Rústir hinnar fornu borgar Spörtu.
Á 11. og 12. öld f.Kr. streymdu hópar fólks til Grikklands úr norðri. Þetta fólk talaði grískar mállýskur sem kallast einu nafni dóríska. Þeir sem bjuggu fyrir í landinu töluðu jónískar og æólískar mállýskur og nefndust Jónar og Æólar. Þeir höfðu komið til landsins nokkur hundruð árum áður. Dórarnir settust meðal annars að á Pelópsskaga þar sem Sparta stóð og gerðust þar herraþjóð. Æ síðan byggðu Dórar Spörtu og raunar má enn finna leifar af dórískri mállýsku í máli þeirra sem þar búa. Um miðja 8. öld f.Kr. fór Sparta að færa út kvíarnar. Spartverjar innlimuðu fyrst allt Lakóníuhérað og seinna nágrannaríkið Messeníu sem var vestan við Lakóníu. Íbúar þessara héraða urðu ýmist ríkisþrælar, svonefndir helótar, eða frjálsir en réttindalausir íbúar, svokallaðir kringbyggjar, og héldu þeir uppi efnahag Spörtu. Útþenslustefna Spörtu stafaði einkum af aukinni þörf fyrir jarðir og ræktað land vegna fólksfjölgunar. Þrátt fyrir þetta voru spartverskir borgarar alltaf tiltölulega fáir. Þeir voru allir í hernum og stunduðu stanslausar heræfingar þegar þeir voru ekki í stríði, en þannig gátu þeir haldið yfirráðum sínum. Ekki leið á löngu áður en öll ríkin á Pelópsskaganum, að undanskildum ríkjunum Argos og Akkaju, gengu í bandalag með Spörtu. Spartverjum stóð því ekki ógn af neinum fyrr en Persar reyndu að sölsa undir sig Grikkland snemma á 5. öld f.Kr. Í Persastríðunum gegndu spartverskir hermenn mikilvægu hlutverki í orrustunni við Laugaskörð (Þermopýlæ) árið 480 f.Kr. Þar börðust um 300 Spartverjar auk um 1700 annarra Grikkja undir stjórn Leónídasar, annars tveggja konunga Spartverja, við margfalt stærri her Persa og töfðu framgöngu hans dögum saman. Vegna þess hve þröngt var í skarðinu gátu Persar ekki nýtt sér liðsmuninn. Sagnaritarinn Heródótos segir að í her Persa hafi verið rúmlega fimm milljónir hermanna, en fræðimenn draga það hins vegar í efa og telja að í persneska hernum hafi verið milli 200 og 500 þúsund manns.
Leónídas, annar tveggja konunga Spörtu, fór fyrir Grikkjum í orrustunni við Laugaskörð. Málverkið er eftir Jacques-Louis David (1814).
Árið 371 f.Kr. beið spartverski herinn ósigur í stríði gegn Þebu. Máttur Spörtu var þá farinn að dvína. Um miðja 4. öld f.Kr. jukust áhrif Filipposar II. Makedóníukonungs á Grikklandi. Sonur hans, Alexander mikli, sameinaði loks öll grísku borgríkin í eitt veldi. Sparta varð aldrei aftur stórveldi; blómatími hennar var liðinn. Myndir
- Mynd af rústum Spörtu er af síðunni Image:Sparti in-river-Eurotas-valley flanked-by-Taygetos-mountains.jpg. Wikimedia Commons.
- Mynd af Leónídasi er af síðunni Image:Jacques-Louis David 004.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopædia.