Sólin Sólin Rís 06:48 • sest 20:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:32 • Sest 25:17 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:31 • Síðdegis: 19:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:25 • Síðdegis: 13:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:48 • sest 20:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:32 • Sest 25:17 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:31 • Síðdegis: 19:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:25 • Síðdegis: 13:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er rétt að gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs hafi náð hámarki og valdi þess vegna ekki meiri hitaaukningu á jörðinni?

Ágúst Kvaran

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Er rétt að gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs hafi náð hámarki þannig að frekari viðbót í andrúmsloftinu valdi ekki meiri hitaaukningu á jörðinni?

Stutta svarið er nei. Þetta er hins vegar afar áhugaverð spurning sem kallar á smá sögulegan inngang auk skýringar sem á rætur sínar að rekja til skammtafræðilegra eiginleika koltvíoxíðsameindanna, CO2.

Kenningin um að koltvíoxíð (CO2, einnig nefnt koltvíildi) í andrúmsloftinu orsaki gróðurhúsaáhrif á jörðinni og að aukning þess geti leitt til vaxandi hita á yfirborði jarðar á rætur sínar að rekja allt til ársins 1896 þegar sænski eðlisefnafræðingurinn Svante Arrhenius (1859-1927)[1] birti um það vísindagrein.[2] Kenning hans, sem enn er í gildi, fólst í því að CO2 sameindirnar gleypa hitageislun á innrauða litrófssviðinu sem stafar frá jörðinni. Þessi hitageislun er afleiðing af sólargeislun sem nær til yfirborðs jarðar (mynd 1). Í kjölfarið geisla sameindirnar frekari hitageislun í allar áttir, að hluta til aftur til jarðar, sem viðheldur hita á yfirborði jarðar. Ef styrkur gróðurhúsalofttegunda eykst í andrúmsloftinu þá aukast þessi áhrif.[3]

Mynd 1. Gróðurhúsaáhrif ýmissa lofttegunda (koltvíoxíð/CO2, vatn/H2O og metan/CH4) í andrúmsloftinu (sjá texta og svar sama höfundar við spurningunni Geta mismunandi lofttegundir og vatnsgufa valdið gróðurhúsaáhrifum?)

Fáum árum eftir þessa opinberun benti sænski eðlisfræðingurinn Knut Ångström (1857-1910)[4] hins vegar á að magn koltvíoxíðs í andrúmslofti væri þegar það mikið að það jafngilti nálægt 100% gleypni hitageislunar og að frekari aukning CO2 í andrúmsloftinu ætti því ekki að valda meiri hitaaukningu á jörðu. Máli sínu til stuðning sýndi hann niðurstöður mælinga á gleypni hitageislunar frá jörðu af völdum CO2 fyrir bylgjulengdina 15 μm, sem er einkennandi fyrir sameindina (sjá mynd 2). Þrátt fyrir þessar mótsagnir hafa mælingar annars vegar á magni CO2 í andrúmslofti og hins vegar á hitabreytingum á yfirborði jarðar frá upphafi iðnbyltingar (um 1800) sýnt greinilega fylgni þarna á milli, sem bendir til þess að kenning Arrheniusar sé rétt.[5]

Í ljós hefur komið að breytingin í hitastigi vex „ólínulega“ með styrk CO2 þannig að við hverja tvöföldun í styrk CO2 eykst hitinn á jörðu að jafnaði um 3 gráður Celsíus, sem jafngildir svonefndum logratengslum.[6] Það var hins vegar ekki fyrr en vorið 2024, 128 árum frá birtingu kenningar Arrheniusar, að loks tókst að skýra í hverju þessar mótsagnir fólust.[7] Í stuttu máli felst skýringin í sérkennilegum eiginleikum CO2 sameindarinnar sem samræmast kenningum skammtafræðinnar og staðfestar hafa verið með nákvæmum litrófsgreiningum. Hér á eftir verður gerð lausleg grein fyrir í hverju þetta felst en nánari skýringar er að finna í viðeigandi tilvísunum.

Mynd 2. Myndin sýnir annars vegar geislunina sem nær til jarðar frá sólu (rauð-skyggt) og hins vegar geislunina sem sleppur burt (blá-skyggt) og hvernig koltvíoxíð (CO2) og vatnsgufa hindra þessar geislanir. Rauði ferillinn sýnir geislun frá sólinni og bláu ferlarnir svara til hitageislunar frá jörðu á bilinu -63˚C (210K) til 37˚C (310K). Gleypni er auðkennd með gráskyggingu en gegnskin er hvítt. Gleypni CO2 á hitageislun (15 μm) er sérstaklega auðkennd.

Gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs háð skammtafræði sameindanna (CO2)

Eitt af grundvallaratriðum skammtafræðinnar er að orku efniseinda, á borð við frumeindir (atóm) og sameindir, eru takmörk sett. Í stað þess að orka sé samfellt breytanleg (það er ekki takmörkum háð innan einhverra eðlilegra marka), eins og við eigum yfirleitt að venjast í okkar reynsluheimi fyrir miklu stærri hluti, þá komi hún fyrir í afmörkuðum skömmtum í heimi hinna smáu einda. Þetta liggur einmitt til grundvallar því að gleypni sameinda á borð við CO2 á hitageislun takmarkast við ákveðnar bylgjulengdir og aðrar ekki.

Samkvæmt þessu er einfaldasta skýringin á því að CO2 sameindir gleypa einungis 15 μm hitageislun (mynd 2) sú að orka þeirrar geislunar yfirfærist á CO2 sameindir með þeim afleiðingum að titringsorka sameindanna eykst um samsvarandi orkuskammt. Þetta jafngildir orkutilfærslu sameindanna úr titringssnauðu orkuþrepi (skammtaþrepi) í titringsríkara orkuþrep (skammtaþrep) eins og sýnt er á mynd 3a, til vinstri. Titringur sameindarinnar er með þeim hætti að tengin milli C og O atómanna beygja upp og niður líkt og fugl sem blakar vængjum (beygjutitringur).

Mælingar á hitageislun við 15 μm bylgjulengd gefur þá mynd af gleypni sameindanna háð bylgjulengd eins og sést á mynd 3a, til hægri. Þessi skýring hefur lengst af legið til grundvallar gleypni CO2 á hitageisluninni sem stafar frá yfirborði jarðar. Nýlega hefur hins vegar verið sýnt fram á að skýringin er ekki fullnægjandi.[8][9][10][11]

Mynd 3a. Gleypni CO2 á 15 μm geislun: Geislaorkan yfirfærist á sameindirnar þannig að beygjutitringur þeirra eykst samfara tilfærslu í hærra orkuþrep (vinstri). Við þetta mælist gleypitoppur með hámark fyrir 15 μm (hægri).

Mynd 3b. Gleypni CO2 í nánd við 15 μm geislun: Heildarlitrófið (efst til hægri) samanstendur af fimm hitaháðum toppum (A–E) vegna fimm tilfærslna (A-E) milli mismunandi orkuþrepa (fyrir miðju). Efstu fjögur orkuþrepin myndast við klofnanir þrepa fyrir beygjutitringsástönd vegna blöndunar (víxlverkunar) við nálæg teygjutitringsástönd (til vinstri).

Mynd 3b gefur nánari skýringu á gleypnilitrófi CO2 sameindarinnar í nánd við 15 μm. Í stað þess að litrófið sé einn litrófstoppur vegna einnar orkutilfærslu eins og lýst var hér að ofan í tengslum við mynd 3a þá samanstendur það af fimm toppum sem eru tilkomnir vegna fimm tilfærslna milli mismunandi orkuþrepa. Sem fyrr er í grundvallaratriðum um að ræða tilfærslur milli orkuþrepa fyrir beygjutitring, en nú koma fleiri orkuþrep við sögu þar sem titringsorkan eykst eftir því sem ofar dregur á mynd 3b, sem jafngildir meiri hita. Auk þess verða efstu orkuástöndin fyrir áhrifum af nærliggjandi (í orku) titringsástöndum þar sem teygist á C=O tengjunum (teygjutitringur) þannig að titringur sameindanna ber keim af báðum titringsformunum og orka þrepanna breytist/hliðrast.

Hér er um að ræða annað mikilvægt grundvallaratriði skammtafræðinnar, sem segir að sama eindin geti fyrirfundist á fleiri en einu ólíku formi samtímis í einhverjum hlutföllum. Aftur er hér um að ræða fyrirbæri í andstöðu við okkar reynsluheim þar sem við eigum því að venjast að hlutir eða fyrirbæri sem við umgöngumst séu á einu ákveðnu formi. Þessu hefur verið líkt við kött innilokaðan í kassa við hættulegar aðstæður sem gæti samtímis verið lifandi og dauður, hinn frægi köttur Schrödingers.[12] Afleiðingin af þessari „blöndun“ ástanda er að tilfærslur breytast, sem í senn leiðir til þess að litrófið samanstendur af toppum sem fram koma við mismunandi bylgjulengdir og eru misstórir, háð hitastigi, eins og sýnt er á mynd 3b til hægri.

Það er skemmst frá því að segja að áhrif þessara skammtafræðilegu eiginleika á hitageisla-gleypni CO2 sameindanna eru með þeim hætti, þegar grannt er skoðað,[13] að aukinn styrkur sameindanna í andrúmsloftinu veldur einmitt ólínulegri hitaaukningu í samræmi við lograhegðun eins og mælingar sýna og nefnt var hér ofar.

Í raun er þetta enn eitt dæmið um gagnsemi skammtafræðinnar[14] til að skýra athuganir og mælingar sem framkvæmdar hafa verið. Sem slíkt rennir það sífellt styrkari stoðum undir réttmæti skammtafræðinnar sem einnar helstu kenningar um eðli efnisheimsins.

Tilvísanir:
  1. ^ Svante Arrhenius. (2024, 12. apríl). Wikipedia. https://is.wikipedia.org/wiki/Svante_Arrhenius
  2. ^ Arrhenius, S. (1896). XXXI. On the influence of carbonic acid in the air upon the temperature of the ground. The London, Edinburgh, and Dublin Philosophical Magazine and Journal of Science, 41(251), 237–276. https://doi.org/10.1080/14786449608620846
  3. ^ Ágúst Kvaran. (2024, 28. febrúar). Hvernig er hægt að sýna fram á að koltvíoxið valdi gróðurhúsaáhrifum á jörðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29976
  4. ^ Knut Ångström. (2025, 20. janúar). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Knut_%C3%85ngstr%C3%B6m
  5. ^ Ágúst Kvaran, 2024.
  6. ^ Wordsworth, R., Seeley, J. T., & Shine, K. P. (2024). Fermi Resonance and the Quantum Mechanical Basis of Global Warming. The Planetary Science Journal, 5(3), 67. https://doi.org/10.3847/PSJ/ad226d
  7. ^ Wordsworth o.fl, 2024.
  8. ^ Wordsworth o.fl, 2024.
  9. ^ Howlett, J. (2024, 7. ágúst). Physicists Pinpoint the Quantum Origin of the Greenhouse Effect. Quanta Magazine. https://www.quantamagazine.org/physicists-pinpoint-the-quantum-origin-of-the-greenhouse-effect-20240807/
  10. ^ Romps, D. M., Seeley, J. T., & Edman, J. P. (2022). Why the Forcing from Carbon Dioxide Scales as the Logarithm of Its Concentration. Journal of Climate, 35(13), 4027-4047. https://doi.org/10.1175/JCLI-D-21-0275.1
  11. ^ Shine, K. P., & Perry, G. E. (2023). Radiative forcing due to carbon dioxide decomposed into its component vibrational bands. Quarterly Journal of the Royal Meteorological Society, 149(754), 1856-1866. https://doi.org/https://doi.org/10.1002/qj.4485
  12. ^ Jakob Yngvason. (2011, 16. febrúar). Hver var Erwin Schrödinger og hvert var framlag hans til skammtafræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58391
  13. ^ Wordsworth o.fl, 2024.
  14. ^ Rétt er vekja athygli á því að þegar þetta svar er skrifað er ári skammtafræðinngar fagnað: IYQ 2025. (2025, 7. mars). IYQ 2025. https://quantum2025.org

Myndir:

Höfundur

Ágúst Kvaran

prófessor emeritus í eðlisefnafræði við HÍ

Útgáfudagur

25.3.2025

Spyrjandi

Ásta Ólafsdóttir, ritstjórn

Tilvísun

Ágúst Kvaran. „Er rétt að gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs hafi náð hámarki og valdi þess vegna ekki meiri hitaaukningu á jörðinni?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2025, sótt 31. mars 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87657.

Ágúst Kvaran. (2025, 25. mars). Er rétt að gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs hafi náð hámarki og valdi þess vegna ekki meiri hitaaukningu á jörðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87657

Ágúst Kvaran. „Er rétt að gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs hafi náð hámarki og valdi þess vegna ekki meiri hitaaukningu á jörðinni?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2025. Vefsíða. 31. mar. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87657>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er rétt að gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs hafi náð hámarki og valdi þess vegna ekki meiri hitaaukningu á jörðinni?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Er rétt að gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs hafi náð hámarki þannig að frekari viðbót í andrúmsloftinu valdi ekki meiri hitaaukningu á jörðinni?

Stutta svarið er nei. Þetta er hins vegar afar áhugaverð spurning sem kallar á smá sögulegan inngang auk skýringar sem á rætur sínar að rekja til skammtafræðilegra eiginleika koltvíoxíðsameindanna, CO2.

Kenningin um að koltvíoxíð (CO2, einnig nefnt koltvíildi) í andrúmsloftinu orsaki gróðurhúsaáhrif á jörðinni og að aukning þess geti leitt til vaxandi hita á yfirborði jarðar á rætur sínar að rekja allt til ársins 1896 þegar sænski eðlisefnafræðingurinn Svante Arrhenius (1859-1927)[1] birti um það vísindagrein.[2] Kenning hans, sem enn er í gildi, fólst í því að CO2 sameindirnar gleypa hitageislun á innrauða litrófssviðinu sem stafar frá jörðinni. Þessi hitageislun er afleiðing af sólargeislun sem nær til yfirborðs jarðar (mynd 1). Í kjölfarið geisla sameindirnar frekari hitageislun í allar áttir, að hluta til aftur til jarðar, sem viðheldur hita á yfirborði jarðar. Ef styrkur gróðurhúsalofttegunda eykst í andrúmsloftinu þá aukast þessi áhrif.[3]

Mynd 1. Gróðurhúsaáhrif ýmissa lofttegunda (koltvíoxíð/CO2, vatn/H2O og metan/CH4) í andrúmsloftinu (sjá texta og svar sama höfundar við spurningunni Geta mismunandi lofttegundir og vatnsgufa valdið gróðurhúsaáhrifum?)

Fáum árum eftir þessa opinberun benti sænski eðlisfræðingurinn Knut Ångström (1857-1910)[4] hins vegar á að magn koltvíoxíðs í andrúmslofti væri þegar það mikið að það jafngilti nálægt 100% gleypni hitageislunar og að frekari aukning CO2 í andrúmsloftinu ætti því ekki að valda meiri hitaaukningu á jörðu. Máli sínu til stuðning sýndi hann niðurstöður mælinga á gleypni hitageislunar frá jörðu af völdum CO2 fyrir bylgjulengdina 15 μm, sem er einkennandi fyrir sameindina (sjá mynd 2). Þrátt fyrir þessar mótsagnir hafa mælingar annars vegar á magni CO2 í andrúmslofti og hins vegar á hitabreytingum á yfirborði jarðar frá upphafi iðnbyltingar (um 1800) sýnt greinilega fylgni þarna á milli, sem bendir til þess að kenning Arrheniusar sé rétt.[5]

Í ljós hefur komið að breytingin í hitastigi vex „ólínulega“ með styrk CO2 þannig að við hverja tvöföldun í styrk CO2 eykst hitinn á jörðu að jafnaði um 3 gráður Celsíus, sem jafngildir svonefndum logratengslum.[6] Það var hins vegar ekki fyrr en vorið 2024, 128 árum frá birtingu kenningar Arrheniusar, að loks tókst að skýra í hverju þessar mótsagnir fólust.[7] Í stuttu máli felst skýringin í sérkennilegum eiginleikum CO2 sameindarinnar sem samræmast kenningum skammtafræðinnar og staðfestar hafa verið með nákvæmum litrófsgreiningum. Hér á eftir verður gerð lausleg grein fyrir í hverju þetta felst en nánari skýringar er að finna í viðeigandi tilvísunum.

Mynd 2. Myndin sýnir annars vegar geislunina sem nær til jarðar frá sólu (rauð-skyggt) og hins vegar geislunina sem sleppur burt (blá-skyggt) og hvernig koltvíoxíð (CO2) og vatnsgufa hindra þessar geislanir. Rauði ferillinn sýnir geislun frá sólinni og bláu ferlarnir svara til hitageislunar frá jörðu á bilinu -63˚C (210K) til 37˚C (310K). Gleypni er auðkennd með gráskyggingu en gegnskin er hvítt. Gleypni CO2 á hitageislun (15 μm) er sérstaklega auðkennd.

Gróðurhúsaáhrif koltvíoxíðs háð skammtafræði sameindanna (CO2)

Eitt af grundvallaratriðum skammtafræðinnar er að orku efniseinda, á borð við frumeindir (atóm) og sameindir, eru takmörk sett. Í stað þess að orka sé samfellt breytanleg (það er ekki takmörkum háð innan einhverra eðlilegra marka), eins og við eigum yfirleitt að venjast í okkar reynsluheimi fyrir miklu stærri hluti, þá komi hún fyrir í afmörkuðum skömmtum í heimi hinna smáu einda. Þetta liggur einmitt til grundvallar því að gleypni sameinda á borð við CO2 á hitageislun takmarkast við ákveðnar bylgjulengdir og aðrar ekki.

Samkvæmt þessu er einfaldasta skýringin á því að CO2 sameindir gleypa einungis 15 μm hitageislun (mynd 2) sú að orka þeirrar geislunar yfirfærist á CO2 sameindir með þeim afleiðingum að titringsorka sameindanna eykst um samsvarandi orkuskammt. Þetta jafngildir orkutilfærslu sameindanna úr titringssnauðu orkuþrepi (skammtaþrepi) í titringsríkara orkuþrep (skammtaþrep) eins og sýnt er á mynd 3a, til vinstri. Titringur sameindarinnar er með þeim hætti að tengin milli C og O atómanna beygja upp og niður líkt og fugl sem blakar vængjum (beygjutitringur).

Mælingar á hitageislun við 15 μm bylgjulengd gefur þá mynd af gleypni sameindanna háð bylgjulengd eins og sést á mynd 3a, til hægri. Þessi skýring hefur lengst af legið til grundvallar gleypni CO2 á hitageisluninni sem stafar frá yfirborði jarðar. Nýlega hefur hins vegar verið sýnt fram á að skýringin er ekki fullnægjandi.[8][9][10][11]

Mynd 3a. Gleypni CO2 á 15 μm geislun: Geislaorkan yfirfærist á sameindirnar þannig að beygjutitringur þeirra eykst samfara tilfærslu í hærra orkuþrep (vinstri). Við þetta mælist gleypitoppur með hámark fyrir 15 μm (hægri).

Mynd 3b. Gleypni CO2 í nánd við 15 μm geislun: Heildarlitrófið (efst til hægri) samanstendur af fimm hitaháðum toppum (A–E) vegna fimm tilfærslna (A-E) milli mismunandi orkuþrepa (fyrir miðju). Efstu fjögur orkuþrepin myndast við klofnanir þrepa fyrir beygjutitringsástönd vegna blöndunar (víxlverkunar) við nálæg teygjutitringsástönd (til vinstri).

Mynd 3b gefur nánari skýringu á gleypnilitrófi CO2 sameindarinnar í nánd við 15 μm. Í stað þess að litrófið sé einn litrófstoppur vegna einnar orkutilfærslu eins og lýst var hér að ofan í tengslum við mynd 3a þá samanstendur það af fimm toppum sem eru tilkomnir vegna fimm tilfærslna milli mismunandi orkuþrepa. Sem fyrr er í grundvallaratriðum um að ræða tilfærslur milli orkuþrepa fyrir beygjutitring, en nú koma fleiri orkuþrep við sögu þar sem titringsorkan eykst eftir því sem ofar dregur á mynd 3b, sem jafngildir meiri hita. Auk þess verða efstu orkuástöndin fyrir áhrifum af nærliggjandi (í orku) titringsástöndum þar sem teygist á C=O tengjunum (teygjutitringur) þannig að titringur sameindanna ber keim af báðum titringsformunum og orka þrepanna breytist/hliðrast.

Hér er um að ræða annað mikilvægt grundvallaratriði skammtafræðinnar, sem segir að sama eindin geti fyrirfundist á fleiri en einu ólíku formi samtímis í einhverjum hlutföllum. Aftur er hér um að ræða fyrirbæri í andstöðu við okkar reynsluheim þar sem við eigum því að venjast að hlutir eða fyrirbæri sem við umgöngumst séu á einu ákveðnu formi. Þessu hefur verið líkt við kött innilokaðan í kassa við hættulegar aðstæður sem gæti samtímis verið lifandi og dauður, hinn frægi köttur Schrödingers.[12] Afleiðingin af þessari „blöndun“ ástanda er að tilfærslur breytast, sem í senn leiðir til þess að litrófið samanstendur af toppum sem fram koma við mismunandi bylgjulengdir og eru misstórir, háð hitastigi, eins og sýnt er á mynd 3b til hægri.

Það er skemmst frá því að segja að áhrif þessara skammtafræðilegu eiginleika á hitageisla-gleypni CO2 sameindanna eru með þeim hætti, þegar grannt er skoðað,[13] að aukinn styrkur sameindanna í andrúmsloftinu veldur einmitt ólínulegri hitaaukningu í samræmi við lograhegðun eins og mælingar sýna og nefnt var hér ofar.

Í raun er þetta enn eitt dæmið um gagnsemi skammtafræðinnar[14] til að skýra athuganir og mælingar sem framkvæmdar hafa verið. Sem slíkt rennir það sífellt styrkari stoðum undir réttmæti skammtafræðinnar sem einnar helstu kenningar um eðli efnisheimsins.

Tilvísanir:
  1. ^ Svante Arrhenius. (2024, 12. apríl). Wikipedia. https://is.wikipedia.org/wiki/Svante_Arrhenius
  2. ^ Arrhenius, S. (1896). XXXI. On the influence of carbonic acid in the air upon the temperature of the ground. The London, Edinburgh, and Dublin Philosophical Magazine and Journal of Science, 41(251), 237–276. https://doi.org/10.1080/14786449608620846
  3. ^ Ágúst Kvaran. (2024, 28. febrúar). Hvernig er hægt að sýna fram á að koltvíoxið valdi gróðurhúsaáhrifum á jörðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29976
  4. ^ Knut Ångström. (2025, 20. janúar). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Knut_%C3%85ngstr%C3%B6m
  5. ^ Ágúst Kvaran, 2024.
  6. ^ Wordsworth, R., Seeley, J. T., & Shine, K. P. (2024). Fermi Resonance and the Quantum Mechanical Basis of Global Warming. The Planetary Science Journal, 5(3), 67. https://doi.org/10.3847/PSJ/ad226d
  7. ^ Wordsworth o.fl, 2024.
  8. ^ Wordsworth o.fl, 2024.
  9. ^ Howlett, J. (2024, 7. ágúst). Physicists Pinpoint the Quantum Origin of the Greenhouse Effect. Quanta Magazine. https://www.quantamagazine.org/physicists-pinpoint-the-quantum-origin-of-the-greenhouse-effect-20240807/
  10. ^ Romps, D. M., Seeley, J. T., & Edman, J. P. (2022). Why the Forcing from Carbon Dioxide Scales as the Logarithm of Its Concentration. Journal of Climate, 35(13), 4027-4047. https://doi.org/10.1175/JCLI-D-21-0275.1
  11. ^ Shine, K. P., & Perry, G. E. (2023). Radiative forcing due to carbon dioxide decomposed into its component vibrational bands. Quarterly Journal of the Royal Meteorological Society, 149(754), 1856-1866. https://doi.org/https://doi.org/10.1002/qj.4485
  12. ^ Jakob Yngvason. (2011, 16. febrúar). Hver var Erwin Schrödinger og hvert var framlag hans til skammtafræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58391
  13. ^ Wordsworth o.fl, 2024.
  14. ^ Rétt er vekja athygli á því að þegar þetta svar er skrifað er ári skammtafræðinngar fagnað: IYQ 2025. (2025, 7. mars). IYQ 2025. https://quantum2025.org

Myndir:...