Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ástarbréf eru tjáning tilfinninga og sérstök bókmenntagrein. Eðli þeirra og orðfæri hefur breyst í tímans rás og tekur alltaf mið af stað og stund, það er að segja þeim tíma og því menningarlega samhengi sem elskendurnir búa í.
Almennt séð eru ástarbréf mikilvægur liður í því að skapa tilfinningalega nánd, kveikja ást og viðhalda henni. Ef horft er til nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, er ljóst að ástarbréf voru notuð til að halda sambandi og ýta undir tilfinningar fólks sem var fjarri hvort öðru. Stundum var fólk að búa sig til í sendibréfum – sviðsetja sig – og þannig að móta sjálfsmynd sína. Erlendar rannsóknir á ástarbréfum átjándu og nítjándu aldar hafa sýnt að oft voru bréfaskipti nýtrúlofaðs fólks leið til að kanna hvort það ætti raunverulega saman, eins konar prufutími. Víða erlendis skiptu fjarlægðir milli elskenda ekki máli því sendibréfið var samskiptaform sem var notað jafnframt því að hittast augliti til auglitis enda póstur jafnvel borinn í hús oft á dag.
Við vitum ekki hvort íslenskir elskendur gerðu mikið af því að senda bréf eða orðsendingar með ástarjátningum með tilfallandi ferðum milli húsa eða bæja en flest þau bréf sem við höfum skoðað eru samskipti fólks sem var fjarri hvort öðru til lengri eða skemmri tíma. Ástarbréf eru ekki bara orðin sem þau fluttu heldur voru þau líka eins konar staðgengil bréfritara, þau voru hlutur sem hægt var að þreifa á, geyma við hjartastað, undir kodda eða milli fóta, eins og dæmi eru um. Grátið var ofan í bréf meðan þau voru skrifuð og lesin, kossar sendir og þau kysst af bréfritara og viðtakanda. Með bréfum voru oft sendar gjafir, nokkurs konar tryggðapantar, svo sem smámyndir, hárlokkar og hringir. Eins og breski sagnfræðingurinn Sally Holloway bendir á má skoða ástina sem „eins konar iðkun“ þar sem orð, hegðun og hlutir búa til og kynda undir tilfinningar. Tilhugalífið er þannig ákveðinn leikur eða gjörningur og ástarbréfið er hluti af þessum leik.[1]
Bréf Ingibjargar Guðbrandsdóttur (Imbu Brands) til Ingibjargar H. Bjarnasonar, 14. ágúst 1898.
Ástarbréfið á sér rætur aftur í fornöld, bæði í formi raunverulegra bréfaskipta en einnig í skáldskap. Á átjándu öld urðu umtalsverðar breytingar á hugmyndum um ást og tjáningu hennar og þar hafa áhrif iðnvæðing og þéttbýlismyndun sem fól í sér breytt búsetuform og fjölskyldugerð. Á þessum tíma lærðu sífellt fleiri að skrifa og bréfasendingum fjölgaði. Póstþjónusta komst í fastari skorður og varð bæði tíðari og skilvirkari. Ekki má gleyma áhrifum af hugmyndastefnum eins og upplýsingunni og rómantíkinni því þeim fylgdu nýjar hugmyndir um ást, tjáningu hennar og kynhlutverk.
Eitt af því sem hafði mikil áhrif á ástarbréf (og sendibréfsformið) á átjándu öld voru bréfaskáldsögurnar svokölluðu sem slógu í gegn um og eftir 1750. Þetta eru skáldsögur í formi bréfaskipta um eldheitar og jafnvel forboðnar ástir. Þær voru vinsælt afþreyingarefni meðal efri- og miðstéttar Evrópu og höfðu áhrif á það hvernig fólk tjáði sig í bréfum.[2] Af þekktum titlum má nefna Hættuleg kynni (1782) eftir Laclos og Raunir Werthers unga (1774) eftir Goethe, sem lesa má í íslenskri þýðingu.[3] Þegar komið var fram um aldamótin 1800 voru gefin út leiðbeiningarit um hvernig ætti að skrifa ástarbréf og uppsláttarrit með góðum frösum. Íslensk leiðbeiningarrit af því tagi virðast ekki hafa komið út fyrr en á tuttugustu öld, eins og bókin Ástabrjef. Ómissandi bók fyrir ástfangið fólk, frá 1923.
Af íslenskum ástarbréfum má nefna bréf sem Baldvin Einarsson skrifaði unnustu sinni Kristrúnu Jónsdóttur, á árunum 1825–1832. Þau voru trúlofuð þegar hann fór til náms í Kaupmannahöfn en Kristrún sat heima í festum. Baldvin sveik hana í tryggðum fyrir danska konu en hélt áfram að skrifa Kristrúnu ástarbréf eftir sem áður. Orðræða bréfanna passar vel við hugmyndastefnur þessa tíma, ekki síst rómantíkina. Ástarorðin streyma úr penna Baldvins, þau tvö saman, hann vill hvíla í faðmi hennar, sendir kossa „fyrst munnur nær ei til munns“. Hann er elskarinn hennar, hún er allrabesti vinurinn hans, hann sendir henni sjálfan sig í bréfi og ímynd hennar birtist honum í hennar bréfum. Þau eru eitt, tveir helmingar sem verða eitt. Bréfin eru tilfinningarík enda máttu karlmenn sýna tilfinningar í ástarbréfum á þessum tíma, eins og að gráta og andvarpa, þeir áttu að vera einlægir en konur hógværari, ekki sleppa sér enda gat það leitt til ástsýki.[4]
Í desember 1825 kveður Baldvin Einarsson unnustu sína, Kristrúnu Jónsdóttur, með fjölda kossa, sem flæða til hennar þegar hún opnar bréfið: „Vertu þá sæl mín elskulega góða vina og unnusta! Guð gefi þér allar góðar nætur, koss, og geymi þig alla daga, koss, og lofi okkur að unnast, koss, og styrkja hvort annað á lífsins hála skeiði, koss. Þess óskar af öllum hug þinn unnusti Baldvin Einarsson Koss“.
Finna má erótík og holdlega þrá í sumum þeirra ástarbréfa sem við höfum skoðað. Kynlíf er gefið í skyn, talað er um að klæða sig í og úr, talað um kossa og svo fylgir punktur punktur punktur. Stundum koma brjóst og gælur við sögu, eins og í tilfinningaríkum skrifum hjónaefnanna og síðar hjónanna Sigríðar Þorsteinsdóttur ritstýru og Skafta Jósefssonar ritstjóra á bilinu 1860 til 1870.[5] Þá er einnig áhugavert að sjá hvernig tilkoma aukins símsambands hefur áhrif, þegar komið er fram á tuttugustu öld, þá er hægt að tala saman en bara þannig að allir geti hlustað. Það sem þarf meira að ræða undir fjögur augu fær að rata í bréfin.[6]
Í Kvennasögusafni Íslands eru varðveitt afar áhugaverð ástarbréf ef að þeim er sérstaklega leitað þar sem ekki er venjan að gefa sendibréfum sérstakt efnisorð í skjalaskrá eftir innihaldi þeirra. Í raun er áhugavert hve fá ástarbréf eru að finna í safnkostinum og svo virðist sem þess háttar sendibréf fái síður að fylgja með afhendingum bréfasafna á meðan bréfaskriftir tengd atvinnu og félagastarfi fær að koma inn.
Þau ástarbréf sem eru varðveitt í Kvennasögusafni eru frá tuttugustu öld og má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru þau bréf sem ganga á milli pars í tilhugalífinu sem hefur svo endað með hjónabandi. Þar eru oftar en ekki tugir bréfa sem hafa farið á milli parsins og bréf beggja bréfritara eru varðveitt. Augljóslega hefur verið haldið upp á þessi bréf, bæði af parinu sjálfu og síðar afkomendum þeirra sem hafa gefið safninu þau til varanlegrar varðveislu. Stétt og stéttaskipting er áberandi í þessum hópi þar sem um er að ræða ástarbréf sem fóru á milli til að mynda presta og lækna og kvenna þeirra, sem sinntu ýmsum störfum.[7]
Hins vegar eru ástarbréf þeirra fólks þar sem ekki varð hamingjusamlegur endir. Í þeim tilvikum er einungis hægt að lesa brotakennd bréfasamskipti í aðra áttina. Þar má nefna dæmi um samkynhneigðar ástir sem óljóst er hvort hafi verið endurgoldnar,[8] aðrar sem giska má að hafi án efa verið það[9] og svo átakanlegt samband verkafólks sem gat ekki gifst vegna stöðu sinnar.[10]
Bréf Ingibjargar Guðbrandsdóttur (Imbu Brands) til Ingibjargar H. Bjarnasonar, 14. ágúst 1898.
Erfitt er að átta sig á umfangi ástarbréfa á skjalasöfnum landsins, fræðimenn rekast stundum á þau fyrir tilviljun, og svo eru ástarbréf í einkaeigu, gömul og ný.[11] Ástarbréf eru viðkvæmt og jafnvel eldfimt efni sem tengist innsta tilfinningalífi fólks sem þarf að bera virðingu fyrir og sýna nærgætni. Á sama tíma segja bréfin okkur í nútímanum svo margt, heimildagildi þeirra er því ómetanlegt og vonandi fá enn fleiri að rata á safn með tíð og tíma.
Er fólk hætt að senda ástarbréf? Stutta svarið er já og nei. Löng handrituð sendibréf á pappírsformi, send í pósti, með kossum, ilmefnum eða hárlokkum eru líklega að mestu liðin tíð en fólk hefur enn þörf fyrir að tjá ást, tilfinningar og þrá. Það er því formið sem hefur breyst í takt við nýja tíma. Nú er hægt að senda ástarjátningar á örskotsstundu í formi langra eða stuttra texta eða myndefnis og tákna í gegnum hina ýmsu samfélagsmiðla og samskiptaforrit. Fyrir skjalaverði og fræðimenn framtíðar er varðveislan höfuðverkur. Vonandi skrifar fólk uppáhalds rafsendingarnar sínar í dagbækurnar sem það heldur ennþá eða tekur jafnvel skjáskot af þeim sem rata svo á safn.
Tilvísanir:
^ Auk Holloway, sem er aðalheimildin um erlent samhengi, sjá Katie Barclay og Sally Holloway, „Introduction. Interrogating Romantic Love“, Cultural and Social History 17, nr. 3 (2020), 271–277 https://doi.org/10.1080/14780038.2019.1685839; Clara Tuite, „Speechless: Werther-Fever and the Media of Romantic Love“, Cultural, and Social History 17, nr. 3 (2020), 333–353, https://doi.org/10.1080/14780038.2019.1680056; Martyn Lyons, „Love letters and writing practices: On Écritures intimes in the nineteenth century“, Journal of Family History 24, nr. 2 (1999), 232–239. https://doi.org/10.1177/036319909902400206; Diana G Barnes, „Emotional Debris in Early Modern Letters“, í Feeling Things: Objects and Emotions through History, ritstj. Stephaine Downes, Sally Holloway og Sarah Randels. Oxford: Oxford University Press, 2018, 114–132. https://doi.org/10.1093/oso/9780198802648.003.0008
^ Johann Wolfgang Goethe, Raunir Werthers unga. Gísli Ásmundsson íslenskaði. Kristján Árnason ritar eftirmála. Reykjavík: Uglan, íslenski kiljuklúbburinn, 1987, 160–169; Pierre Choderlos de Laclos, Hættuleg sambönd eða safn bréfs sem safnað var meðal einnar stéttar til fróðleiks fyrir aðra af Hr. C. de L. Friðrik Rafnsson þýddi og ritaði eftirmála. Reykjavík: Ugla, 2021.
^Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825–1832. Erla Hulda Halldórsdóttir bjó til prentunar og skrifaði inngang. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2023.
^ Sem dæmi má nefna bréf í safni Maríu Thoroddsen frá eiginmannsefni hennar Haralds Jónssonar, KSS 53.
^ Hér má nefna bréf á milli Sigurbjarnar Á. Gíslasonar prests og Guðrúnar Lárusdóttur þingkonu og rithöfundar (KSS 2020/1), dóttur þeirra Láru Sigurbjörnsdóttur handavinnukennara og hótelstjóra og Ásgeirs Ó. Einarssonar dýralæknis (KSS 72), og svo Maríu Skúladóttur Thoroddsen húsmóður og Harald Jónssonar héraðslæknis (KSS 53).
^ Hér má nefna tvær áhugaverðar bækur þar sem ástarbréf koma við sögu: Sigurður Gylfi Magnússon, Menntun, ást & sorg. Einsögurannsókn á íslensku sveitasamfélagi 19. og 20. aldar. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1997; Anna Hinriksdóttir, Ástin á tímum ömmu og afa. Bréf og dagbækur Bjarna Jónassonar kennara, sveitarhöfðingja og samvinnumanns í Húnaþingi á öndverðri 20. öld. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2009.
Myndir:
Baldvin Einarsson til Kristrúnar Jónsdóttur, Lbs 4728 4to. Handritasafn, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn.
Ingibjörg Guðbrandsdóttir (Imba Brands) til Ingibjargar H. Bjarnasonar, KSS 2018/17. Kvennasögusafn, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn.
Erla Hulda Halldórsdóttir og Rakel Adolphsdóttir. „Hvað eru ástarbréf og er fólk hætt að senda þau?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2025, sótt 21. febrúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87533.
Erla Hulda Halldórsdóttir og Rakel Adolphsdóttir. (2025, 14. febrúar). Hvað eru ástarbréf og er fólk hætt að senda þau? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87533
Erla Hulda Halldórsdóttir og Rakel Adolphsdóttir. „Hvað eru ástarbréf og er fólk hætt að senda þau?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2025. Vefsíða. 21. feb. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87533>.