprungur eru einkum af tvennum toga. Annars vegar eru það gliðnunarsprungur og misgengi, og hins vegar öskjubrot sem tengjast kísilríkri eldvirkni í fjöllunum. Ekki er hægt að sjá að sprungusveimur tengist megineldstöðinni. Ef til vill má halda því fram að það sé sérkenni hennar hve lítið ber á línulegu sprungumynstri. Ákveðinnar hryggjastefnu verður ekki heldur vart. Háhitinn er fyrir vikið bundinn við kjarna eldstöðvarinnar. Sprunguskarar eru þó í nágrenni fjallanna, en ekki er vitað um jarðhita í tengslum við þá. Einn slíkur, með stefnu til norðausturs, er til dæmis sunnan þeirra, við Litla-Leppi og Rauðkolla. Hann stefnir upp í Hofsjökul norðan við Arnarfell og gæti hugsanlega tengst megineldstöð þar. Áberandi sprunguskari með stefnu til norðvesturs er á flatlendinu í Jökulkróki, milli Kerlingarfjalla og Hofsjökuls. Þetta er óvenjuleg sprungustefna, að minnsta kosti þegar um er að ræða ungar og auðsæjar sprungur.
Megineldstöðin í Kerlingarfjöllum er um 140 ferkílómetrar að flatarmáli, og er þá miðað við það sem kalla mætti óðal eldstöðvarinnar og markast af súrum og ísúrum gosmyndunum. Um aldur askjanna er fátt vitað, og ekki eru þekkt nein gjóskulög utan þeirra sem verða rakin til Kerlingarfjalla, hvorki á landi né í sjó. Líklegast er að myndun þeirra tengist miklum troðgosum,4 þegar ríólítgúlarnir hlóðust upp og minnst var á hér framar. Líklegur aldur þeirra er 200-300 þúsund ár, en vesturaskjan sýnist eldri.
Horft til norðurs yfir Kerlingarfjöll. Efri-Hveradalir eru fyrir miðju, og upp af þeim rís Snækollur hæst. Efst í hægra horni myndar sér í Blágnípujökul.
Austuröskjuna mætti kalla aðalöskjuna, því að hún er bæði stærri og greinilegri en hin vestari. Hún umlykur meginríólítsvæði fjallanna, Loðmund, Snækoll, Fannborg, Eyvind, Höllu og fleiri tinda. Askjan er þríhyrningslaga, um sex kílómetra löng í stefnu norðnorðvestur-suðsuðaustur. Hún víkkar til norðurs og er breiðust nyrst, um 5,8 kílómetrar. Flatarmálið er því 17-18 ferkílómetrar. Brotið markast víða af stalli, allt að 200 metra háum. Það kemur glögglega fram vestan og sunnan Kerlingarfjalla og markar norður- og vesturhliðar Neðri-Hveradala. Um upprunalega dýpt öskjunnar er erfitt að dæma, en vart hefur hún verið undir 250 metrum.
Vesturaskjan umlykur einnig marga ríólíttinda svo sem Ögmund, Hött og Röðul. Hún er ílöng frá vestri til austurs um fimm kílómetrar á lengd og 3,4 kílómetrar á breidd, og um 14 ferkílómetrar að flatarmáli. Fjöllin Mænir og Tindur virðast vera yngri en askjan og hafa orðið til við troðgos á öskjurimanum.
Mjög lítil skjálftavirkni er í Kerlingarfjöllum andstætt Hofsjökli. Í gagnabanka jarðskjálftadeildar Veðurstofu Íslands eru aðeins skráðir fjórir smáskjálftar á síðustu tíu árum. Kvikuhólf undir fjöllunum hefur því verið aðgerðalaust og ef til vill ekki virkt lengur. Jarðfræðingar hafa þó jafnan talið fjöllin til virkra eldstöðva.
Fannborg og Hverahnjúkur. Á milli þeirra sér í hátinda Snækolls. Fjöllin hafa orðið til við gos undir jökli á síðasta og næstsíðasta jökulskeiði ísaldar
Kísilríkar gosmyndanir fylla eystri öskjuna að mestu. Vestasti hluti hennar, þar sem Hveradalir eru nú, fylltist þó ekki af gosmyndunum. Þar hefur verið mikil lægð, lokuð á allar hliðar. Á jökulskeiðum hefur hún verið full af ís eða ísi þöktu bræðsluvatni. Á hlýskeiðum var þarna öskjuvatn frá öskjubrotinu í norðri og suður að Tjarnarhöfða. Askjan hefur sennilega verið fljót að fyllast af seti. Þetta set, víða tugir metra að þykkt, myndar nú öskjufyllingu sem háhitavirkni hefur umbreytt mjög, og roföflin eru sem óðast að ryðja burtu.
Innviðir fyllingarinnar sjást víða í giljum. Vegna umbreytingar efnisins er þó erfitt að ráða í uppruna þess. Í upphafi nútíma þegar ísaldarjökullinn hörfaði af Kerlingarfjallasvæðinu, virðist öskjuvatnið orðið fullt af seti. Árskarðsáin hefur kvíslast um fyllinguna sem þá hefur verið tiltölulega sléttlend, í um 980 metra hæð. Gljúfrið þar norður af hefur ekki verið til, en áin þó fljótlega farið að sverfa sig niður í yfirborðslögin og síðan grafið sig hægt niður í auðrjúfanlegt móbergið. Að lokum hefur hún skorið djúpt skarð í þröskuldinn eða öskjurimann sem áður hélt uppi öskjuvatninu. Þá gat áin farið að rjúfa sundur öskjufyllinguna sjálfa. Hveravirknin á svæðinu hefur hraðað rofinu með því að sjóða sundur jarðlögin og breyta þeim í linan og skriðgjarnan leir. Jökulfannir í hlíðum hafa einnig lagt sitt til veðrunarinnar. Saman hafa útræn og innræn öfl skapað það giljalandslag sem nú einkennir Hveradali, og eru enn að, því að rofið gengur svo hratt að auðsæjar breytingar verða frá ári til árs.
Tilvísanir:1 Flude, S., 2005. Rhyolite Volcanism in Iceland: Timing and Timescales of Eruption. Doktorsritgerð, University of Manchester. 2 Karl Grönvold, 1972. Structural and petrochemical studies in the Kerlingarfjöll region, central Iceland. Doktorsritgerð, University of Oxford.
Árni Hjartarson og Magnús Ólafsson, 2005. Kerlingarfjöll. Könnun og kortlagning háhitasvæðis. ISOR 2005/012. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík. 3 Kristján Sæmundsson, 1982. Öskjur á virkum eldfjallasvæðum á Íslandi. Eldur í norðri. Afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum 8. janúar 1982. Sögufélag, Reykjavík, 221-239. 4 Troðgos eru hraungos þar sem bergkvikan er það seig að hún hrúgast upp yfir gosopinu, en breiðir ekki mikið úr sér. Fjallið Baula í Borgarfirði er myndað í slíku gosi.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Hofsjökul í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 315 og 317.
Árni Hjartarson. „Hvað getur þú sagt mér um Kerlingarfjöll?“ Vísindavefurinn, 23. júlí 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=26658.
Árni Hjartarson. (2013, 23. júlí). Hvað getur þú sagt mér um Kerlingarfjöll? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=26658
Árni Hjartarson. „Hvað getur þú sagt mér um Kerlingarfjöll?“ Vísindavefurinn. 23. júl. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=26658>.