Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í kringum 1800 beindi ensk-þýski stjörnuáhugamaðurinn William Herschel (1738-1822) sólarljósi í gegnum þrístrending og festi hitamæli við rauða enda hins sýnilega litrófs. Hitamælirinn sýndi hitastigshækkun sem benti til þess að á honum lenti ósýnileg tegund geislunar en þessi ósýnilega geislun er innrautt ljós. Menn komust síðar að því að hér væri um að ræða rafsegulgeislun með lengri bylgjulengd en sýnilegt ljós.
Innrautt ljós hefur bylgjulengd frá 1 millimetra niður í 700 nanómetra. Innrauðu ljósi er oft skipt í tvennt, nærinnrautt og fjærinnrautt. Nærinnrautt ljós liggur næst sýnilegu ljósi en fjærinnrautt er nær örbylgjuhluta rafsegulrófsins. Fjærinnrautt ljós er því með lengri bylgjulengd heldur en nærinnrautt. Bylgjulengd fjærinnrauða ljóssins er á stærð við nálarodd en þess nærinnrauða á stærð við örverur. Þarna á milli tala stjörnufræðingar oft um miðinnrautt ljós.
Fjærinnrautt ljós eru varmageislar sem við finnum fyrir á degi hverjum sem hita. Hitinn sem við finnum frá sólarljósi, arineldi, ofni eða jafnvel heitum bíl er fjærinnrautt ljós. Hitanæmu taugaendarnir á húðinni greina þessa geislun. Styttri, nærinnrauðu geislarnir eru ekki heitir og raunar finnum við ekkert fyrir þeim. Þessi tegund innrauðra geisla er notuð í sjónvarpsfjarstýringar.
Myndin hægra megin, sem tekin er með innrauðri myndavél, sýnir hvernig hitinn frá hönd mannsins kemst í gegnum pokann svo höndin er sýnileg í innrauðu ljósi. Innrautt ljós kemst í gegnum mörg efni sem sýnilegt ljós kemst ekki í gegnum. Hið gagnstæða á einnig við. Sum efni hleypa sýnilegu ljósi í gegnum sig en ekki innrauðu ljósi, til dæmis ef litið er á gleraugu mannsins. Innrautt ljós kemst ekki svo auðveldlega í gegnum gler og því virðast gleraugun dökk.
Allir hlutir sem hafa hita geisla frá sér innrauðu ljósi, jafnvel hlutir sem eru mjög kaldir í okkar huga, eins og til dæmis klakar. Þegar fyrirbæri er ekki nógu heitt til að geisla frá sér sýnilegu ljósi er mestur hluti geislunarinnar á formi innrauðs ljóss og því heitara sem fyrirbæri er, því meiri innrauða geislun gefur það frá sér. Grillkol eru til að mynda mjög heit en þó ekki nógu heit til að gefa frá sér sýnilegt ljós. Manneskja gefur frá sér ljós á formi innrauðrar geislunar en innrauð bylgjulengd frá manneskju er 0,00001 metri eða 10 míkrómetrar.
Innrautt ljós er til margra hluta nytsamlegt. Það getur ferðast í gegnum þykkan reyk, ryk eða þoku og jafnvel sum efni. Þar sem innrautt ljós kemst í gegnum þykkan reyk en sýnilegt ljós ekki nota slökkviliðsmenn innrauðar myndavélar í leit að fólki og dýrum í reykfylltum byggingum. Hitinn frá fólki og dýrum með heitt blóð kemst í gegnum reykjarmökkinn og sést því greinilega á innrauðum myndavélum. Þannig hefur tekist að bjarga fjölda fólks og dýra með hjálp innrauðs ljóss. Þar sem innrautt ljós kemst líka í gegnum þykka þoku er mjög gagnlegt og skynsamlegt að hafa innrauðar myndavélar um borð í skipum og flugvélum.
Innrauðar myndavélar eru einnig notaðar í geimnum til að fylgjast með hitastigi sjávar og veðurfari á jörðinni, en ekki síst til þess að rannsaka innrautt ljós utan úr geimnum.
Mynd:
Fengin af Stjörnufræðivefnum. Upphaflega frá NASA/IPAC. (Sótt 17.8.2012).
Sævar Helgi Bragason. „Hvað er innrautt ljós og til hvers er hægt að nota það?“ Vísindavefurinn, 30. janúar 2013, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=52594.
Sævar Helgi Bragason. (2013, 30. janúar). Hvað er innrautt ljós og til hvers er hægt að nota það? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=52594
Sævar Helgi Bragason. „Hvað er innrautt ljós og til hvers er hægt að nota það?“ Vísindavefurinn. 30. jan. 2013. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=52594>.