Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða þættir hafa áhrif á skafrenning?

Trausti Jónsson

Snjór sem þyrlast upp í vindi nefnist skafrenningur, nái hann ekki sjónhæð fullorðins manns nefnist hann lágarenningur en fari hann hærra kallast hann háarenningur. Lausamjöll fýkur mun auðveldar en hjarn eða skari, hana fer að hreyfa ef vindur nær 5 til 6 m/s, en venjulega er skafrenningur lítill sé vindur ekki meiri en 10 til 12 m/s. Venjulega rennur allt í kóf sé lausamjöll á jörðu og vindur 15 m/s eða meiri. Fari vindur í 25 m/s eða meir fer hann að rífa upp hjarn og jafnvel skara og í fárviðri (>32 m/s) rifnar þunnur skari auðveldlega og rífur þá líka upp sinu og lausamöl. Annars er virkni skafrennings háð hita auk vindhraða og aldri og sögu snævarins hverju sinni.

Skafrenningur er mun meiri meðan á snjókomu stendur en eftir að hún hættir, nýfallin snjókornin hafa þá ekki fengið tíma til að tengjast öðrum kornum nema mjög lauslega, auk þess sem rakastig er hærra í snjókomu en í þurru veðri og þar með gufar mun minna upp af snjókornum í lofti meðan á úrkomu stendur en annars. Þeir sem þekkja mikinn skafrenning (kóf) vita að skyggni í honum getur farið niður í ekki neitt.



Þrír þættir skafrennings og snjóburðar.

Myndin sýnir að greint er á milli þriggja flutningshátta snævar, þeir eru: (i) Skrið eða velta, (ii) stökk eða skopp og (iii) svif. Í skriði velta snjókornin áfram við yfirborð, en í stökki lyftast þau og skoppa í allt að 10 cm hæð frá yfirborði. Aflkvika gerir svif mögulegt. Snjókornin sem upphaflega voru óreglulegt samsafn kristalla af ýmsum gerðum brotna og verða meira sporvölulaga þegar þau rekast af afli á yfirborð jarðar (oftast snjó). Gaman er að horfa á þessa þrjá hætti taka við þegar vindur er vaxandi.

Heimildir greinir á um snjóburðargetu skafrennings en ljóst er að hún er mjög háð vindhraða. Stundum er tilfært að tvöföldun í vindhraða þýði áttföldun í snjóburði. Reynsla af snjóflóðum sýnir svo sannarlega að snjór getur safnast saman í miklu magni á skömmum tíma sé vindhraði mikill.

Ef vindur er mikill getur snjórinn barist í harðar, manngengar fannir eða beðjur sem verða stundum býsna fjölbreytilegar að útliti og styrk. Hætti snjókoma, herði vind eða skipti um vindátt getur sterkur vindurinn rifið niður eldri skafla og verður þá til rifsnjór. Rifsnjór verður erfiður yfirferðar fyrir skíðamenn. Útivera í skafrenningi getur verið hættuleg, sérstaklega þeim sem ekki hafa gott þrek. Mér er þó sagt að venjast megi athöfnum í skafrenningi sé fatnaður og þrek miðuð við aðstæður.



Hafnarstræti á Ísafirði, 3. mars 2009. Skyggni getur orðið mjög lítið í skafrenningi.

Skafrenningur hefur árstíðasveiflu eins og önnur veðurfyrirbrigði. Tíðni hans er svipuð frá því um miðjan desember og fram undir mánaðamót mars/apríl. Þá fellur tíðnin mjög ört og vex síðan hægt og bítandi frá því seint í september og fram í byrjun desember.

Eins og að ofan sagði er skafrenningur mestur í snjókomu og hvassviðri. Um háveturinn þegar sólar gætir lítt eða ekki skefur líka allmikið í þurrviðri þótt ekki snjói. Þegar sól hækkar á lofti í mars heldur skafrenningur í snjókomu sínum hlut, en skafrenningur í þurrviðri minnkar vegna þess að efsti hluti snjóhulunnar er fastari í sér en að vetrarlagi auk þess sem snjór bráðnar mjög í sól þegar komið er fram á þennan tíma.

Skafrenningur liggur oft í strengjum ýmist þar sem núningur vindsins við yfirborð er minni heldur en í kring, til dæmis í sléttlendum flóðum þar sem langt er á milli holta. Landslag mótar einnig skafrenning sem þá fylgir vindstrengjum við fjöll. Það er vel þess virði að sitja og horfa á strengi af þessu tagi. Þá fær maður alls konar hugmyndir um það hvernig línurnar (tjöldin) sem sjá má í skafrenningnum haldast saman þrátt fyrir alls konar beygjur og sveigjur.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:

  • Þrír þættir skafrennings og snjóburðar: Trausti Jónsson.
  • Mynd frá Ísafirði: Albertína Elíasdóttir. Sótt 28. 1. 2011.


Þetta svar er fengið af bloggi Trausta Jónssonar og birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

31.1.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvaða þættir hafa áhrif á skafrenning?“ Vísindavefurinn, 31. janúar 2011, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58426.

Trausti Jónsson. (2011, 31. janúar). Hvaða þættir hafa áhrif á skafrenning? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58426

Trausti Jónsson. „Hvaða þættir hafa áhrif á skafrenning?“ Vísindavefurinn. 31. jan. 2011. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58426>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða þættir hafa áhrif á skafrenning?
Snjór sem þyrlast upp í vindi nefnist skafrenningur, nái hann ekki sjónhæð fullorðins manns nefnist hann lágarenningur en fari hann hærra kallast hann háarenningur. Lausamjöll fýkur mun auðveldar en hjarn eða skari, hana fer að hreyfa ef vindur nær 5 til 6 m/s, en venjulega er skafrenningur lítill sé vindur ekki meiri en 10 til 12 m/s. Venjulega rennur allt í kóf sé lausamjöll á jörðu og vindur 15 m/s eða meiri. Fari vindur í 25 m/s eða meir fer hann að rífa upp hjarn og jafnvel skara og í fárviðri (>32 m/s) rifnar þunnur skari auðveldlega og rífur þá líka upp sinu og lausamöl. Annars er virkni skafrennings háð hita auk vindhraða og aldri og sögu snævarins hverju sinni.

Skafrenningur er mun meiri meðan á snjókomu stendur en eftir að hún hættir, nýfallin snjókornin hafa þá ekki fengið tíma til að tengjast öðrum kornum nema mjög lauslega, auk þess sem rakastig er hærra í snjókomu en í þurru veðri og þar með gufar mun minna upp af snjókornum í lofti meðan á úrkomu stendur en annars. Þeir sem þekkja mikinn skafrenning (kóf) vita að skyggni í honum getur farið niður í ekki neitt.



Þrír þættir skafrennings og snjóburðar.

Myndin sýnir að greint er á milli þriggja flutningshátta snævar, þeir eru: (i) Skrið eða velta, (ii) stökk eða skopp og (iii) svif. Í skriði velta snjókornin áfram við yfirborð, en í stökki lyftast þau og skoppa í allt að 10 cm hæð frá yfirborði. Aflkvika gerir svif mögulegt. Snjókornin sem upphaflega voru óreglulegt samsafn kristalla af ýmsum gerðum brotna og verða meira sporvölulaga þegar þau rekast af afli á yfirborð jarðar (oftast snjó). Gaman er að horfa á þessa þrjá hætti taka við þegar vindur er vaxandi.

Heimildir greinir á um snjóburðargetu skafrennings en ljóst er að hún er mjög háð vindhraða. Stundum er tilfært að tvöföldun í vindhraða þýði áttföldun í snjóburði. Reynsla af snjóflóðum sýnir svo sannarlega að snjór getur safnast saman í miklu magni á skömmum tíma sé vindhraði mikill.

Ef vindur er mikill getur snjórinn barist í harðar, manngengar fannir eða beðjur sem verða stundum býsna fjölbreytilegar að útliti og styrk. Hætti snjókoma, herði vind eða skipti um vindátt getur sterkur vindurinn rifið niður eldri skafla og verður þá til rifsnjór. Rifsnjór verður erfiður yfirferðar fyrir skíðamenn. Útivera í skafrenningi getur verið hættuleg, sérstaklega þeim sem ekki hafa gott þrek. Mér er þó sagt að venjast megi athöfnum í skafrenningi sé fatnaður og þrek miðuð við aðstæður.



Hafnarstræti á Ísafirði, 3. mars 2009. Skyggni getur orðið mjög lítið í skafrenningi.

Skafrenningur hefur árstíðasveiflu eins og önnur veðurfyrirbrigði. Tíðni hans er svipuð frá því um miðjan desember og fram undir mánaðamót mars/apríl. Þá fellur tíðnin mjög ört og vex síðan hægt og bítandi frá því seint í september og fram í byrjun desember.

Eins og að ofan sagði er skafrenningur mestur í snjókomu og hvassviðri. Um háveturinn þegar sólar gætir lítt eða ekki skefur líka allmikið í þurrviðri þótt ekki snjói. Þegar sól hækkar á lofti í mars heldur skafrenningur í snjókomu sínum hlut, en skafrenningur í þurrviðri minnkar vegna þess að efsti hluti snjóhulunnar er fastari í sér en að vetrarlagi auk þess sem snjór bráðnar mjög í sól þegar komið er fram á þennan tíma.

Skafrenningur liggur oft í strengjum ýmist þar sem núningur vindsins við yfirborð er minni heldur en í kring, til dæmis í sléttlendum flóðum þar sem langt er á milli holta. Landslag mótar einnig skafrenning sem þá fylgir vindstrengjum við fjöll. Það er vel þess virði að sitja og horfa á strengi af þessu tagi. Þá fær maður alls konar hugmyndir um það hvernig línurnar (tjöldin) sem sjá má í skafrenningnum haldast saman þrátt fyrir alls konar beygjur og sveigjur.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:

  • Þrír þættir skafrennings og snjóburðar: Trausti Jónsson.
  • Mynd frá Ísafirði: Albertína Elíasdóttir. Sótt 28. 1. 2011.


Þetta svar er fengið af bloggi Trausta Jónssonar og birt hér með góðfúslegu leyfi. ...