Því næst lagði hinn rómsterki Díómedes fram eirspjóti sínu, en Pallas Aþena stefndi spjótinu neðanvert í nárann, þar sem bryngyrðillinn lá yfir um hann; þar kom hann lagi á Ares, og særði hann, og skar í sundur hið fríða hörund. Hann kippti spjótinu út aftur, en hinn eirvopnaði Ares grenjaði svo hátt sem 9 þúsund eða 10 þúsund menn æpa í bardaga, þegar þeir hefja kappleik Aresar; urðu þá Akkear og Trójumenn hræddir og skulfu af ótta: svo hátt öskraði Ares, er aldrei verður saddur á bardögum. (Ilíonskviða 5.855 o. áfr.)
Í tuttugustu bók Ilíonskviðu taka guðirnir á ný þátt í bardaganum: Hera, Aþena, Póseidon, Hermes og Hefæstos berjast með Akkeum en Ares, Apollon, Artemis og Afródíta auk annarra berjast með Trójumönnum. Í tuttugustu og fyrstu bók berst Aþena á móti Afródítu og Aresi og hefur betur. Átökum Aþenu og Aresar lýsir Hómer svo í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar:
Að því mæltu lagði Ares í hinn ógurlega, skúfaða ægisskjöld, þann er jafnvel reiðarslag Seifs vinnur ekki á. Þar í lagði hinn blóðflekkaði Ares hinu langa spjóti sínu. Aþena hopaði aftur, og þreif með sinni þreknu hendi stein einn, er lá á vellinum; hann var svartur, hrufóttur og mikill; það var marksteinn, er fornmenn höfðu sett þar. Með þeim steini laust hún Ares, og kom á hálsinn; varð Ares óvígur, og féll hann; lagði hann undir sig sjö plógslönd, þar sem hann lá; varð þá hár hans moldugt, og vopnin glömruðu alla vega utan á honum. Þá hló Pallas Aþena [...] (Ilíonskviða 21.400 o. áfr.)Svör um tengt efni á Vísindavefnum:
- Hver var Afródíta eftir Jóhann Bjarka Arnarsson Hall
- Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann? eftir Geir Þ. Þórarinsson