Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er þoka og hvenær geta veðurathugunarmenn notað það hugtak til að lýsa veðrinu?

Trausti Jónsson

Veðurathugunarmönnum er ekki ætlað hverju sinni að senda nema eitt af hundrað veðurorðum sem þeir hafa úr að velja. Margt hefur forgang á þokuna. Þoku má aðeins nefna í veðurathugunum sé skyggni minna en 1 km eða hafi verið það undangengna klukkustund. Sé skyggnið meira verður veðrið að heita annað, langoftast þá þokumóða eða mistur. Úrkoma, skafrenningur eða moldrok hafa forgang á þokuna í veðurskeytum. Skyggni er oft minna en 1 km í súldar- og suddaveðri, slyddu eða snjókomu en sjaldan hér á landi í rigningu einvörðungu. Mikil rigning getur þó dregið verulega úr skyggni.

Oft má með réttu segja að þoka sé ský sem liggur á jörðinni, en smámunasamir gera þó mun á. Hún er sveimur örsmárra, nær ósýnilegra vatnsdropa sem eru aðeins 10 til 20 míkrómetrar í þvermál. Þokudroparnir eru miklu minni en regndropar.

Oftast nær er vatnið í dropunum ekki alveg hreint. Það hefur þést á enn minni ryksögnum eða agnúða og inniheldur því annaðhvort rykagnir eða uppleyst sölt, til dæmis natrínklóríð eða einhver súlföt. Mjög erfitt getur verið að greina á milli þoku af þessu tagi og mjög þéttrar mengunar eða rykmisturs sé skyggni undir 1 km. Besta greiningin að degi til er litarmunur, rykmistrið er þá brúnt, mengunin grænleit, gulleit eða brún, en venjuleg þoka grá.



Ferðalangar í þoku á Hornströndum.

Þó rykmistur sé mjög algengt hér á landi fer skyggni í því sjaldan niður fyrir 1 km nema að um moldrok sé að ræða (nú − eða mikið öskufall). Efnisagnir í moldroki eða sandbyl eru miklu, miklu stærri en í því rykmistri sem rugla má saman við þoku. Þó þokukennt mengunarmistur sé því miður orðið algengt aftur í Reykjavík fer skyggni í því þó varla niður fyrir 1 km nema að verulegt vatn fylgi og þar með teljist það fremur til venjulegrar þoku en mengunar.

Skyggni í þoku fer mjög eftir vatnsmagni og við algengustu dropastærð er vatnsmagn um 0,2 g/m3 sé skyggni 100 m. Þetta vatnsmagn er nokkru minna en þau 0,5 g/m3 sem talið er að þurfi til úrkomumyndunar.

Uppstreymi (lóðréttur vindur) er mjög lítið í þoku, aðeins um 0,01 m/s að meðaltali. Ef þokan er 50 m þykk tekur það vatnsdropa um 5000 sekúndur (meir en klukkustund) að lyftast upp í gegnum hana. Þetta takmarkar mjög möguleika þokunnar til úrkomumyndunar. Hitafallandi, það er hitabreyting með hæð, í þokunni er votinnrænn, rúmlega 0,5°C/100 m og miðað við áðurnefnt uppstreymi er kólnunin því 0,2°C á klukkustund. Langbylgjuútgeislun frá efra borði þokunnar kælir hins vegar oft um 1 til 4°C á klukkustund, geislunarferli eru því mjög ráðandi um líf og þróun þoku. Þessi málsgrein á fyrst og fremst við um útgeislunarþoku − vindur blandar aðstreymis- og lyftingarþokum og ræður miklu um gerð þeirra hverju sinni.

Þoku er gjarnan skipt í tegundir eftir myndunarferli og er algengast að tilfærðir séu þrír til fimm myndunarflokkar, það eru:
  1. aðstreymisþoka,
  2. útgeislunarþoka,
  3. blöndunarþoka,
  4. lyftingarþoka,
  5. særeykur.

Allar gerðir eru algengar hér á landi. Aðstreymisþoka er algengari yfir sjó en landi (Húnaflói og Austfirðir) og særeykur myndast eingöngu yfir sjó eða vatni. Útgeislunarþokan, til dæmis dalalæða, myndast langoftast yfir landi, lyftingarþoka myndast yfir landi (eða eyjum). Oft koma fleiri en eitt ferli við sögu hverju sinni þegar þoka myndast og getur verið býsna snúið að greina hana til ættar þannig að allir séu sáttir.

Mynd:


Þetta svar er fengið af Hungurdiski, bloggi Trausta Jónssonar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

23.8.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvað er þoka og hvenær geta veðurathugunarmenn notað það hugtak til að lýsa veðrinu?“ Vísindavefurinn, 23. ágúst 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59911.

Trausti Jónsson. (2011, 23. ágúst). Hvað er þoka og hvenær geta veðurathugunarmenn notað það hugtak til að lýsa veðrinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59911

Trausti Jónsson. „Hvað er þoka og hvenær geta veðurathugunarmenn notað það hugtak til að lýsa veðrinu?“ Vísindavefurinn. 23. ágú. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59911>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er þoka og hvenær geta veðurathugunarmenn notað það hugtak til að lýsa veðrinu?
Veðurathugunarmönnum er ekki ætlað hverju sinni að senda nema eitt af hundrað veðurorðum sem þeir hafa úr að velja. Margt hefur forgang á þokuna. Þoku má aðeins nefna í veðurathugunum sé skyggni minna en 1 km eða hafi verið það undangengna klukkustund. Sé skyggnið meira verður veðrið að heita annað, langoftast þá þokumóða eða mistur. Úrkoma, skafrenningur eða moldrok hafa forgang á þokuna í veðurskeytum. Skyggni er oft minna en 1 km í súldar- og suddaveðri, slyddu eða snjókomu en sjaldan hér á landi í rigningu einvörðungu. Mikil rigning getur þó dregið verulega úr skyggni.

Oft má með réttu segja að þoka sé ský sem liggur á jörðinni, en smámunasamir gera þó mun á. Hún er sveimur örsmárra, nær ósýnilegra vatnsdropa sem eru aðeins 10 til 20 míkrómetrar í þvermál. Þokudroparnir eru miklu minni en regndropar.

Oftast nær er vatnið í dropunum ekki alveg hreint. Það hefur þést á enn minni ryksögnum eða agnúða og inniheldur því annaðhvort rykagnir eða uppleyst sölt, til dæmis natrínklóríð eða einhver súlföt. Mjög erfitt getur verið að greina á milli þoku af þessu tagi og mjög þéttrar mengunar eða rykmisturs sé skyggni undir 1 km. Besta greiningin að degi til er litarmunur, rykmistrið er þá brúnt, mengunin grænleit, gulleit eða brún, en venjuleg þoka grá.



Ferðalangar í þoku á Hornströndum.

Þó rykmistur sé mjög algengt hér á landi fer skyggni í því sjaldan niður fyrir 1 km nema að um moldrok sé að ræða (nú − eða mikið öskufall). Efnisagnir í moldroki eða sandbyl eru miklu, miklu stærri en í því rykmistri sem rugla má saman við þoku. Þó þokukennt mengunarmistur sé því miður orðið algengt aftur í Reykjavík fer skyggni í því þó varla niður fyrir 1 km nema að verulegt vatn fylgi og þar með teljist það fremur til venjulegrar þoku en mengunar.

Skyggni í þoku fer mjög eftir vatnsmagni og við algengustu dropastærð er vatnsmagn um 0,2 g/m3 sé skyggni 100 m. Þetta vatnsmagn er nokkru minna en þau 0,5 g/m3 sem talið er að þurfi til úrkomumyndunar.

Uppstreymi (lóðréttur vindur) er mjög lítið í þoku, aðeins um 0,01 m/s að meðaltali. Ef þokan er 50 m þykk tekur það vatnsdropa um 5000 sekúndur (meir en klukkustund) að lyftast upp í gegnum hana. Þetta takmarkar mjög möguleika þokunnar til úrkomumyndunar. Hitafallandi, það er hitabreyting með hæð, í þokunni er votinnrænn, rúmlega 0,5°C/100 m og miðað við áðurnefnt uppstreymi er kólnunin því 0,2°C á klukkustund. Langbylgjuútgeislun frá efra borði þokunnar kælir hins vegar oft um 1 til 4°C á klukkustund, geislunarferli eru því mjög ráðandi um líf og þróun þoku. Þessi málsgrein á fyrst og fremst við um útgeislunarþoku − vindur blandar aðstreymis- og lyftingarþokum og ræður miklu um gerð þeirra hverju sinni.

Þoku er gjarnan skipt í tegundir eftir myndunarferli og er algengast að tilfærðir séu þrír til fimm myndunarflokkar, það eru:
  1. aðstreymisþoka,
  2. útgeislunarþoka,
  3. blöndunarþoka,
  4. lyftingarþoka,
  5. særeykur.

Allar gerðir eru algengar hér á landi. Aðstreymisþoka er algengari yfir sjó en landi (Húnaflói og Austfirðir) og særeykur myndast eingöngu yfir sjó eða vatni. Útgeislunarþokan, til dæmis dalalæða, myndast langoftast yfir landi, lyftingarþoka myndast yfir landi (eða eyjum). Oft koma fleiri en eitt ferli við sögu hverju sinni þegar þoka myndast og getur verið býsna snúið að greina hana til ættar þannig að allir séu sáttir.

Mynd:


Þetta svar er fengið af Hungurdiski, bloggi Trausta Jónssonar og birt með góðfúslegu leyfi....