Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sóri (e. psoriasis) er krónískur bólgusjúkdómur og tilheyrir flokki gigtarsjúkdóma. Sjúkdómurinn leggst aðallega á húð einstaklinga en getur þó haft áhrif á hvaða hluta líkamans sem er, en algengast er að hann leggist á höfuðleður, olnboga eða hné. Einkennin lýsa sér sem dökkrauðir eða fjólubláir upphleyptir þurrkublettir á afmörkuðu svæði húðarinnar. Þetta verður vegna ofurviðbragðs ónæmiskerfisins sem veldur offramleiðsla á húðfrumum á vissum svæðum líkamans.[1][2]
Enn er ekki fundin skýring á því hvað veldur sjúkdómnum, annað en að hann tengist bæði erfðum og umhverfisþáttum.[3][4] Það sem hefur áhrif á framgang sjúkdómsins eru ónæmisfræðilegir þættir, erfðir og umhverfisþættir, þar á meðal mataræði.[5]
Mataræði er einn af þeim þáttum sem getur haft áhrif á framgang sóra.
Breytingar á mataræði geta haft áhrif á framgang sjúkdómsins, dregið úr einkennum hans og áhættu á öðrum algengum fylgisjúkdómum. Fyrir suma getur verið jákvætt að velja orkuskert fæði, sérstaklega ef viðkomandi er í yfirþyngd. Mælt er með að einstaklingar með sóra takmarki inntöku á mettuðum fitusýrum í fæðinu og velji í stað fjölómettaðar fitusýrur, helst ríkar af ómega-3 sem er þekkt fyrir bólguhemjandi áhrif. Andoxunarefni á borð við A-vítamín, C-vítamín, E-vítamín, karótín, flavoníða og selen eru talin mikilvægur þáttur í næringarmeðferð fyrir fólk með sóra.
Ýmsar matarvenjur hafa verið rannsakaðar í tengslum við sjúkdómseinkenni sóra, meðal annars glúteinsnautt mataræði, grænmetisfæði og miðjarðarhafsmataræði. Rannsóknum kemur ekki saman um niðurstöður en sterkar vísbendingar eru um að breytingar á mataræði geti haft mikil jákvæð áhrif fyrir einstaklinga með sóra.[6][7]Matur, vítamín og steinefni sem talin eru draga úr einkennum sóraFiskiolía eða ómega-3 bætiefni: Rannsóknir hafa sýnt verulega minnkuð einkenni eftir 3-6 mánaða inntöku á ómega-3. Rannsóknir á fiskiolíu voru misvísandi og sýndu sumar fram á jákvæð áhrif á meðan aðrar sýndu ekki fram á nein áhrif.
D-vítamín: Náttúrulega fáum við D-vítamín aðallega frá sólinni, eitthvað getum við fengið úr fæðu og þá aðallega feitum fisk og innmat. Á Íslandi getur sólarljós verið af skornum skammti og samkvæmt niðurstöðum úr könnunum á mataræði Íslendinga þá borðum við feitan fisk og innmat í afar litlum mæli. Þess vegna er mælt með að allir Íslendingar taki inn D-vítamín bætiefni.
Rannsóknir hafa sýnt lækkuð gildi á D-vítamíni í blóði hjá einstaklingum með sóra í samanburði við viðmiðunarhóp. Aukin einkenni sjúkdómsins yfir vetrarmánuðina mætti því að einhverju leyti rekja til sólarleysis og þar af leiðandi D-vítamínskorts.
B12-vítamín: Fæst úr ýmsu sjávarfangi og lifur. B12-vítmín hefur verndandi áhrif á frumur gegn oxunarálagi sem verður vegna bólgumyndunar og hafa rannsóknir sýnt einhverjar jákvæðar niðurstöður gegn sóraeinkennum.
Selen: Fæst úr fiski, skelfiski, eggjum, fuglakjöti og korni. Hefur víðtæka líffræðilega virkni og sýnt hefur verið fram á að fæði ríkt af seleni geti dregið úr framleiðslu og virkni á bólguhvetjandi efnum. Blóðmælingar hjá einstaklingum með sóra sýndu lægra gildi af seleni en hjá viðmiðunarhóp.
Trefjar: Fást úr grænmeti, ávöxtum og grófu korni. Við gerjun fæðutrefja í ristli verða til svokallaðar stuttar fitusýrur (SCFAs) sem hafa mikil og jákvæð áhrif á heilsu og draga meðal annars úr bólgum.[8][9][10][11]
Feitur fiskur, eins og silungur og lax, er ríkur af ómega-3 fitusýrum og uppspretta D-vítamíns.
Matur, vítamín og steinefni sem talin eru auka einkenni sóraMettaðar fitusýrur finnast meðal annars í smjöri og rauðu kjöti. Mataræði sem inniheldur mikið af mettuðum fitusýrum er fituríkt og orkuþétt og stuðlar þannig að auknum líkum á offitu, hækkun á blóðfitum og hjarta- og æðasjúkdómum.
Rautt kjöt: Nauta- og svínakjöt er ríkt af mettuðum fitusýrum og bólguþáttum sem ýta undir bólgumyndun og er því ekki mælt með að óhóflegri inntöku á rauðu kjöti. Embætti landlæknis mælir með minna en 500 g á viku fyrir heilbrigða einstaklinga.[12]Einföld kolvetni eða sykrur á borð við súkrósa geta aukið einkenni sóra.
Alkóhól: Áfengi hefur neikvæð áhrif á þéttni húðar og getur alkóhól haft hvetjandi áhrif á bólgumyndun í sórasjúkdómnum.[13][14][15]Tilvísanir:
^ National Institute og Arthritis and Musculoskeletal and Skin Diseases.
Ólöf Guðný Geirsdóttir prófessor í næringarfræði svaraði þessari spurningu upphaflega fyrir Vísindavefnum árið 2000. Eftir ábendingu frá Hafþóri Reynissyni í ágúst 2023 var skrifað nýtt svar og til hliðsjónar hafðar nýjar rannsóknir. Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Hafþóri kærlega fyrir ábendinguna.
Jenný Rut Ragnarsdóttir Kaaber. „Er hægt að hafa áhrif á sjúkdóminn sóra (psoriasis) með breyttu mataræði?“ Vísindavefurinn, 16. febrúar 2024, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=312.
Jenný Rut Ragnarsdóttir Kaaber. (2024, 16. febrúar). Er hægt að hafa áhrif á sjúkdóminn sóra (psoriasis) með breyttu mataræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=312
Jenný Rut Ragnarsdóttir Kaaber. „Er hægt að hafa áhrif á sjúkdóminn sóra (psoriasis) með breyttu mataræði?“ Vísindavefurinn. 16. feb. 2024. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=312>.