Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ares var grískur guð stríðs, hugrekkis, reiði og ofbeldis. Hann var ekki sérlega vinsæll, hvorki meðal guða né manna, og því var Aþena, gyðja visku og herkænsku, oft frekar tilbeðin og henni færðar fórnir í hans stað. Ares þótti frekar einfaldur guð sem lét sig litlu varða hvort hann ynni stríð eða bardaga bara ef nægu blóði var úthellt. Merki hans var spjót og hjálmur.
Í Trójustríðinu studdi Ares Trójumenn í baráttunni gegn Grikkjum. Hann særðist hins vegar í átökum við hetjuna Díómedes og gyðjuna Aþenu sem stóð með Grikkjum. Meðal annarra hetjudáða hans var að drepa risann Ekhidnades.
Ares var annar tveggja sona Heru og Seifs. Hinn sonur þeirra var smíðaguðinn Hefaistos. Seifur átti marga aðra syni með öðrum konum. Systir Aresar Eris, gyðja ágreinings, og synir hans Deimos og Fóbos (Ógn og Skelfing) voru fylgigoð hans.
Ares átti í ástarsambandi við ástargyðjuna Afródítu, en hún var gift smíðaguðinum Hefaistosi. Þegar sólarguðinn Helíos sagði honum frá sambandi þeirra fangaði Hefaistos skötuhjúin í ósýnilegt net sem hann hengdi upp fyrir allra augum á Ólympstindi, þeim til háðungar.
Auk Deimosar og Fóbosar átti Ares einnig dótturina Harmoníu, gyðju sáttar og samlyndis. Meðal dauðlegra barna hans má nefna Amasónurnar og Spartverja. Hliðstæða Aresar í rómverska goðaheiminum er Mars sem samnefnd reikistjarna er kennd við ásamt mánuðinum mars.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ólafur Þórðarson. „Getið þið sagt mér frá gríska guðinum Aresi?“ Vísindavefurinn, 18. júní 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=24386.
Ólafur Þórðarson. (2008, 18. júní). Getið þið sagt mér frá gríska guðinum Aresi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=24386
Ólafur Þórðarson. „Getið þið sagt mér frá gríska guðinum Aresi?“ Vísindavefurinn. 18. jún. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=24386>.