Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Við hvaða hita snjóar? Getur snjóað í miklu frosti?

Trausti Jónsson

Stöku sinnum snjóar í skamma stund í 2 til 4°C hita, en hiti er langoftast neðan við 0,5°C í snjókomu. Líkur á mikilli snjókomu minnka að jafnaði eftir því sem frost er meira, en mikil úrkoma myndast þó í skýjum þar sem hiti er lægri en -8°C sé uppstreymi þar jafnframt mikið. Það getur snjóað mikið í miklu frosti en langoftast er lítið frost í mikilli snjókomu.

Úrkoma myndast í skýjum en fellur síðan til jarðar. Snjórinn sem við sjáum falla er langoftast orðinn til langt ofan við höfuð okkar þar sem hiti er annar en sá sem við upplifum og mælum. Ástæður mikillar snjókomu í miklu frosti geta verið fleiri en ein og til að greina þær að í hverju tilviki fyrir sig þurfum við helst að vita hvernig hiti breytist með vaxandi hæð fyrir ofan okkur. Ekki er alltaf létt að giska á það.



Það getur snjóað mikið í miklu frosti en langoftast er lítið frost í mikilli snjókomu.

Ef mjög mikið snjóar í miklu frosti gerist það oftast í hægviðri, undir svokölluðum hitahvörfum. Snjórinn fellur þá í allstórum flyksum. Það að flyksurnar eru stórar bendir til þess að fyrir ofan okkur sé ekki mjög mikið frost (frost þó). Ískristallar krækjast best saman sé frost lítið. Í þessu tilviki er frostið sem við upplifum aðeins staðbundið, fyrir ofan okkur eru líklega hitahvörf og ofan þeirra er frostið minna. Sennilega er ekki langt upp í þau. Snjó getur dengt niður við þessi skilyrði, þótt frostið sé mikið.

Sé hvasst er ólíklegt að stutt sé í hitahvörfin. Flyksur eru mun minni en í hægviðrinu. Það getur bæði stafað af því að árekstrar milli flyksnanna dragi úr stærð þeirra, en einnig getur verið að svæðið þar sem úrkoma myndast í skýinu sé ekki mjög langt fyrir ofan okkur. Sé frost mikið, til dæmis 10 stig, þarf uppstreymi sem myndað hefur úrkomuna að vera mjög mikið. Algengast er að það sé í námunda við fjöll. Þetta gerist til dæmis víða á Vestfjörðum. Úrkoman myndast þá í uppstreyminu áveðurs á fjallinu, en fýkur yfir það og dengist niður hlémegin, jafnvel niður á láglendi. Þetta getur gerst í miklu frosti, ef vindur er mikill og loftið í uppstreyminu er rakamettað. Fyrir kemur að það sem virðist vera snjókoma er þegar betur er að gáð að mestu leyti skafrenningur. Skafrenningur er hins vegar miklu meiri í snjókomu en í úrkomulausu veðri.

Ský innihalda ótölulegan fjölda örsmárra vatnsdropa, jafnvel í miklu frosti. Rakaþétting og uppgufun á sér sífellt stað þar sem vatnsgufa (eimur – ósýnileg lofttegund) og vatn sem vökvi eða ís mætast. Svo vill til að uppgufun er tregari yfir ísfleti heldur en yfir vatnsfleti. Þetta þýðir að komi ísnál inn í umhverfi þar sem jafnvægi ríkir milli uppgufunar og þéttingar á vatnsdropum fer hún umsvifalaust að taka til sín raka úr loftinu, þar með fellur rakastig loftsins og jafnvægið við yfirborð dropanna raskast. Þeir taka þá að gufa upp og missa raka til ísnálarinnar, ískristallarnir aféta dropana. Ísnálin verður á skammri stundu stór og utan á hana hlaðast nýjar nálar eða kristallar sem geta brotnað af. Þá verða til margar nálar sem aftur geta af sér fleiri sem allar keppa um þann raka sem fáanlegur er. Nú gufa langflestir vatnsdroparnir örsmáu upp og hverfa. Stórar ísnálar eða stórir ískristallar klessast síðan saman og mynda snjóflyksur sem falla til jarðar. Lögun ískristalla fer eftir því við hvaða hita þeir myndast og hvert rakajafnvægi þeirra við umhverfið er.

Munurinn á þéttingarjafnvægi yfir ís annars vegar og vatnsfleti hins vegar ræðst af hita og er munurinn mestur við 8 til 15 stiga frost. Afát, eins og lýst var að ofan, gengur því greiðast á því hitabili.

Nær öll úrkoma hér á landi myndast þegar vatnsgufa þéttist utan á ískristöllum í skýjum. Úrkoma byrjar því öll sem snjór og rigningin er í öllum tilvikum snjór sem hefur bráðnað. Bráðnunin tekur hins vegar orku úr loftinu sem úrkoman fellur í, það kólnar því. Sé ákefð úrkomunnar mjög mikil kólnar loftið smám saman niður fyrir frostmark, þá eru snjóflyksur stórar og fallhraði þeirra mikill. Stundum snjóar því í stutta stund í 2 til 4 stiga hita. Það ástand stendur þó ekki lengi því annað hvort kólnar fljótt niður að frostmarki í snjókomunni eða hún breytist (aftur) í regn.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: University of Nebraska-Lincoln. High Plains Regional Climate Center. Sótt 29. 4. 2009.


Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Snjóar í frosti?
  • Getur snjóað í 10° frosti?

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

30.4.2009

Spyrjandi

Árni Rúnar Örvarsson
Áslaug Jónsdóttir
Gunnar Andrésson
Arna Guðmundsdóttir

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Við hvaða hita snjóar? Getur snjóað í miklu frosti?“ Vísindavefurinn, 30. apríl 2009, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51716.

Trausti Jónsson. (2009, 30. apríl). Við hvaða hita snjóar? Getur snjóað í miklu frosti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51716

Trausti Jónsson. „Við hvaða hita snjóar? Getur snjóað í miklu frosti?“ Vísindavefurinn. 30. apr. 2009. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51716>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Við hvaða hita snjóar? Getur snjóað í miklu frosti?
Stöku sinnum snjóar í skamma stund í 2 til 4°C hita, en hiti er langoftast neðan við 0,5°C í snjókomu. Líkur á mikilli snjókomu minnka að jafnaði eftir því sem frost er meira, en mikil úrkoma myndast þó í skýjum þar sem hiti er lægri en -8°C sé uppstreymi þar jafnframt mikið. Það getur snjóað mikið í miklu frosti en langoftast er lítið frost í mikilli snjókomu.

Úrkoma myndast í skýjum en fellur síðan til jarðar. Snjórinn sem við sjáum falla er langoftast orðinn til langt ofan við höfuð okkar þar sem hiti er annar en sá sem við upplifum og mælum. Ástæður mikillar snjókomu í miklu frosti geta verið fleiri en ein og til að greina þær að í hverju tilviki fyrir sig þurfum við helst að vita hvernig hiti breytist með vaxandi hæð fyrir ofan okkur. Ekki er alltaf létt að giska á það.



Það getur snjóað mikið í miklu frosti en langoftast er lítið frost í mikilli snjókomu.

Ef mjög mikið snjóar í miklu frosti gerist það oftast í hægviðri, undir svokölluðum hitahvörfum. Snjórinn fellur þá í allstórum flyksum. Það að flyksurnar eru stórar bendir til þess að fyrir ofan okkur sé ekki mjög mikið frost (frost þó). Ískristallar krækjast best saman sé frost lítið. Í þessu tilviki er frostið sem við upplifum aðeins staðbundið, fyrir ofan okkur eru líklega hitahvörf og ofan þeirra er frostið minna. Sennilega er ekki langt upp í þau. Snjó getur dengt niður við þessi skilyrði, þótt frostið sé mikið.

Sé hvasst er ólíklegt að stutt sé í hitahvörfin. Flyksur eru mun minni en í hægviðrinu. Það getur bæði stafað af því að árekstrar milli flyksnanna dragi úr stærð þeirra, en einnig getur verið að svæðið þar sem úrkoma myndast í skýinu sé ekki mjög langt fyrir ofan okkur. Sé frost mikið, til dæmis 10 stig, þarf uppstreymi sem myndað hefur úrkomuna að vera mjög mikið. Algengast er að það sé í námunda við fjöll. Þetta gerist til dæmis víða á Vestfjörðum. Úrkoman myndast þá í uppstreyminu áveðurs á fjallinu, en fýkur yfir það og dengist niður hlémegin, jafnvel niður á láglendi. Þetta getur gerst í miklu frosti, ef vindur er mikill og loftið í uppstreyminu er rakamettað. Fyrir kemur að það sem virðist vera snjókoma er þegar betur er að gáð að mestu leyti skafrenningur. Skafrenningur er hins vegar miklu meiri í snjókomu en í úrkomulausu veðri.

Ský innihalda ótölulegan fjölda örsmárra vatnsdropa, jafnvel í miklu frosti. Rakaþétting og uppgufun á sér sífellt stað þar sem vatnsgufa (eimur – ósýnileg lofttegund) og vatn sem vökvi eða ís mætast. Svo vill til að uppgufun er tregari yfir ísfleti heldur en yfir vatnsfleti. Þetta þýðir að komi ísnál inn í umhverfi þar sem jafnvægi ríkir milli uppgufunar og þéttingar á vatnsdropum fer hún umsvifalaust að taka til sín raka úr loftinu, þar með fellur rakastig loftsins og jafnvægið við yfirborð dropanna raskast. Þeir taka þá að gufa upp og missa raka til ísnálarinnar, ískristallarnir aféta dropana. Ísnálin verður á skammri stundu stór og utan á hana hlaðast nýjar nálar eða kristallar sem geta brotnað af. Þá verða til margar nálar sem aftur geta af sér fleiri sem allar keppa um þann raka sem fáanlegur er. Nú gufa langflestir vatnsdroparnir örsmáu upp og hverfa. Stórar ísnálar eða stórir ískristallar klessast síðan saman og mynda snjóflyksur sem falla til jarðar. Lögun ískristalla fer eftir því við hvaða hita þeir myndast og hvert rakajafnvægi þeirra við umhverfið er.

Munurinn á þéttingarjafnvægi yfir ís annars vegar og vatnsfleti hins vegar ræðst af hita og er munurinn mestur við 8 til 15 stiga frost. Afát, eins og lýst var að ofan, gengur því greiðast á því hitabili.

Nær öll úrkoma hér á landi myndast þegar vatnsgufa þéttist utan á ískristöllum í skýjum. Úrkoma byrjar því öll sem snjór og rigningin er í öllum tilvikum snjór sem hefur bráðnað. Bráðnunin tekur hins vegar orku úr loftinu sem úrkoman fellur í, það kólnar því. Sé ákefð úrkomunnar mjög mikil kólnar loftið smám saman niður fyrir frostmark, þá eru snjóflyksur stórar og fallhraði þeirra mikill. Stundum snjóar því í stutta stund í 2 til 4 stiga hita. Það ástand stendur þó ekki lengi því annað hvort kólnar fljótt niður að frostmarki í snjókomunni eða hún breytist (aftur) í regn.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: University of Nebraska-Lincoln. High Plains Regional Climate Center. Sótt 29. 4. 2009.


Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Snjóar í frosti?
  • Getur snjóað í 10° frosti?
...