Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrstu sólarhringana í kolvetnasvelti klárast glýkógenbirgðir líkamans sem eru í vöðvum og lifur. Eftir það fer sykurnýmyndun af stað þegar lifrin breytir prótínum/amínósýrum í glúkósa til að halda blóðsykrinum stöðugum og næra heilann sem brennir glúkósa undir eðlilegum kringumstæðum. En eftir um það bil viku fer lifrin að framleiða ketóna úr fitu til að spara prótín sem þurfa að nýtast til vöðvauppbyggingar og viðgerða. Heilinn aðlagast því að nota ketóna í staðinn fyrir glúkósa. Aðrar frumur líkamans geta nýtt fituna beint, nema rauðu blóðkornin sem nýta þann litla glúkósa sem er til staðar og kemur úr fitu- og amínósýrubruna.
Ketógenískt fæði er það kallað þegar kolvetnaneyslan er mjög skert (20-50 grömm á dag), hóflega er borðað af prótíni en ótakmarkað magn af fitu. Þetta fæði viðheldur ketónaframleiðslu lifrarinnar, svokallaðri ketósu, og var þróað snemma á þriðja áratug síðustu aldar sem meðferð fyrir flogaveik börn. Ketógenískt fæði hefur sýnt sig að fækka flogum um meira en helming hjá yfir 50% barnanna og 10-15% þeirra verða einkennalaus og fá engin flog.[1][2] Ástæðan er óljós en ketógenískt fæði gæti haft svipuð áhrif á aðra taugasjúkdóma, eins og parkinsonsveiki og alzheimers-sjúkdóminn.[3] Vísbendingar eru um að þó flogaveiku börnin fari aftur að borða kolvetnaríkara fæði eftir einhverja mánuði eða ár, þá geti þau hugsanlega haldið árangrinum að einhverju leyti, eða að minnsta kosti flogin komi ekki jafn ört og áður en meðferðin hófst.[4]
Ketógenískt fæði er það kallað þegar kolvetnaneyslan er mjög skert (20-50 grömm á dag), hóflega er borðað af prótíni en ótakmarkað magn af fitu. Þetta fæði viðheldur ketónaframleiðslu lifrarinnar, svokallaðri ketósu.
En ketógenískt fæði hefur aukaverkanir. Vaxtarskerðing er það þegar börn ná ekki fullum vexti, verða ekki eins hávaxin og þau gætu annars orðið. Vaxtarskerðing getur verið vísbending um að líffæri líkamans hafi ekki náð fullum þroska. Langvarandi svelti hefur þessi áhrif á börn eins og oft hefur gerst í sögunni þegar hungursneyð geisar. Börn á ketógenísku fæði geta líka orðið fyrir vaxtarskerðingu, þó þau hafi nægt aðgengi að fitu og prótínum og borði sig södd. Beinmassinn rýrnar svo þau verða viðkvæm fyrir beinbrotum og hætta á nýrnasteinum eykst.[5]
Það hefur sýnt sig að ketógenískt fæði stuðlar að þyngdartapi hjá fullorðnum og hefur ýmis áhrif sem geta gagnast fólki með sykursýki af tegund 2[6] því þegar blóðsykur lækkar sökum takmarkaðrar kolvetnaneyslu, seytir brisið minna insúlíni í blóð og insúlínnæmi eykst. Áhrif á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma eru flest eða öll jákvæð, alla vega til skamms tíma. En ketógenískt fæði hefur líka aukaverkanir á fullvaxið fólk þó flestar séu þær skammvinnar. Sætur keimur af andardrætti, tap á söltum úr líkamanum, óþægilegir krampar í fótleggjum, flensutilfinning, orkuleysi, þokuhugsun, harðlífi, höfuðverkur, þorsti, tíð þvaglát og meltingartruflanir eru þær helstu. Þetta gengur yfir hjá flestum þegar líkaminn aðlagast.
Ein ástæða þess að fólk léttist á ketógenísku fæði er sú að ef maður útilokar heilu fæðuflokkana úr mataræðinu, þá minnkar orkuinntaka ósjálfrátt. Ef fitan í fæðinu dugar ekki fyrir allri þeirri orku sem maður eyðir er gengið á líkamsfituna. Aðrar skýringar eru hærri grunnorkubrennsla en á fituskertu fæði og aukin seddutilfinning vegna lægra insúlíns. Ástæða þess að ýmsir áhættuþættir sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma fara í rétta átt gætu líka tengst þyngdartapinu. Sá sem er of feitur og missir 5-10% líkamsþyngdar á fituskertu fæði minnkar hættu á að þróa með sér sykursýki um 58%.[7][8]
Þó það sé óhætt fyrir flesta að framkalla ketósu í líkamanum, þá geta sumir upplifað næringarskort eða næringarójafnvægi. Á ketógenísku fæði getur skapast skortur á kalki, járni og B-vítamínum auk trefja. Það er því mikilvægt að vanda til verka, borða nógu fjölbreytta fæðu úr þeim flokkum sem leyfðir eru og taka fæðubótarefni ef þörf er á. Gott er að hafa samráð við næringarfræðing.
Lengri rannsóknir á ketógenísku fæði ná ekki yfir nema 12-24 mánuði. Þess vegna er lítið vitað um raunveruleg langtímaáhrif af ketógenísku fæði á nýrun, beinin og hjartað. Og það er erfitt að halda sig við svona strangt fæði til lengdar. Því miður fara sumir úr einum öfgum í aðra, þeir missa tökin á kolvetnaneyslunni og fitna hratt og mikið.
Grundvallaratriði er að þau kolvetni sem eru borðuð séu holl, það er grænmeti, ávextir, heilkorn og hreinar mjólkurvörur án viðbætts sykurs.
Grundvallaratriði er að þau kolvetni sem eru borðuð séu holl, það er grænmeti, ávextir, heilkorn og hreinar mjólkurvörur án viðbætts sykurs. Margir sem reyna ketógenískt fæði detta í þá gryfju að neita sér um ávexti, brauð og aðrar kornvörur, kartöflur, hrísgrjón og pasta en ráða ekki við kolvetnalöngunina og leyfa sér sætindi. Ef þeir vilja viðhalda ketósu verður magnið að vera afar takmarkað.
Klínískar leiðbeiningar um næringarmeðferð við sykursýki 2 [9] bjóða upp á þrjár leiðir sem allar geta stuðlað að þyngdartapi og betri blóðsykurstjórnun. Ein þessara leiða er lágkolvetnafæði. Þetta er ekki hið eiginlega ketógeníska fæði. Inni í þessu fæði er einn ávöxtur á dag, hafragrautur og hrein jógúrt en öllu brauði, kartöflum, hrísgrjónum og pasta er sleppt. Samt sem áður er þeim sem hafa skerta nýrnastarfsemi ekki ráðlagt að reyna þetta fæði og þeir sem hafa hátt LDL-kólesteról, þeir sem nota insúlín eða eiga á hættu að fá sykurfall verða að láta lækni eða næringarfræðing fylgjast með sér.
Kolvetnasvelti um lengri tíma er sannarlega mögulegt, en ekki er víst það sé skynsamlegt, allavega ekki fyrir hvern sem er.
Tilvísanir:
^ Patel, A., Pyzik, P. L., Turner, Z., Rubenstein, J. E. og Kossoff, E. H. (2010). Long-term outcomes of children treated with the ketogenic diet in the past. Epilepsia, 51(7), 1277-1282.
^ Kossoff, E. H. og Rho, J. M. (2009). Ketogenic diets: Evidence for short- and long-term efficacy. Neurotherapeutics, 6(2), 406-414.
^ Veyrat-Durebex, C., Reynier, P., Procaccio, V., Hergesheimer, R., Corcia, P., Andres, C. R. og Blasco, H. (2018). How Can a Ketogenic Diet Improve Motor Function? Front. Mol. Neurosci., 11, 15.
^ Kossoff, E. H. og Rho, J. M. (2009). Ketogenic diets: Evidence for short- and long-term efficacy. Neurotherapeutics, 6(2), 406-414.
^ Patel, A., Pyzik, P. L., Turner, Z., Rubenstein, J. E. og Kossoff, E. H. (2010). Long-term outcomes of children treated with the ketogenic diet in the past. Epilepsia, 51(7), 1277-1282.
^ Bueno, N. B., de Melo, I. S. V., de Oliveira, S. L. og Ataide, T. R. (2013). Very-low-carbohydrate ketogenic diet v. low-fat diet for long-term weight loss: a meta-analysis of randomised controlled trials. British Journal of Nutrition, 110(7), 1178-1187.
^ Diabetes Prevention Program Research Group. (2002). Reduction in the incidence of type 2 diabetes with lifestyle intervention or metformin. The New England Journal of Medicine, 346, 393-403.
^ Tuomilehto, J., Lindström, J., Eriksson, J. K., Valle, T. T., Hämäläinen, H., Ilanne-Parikka, P. o.fl. (2001). Prevention of type 2 diabetes mellitus by changes in lifestyle among subjects with impaired glucose tolerance. The New England Journal of Medicine, 344, 1343-1350.
^ Heilræði. Sykursýki af tegund 2 - nýjar leiðbeiningar um næringarmeðferð. Sótt af http://www.heilraedi.is/blogg75 17.4.2019.
Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir. „Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni, t.d. á ketófæði?“ Vísindavefurinn, 29. apríl 2019, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2170.
Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir. (2019, 29. apríl). Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni, t.d. á ketófæði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2170
Anna Ragna Fossberg Jóhönnudóttir. „Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni, t.d. á ketófæði?“ Vísindavefurinn. 29. apr. 2019. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2170>.