Góðir A-vítamíngjafar í fæðu eru lýsi og lifur, sérstaklega fisklifur en einnig lamba- og svínalifur. Þá er töluvert A-vítamín í mjólk, smjöri, osti, eggjum og smjörlíki en í því síðasttalda er vítamíninu bætt í við vinnslu. Í þessum vörum er A-vítamínið á formi retínóls. Í litsterku grænmeti og ávöxtum, t.d. gulrótum, papriku, apríkósum, grænkáli og spergilkáli, er mikið af beta-karótíni sem umbreytist í A-vítamín í líkamanum.A-vítamín gegnir mörgum hlutverkum. Það hefur áhrif á fósturþroska og vöxt, stjórnar gerð og sérhæfingu fruma í húð og slímhúð, tekur þátt í stjórnun einstakra erfðavísa, er nauðsynlegt fyrir sjónina og fyrir starfsemi ónæmiskerfisins. Skortur á A-vítamíni getur lýst sér sem þurrkur í slímhúð, augnþurrkur, náttblinda og hornhimna augans verður hörð en það getur leitt til blindu.
A-vítamín er fituleysanlegt vítamín og skilst ekki út úr líkamanum með þvagi heldur safnast fyrir ef neyslan er umfram notkun. Það þýðir að ekki þarf að neyta A-vítamíns á hverjum degi þar sem líkaminn getur átt umfram birgðir til notkunar síðar, en jafnframt þýðir það að ef skammtarnir eru mjög stórir í langan tíma getur það valdið eitrun. Einkenni A-vítamíneitrunar eru höfuðverkur, hárlos, ógleði, uppköst, flögnun húðar, lifrarskemmdir og óeðlilegur fósturþroski hjá barnshafandi konum. Of mikið A-vítamín á fyrsta þriðjungi meðgöngu hefur til dæmis verið tengt við fósturgalla, eins og andlits- og taugagalla. Nánar er fjallað um vítamíneitranir í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni: Er hættulegt að taka of mikið af vítamínum?
Á Vísindavefnum eru mörg önnur svör þar sem vítamín koma við sögu, til dæmis:
- Í hvaða fæðutegundum er D-vítamín? eftir Magnús Jóhannsson
- Hvað er átt við þegar talað er um ráðlagða dagskammta (RDS) af næringarefnum? eftir Dag Snæ Sævarsson
- Hvaða einkenni fylgja skorti á B-12 vítamíni? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Fara A- og D-vítamín yfir í móðurmjólkina og hver er þörf móður og barns fyrir lýsi? eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur
Þetta svar er að mestu unnið upp úr umfjöllun um A-vítamín í Fræðslubanka um vítamín og steinefni sem Lýðheilsustöð og Matvælastofnun standa að og birt með góðfúslegu leyfi.