Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er rómantík eða rómantíska stefnan?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Hugtakið rómantík er notað um stefnu í bókmenntum og listum sem kom fram í Evrópu um aldamótin 1800. Stefnan rann sitt skeið að mestu á enda um 1850 en áhrifa hennar gætti þó mun lengur og sums staðar eru tímamörkin önnur. Hér á landi er til að mynda litið svo á að rómantíska tímabilið í skáldskap standi frá 1830 til 1880.

Í sögulegu samhengi er rómantíkin tímabilið á milli upplýsingar- og raunsæisstefnu. Stefnan var andsvar við ýmsum áherslum upplýsingarstefnunnar, en svo nefnist áhrifamikil og víðtæk menntastefna sem átti blómaskeið sitt á 18. öld. Upplýsingarstefnan grundvallaðist á skynsemishyggju og helsta leiðarstef hennar var að fræðsla og þekking mundi leiða til framfara á öllum sviðum. Upplýsingarstefnan var afsprengi vísindabyltingar 16. og 17. aldar, þar sem reynsla varð undirstaða þekkingar og ýmis forn sannindi voru dregin í efa.

Svona skilgreinir Sveinn Yngvi Egilsson rómantík í stuttu máli í seinni hluta ritsins Íslenskar bókmenntir:

Í alþjóðlegu samhengi má líta á það sem kallast rómantík sem andsvar við áherslum upplýsingarinnar: einstaklingnum er teflt fram gegn heildarhyggju, tilfinningum gegn skynsemistrú, náttúrunni gegn tæknihyggju og þjóðerni gegn alþjóðahyggju. Hið rómantíska myndar þá eins konar andstæðu við hið klassíska sem haft var í hávegum á upplýsingartímanum.[1]

Eins og Sveinn Yngvi nefnir myndaði rómantíkin andstæðu svonefnds klassisisma, en það var bókmenntastefna sem leitaði helst fyrirmynda í skáldskap Forngrikkja og Rómverja. Klassisisminn gerði til að mynda lauslegar athuganir Aristótelesar á skáldskap að ströngum reglum sem skáld þurftu helst að fylgja í þaula. Einna lengst gekk þetta í leikritagerð, þar sem svonefnd eining staðar, tíma og atburðarásar varð að meginkröfu. Listrænt andóf gegn formkröfum klassisismans hófst einna fyrst með þýsku bókmenntastefnunni Sturm und Drang (ákefð og innri hvöt). Forsprakkar hennar fengust aðallega við leikritagerð og höfnuðu skáldskaparfræðum klassismans. Blómaskeið Sturm und Drang var frá um 1770 til um 1785 og stefnan var fyrirboði rómantísku stefnunnar.

Sögulegar forsendur rómantíkurinnar eru aðallega franska stjórnarbyltingin 1789 og iðnbyltingin á Englandi. Myndin er frægt allegórískt málverk eftir franska rómantíska málarann Eugène Delacroix (1798-1863). Þar sést kona sem tákn frelsisins leiða almenning í frönsku júlíbyltingunni 1830.

Með rómantíkinni andæfðu skáld og menntamenn skynsemishyggju upplýsingarstefnunnar en ýmsar sögulegar aðstæður undir lok 18. aldar gerðu það að verkum að trú manna á framfarir í krafti vísindalegrar þekkingar dvínaði á þessum tíma. Tveir sögulegir viðburðir í Frakklandi og á Englandi skipta þar mestu máli: franska stjórnarbyltingin 1789 og iðnbyltingin á Englandi.

Í kjölfar iðnbyltingarinnar og þeirrar fólksfjölgunar sem henni fylgdi, stækkuðu borgir en jafnframt varð skortur á húsnæði og fátækt jókst í stærri borgum. Þetta dró úr þeirri framfaratrú sem hafði fylgt upplýsingarstefnunni. Borgarmenning og borgir urðu að tákni um hnignun og rómantísk skáld boðuðu mörg hver afturhvarf til náttúrunnar. Svissnesk-franski hugsuðurinn Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) sem taldi að siðmenningin hefði spillt mönnunum, hafði þar mikil áhrif.

Eitt þriggja kjörorða frönsku byltingarinnar var frelsi (hin tvö voru jafnrétti og bræðralag). Augljósa hliðstæðu þess má greina í áherslu rómantískra skálda á listrænt frelsi skáldsins. Frelsið verður lausn listamannsins undan oki hefðarinnar og stífum reglum um skáldskap og fagurfræði, rétt eins og frelsi almennra borgara var boðað í skjali franskra byltingarsinna árið 1789.

Á rómantíska skeiðinu vék hlutlæg heimsmynd upplýsingarstefnunnar fyrir hughyggju. Veruleikinn var ekki lengur gefin stærð sem hægt var að mæla og koma böndum á með lögmálum vísindanna, heldur fóru tilfinningar og upplifanir einstaklingsins að skipta höfuðmáli. Af þeim sökum varð ástin miðlægt hugtak á tímabilinu. Hugtakið rómantísk ást er gott dæmi um arfleifð rómantísku stefnunnar, þó að ýmislegt annað hafi þar einnig áhrif.

Hugmyndir um skáldlegt innsæi og snilligáfu eiga einnig rætur að rekja til rómantíkurinnar og hryllingssagan (e. gothic novel) sem bókmenntagrein sprettur upp á þessum tíma. Segja má að röklegt viðbragð hughyggju á tímum rómantíkurinnar sé einmitt að efast um hinn skynsama mann upplýsingarinnar og taka þess í stað til skoðunar flókið og oft og tíðum myrkt sálarlíf einstaklingsins. Þekktasta dæmið þar er skáldsagan Frankenstein sem fyrst kom út 1818.

Í stuttu máli mætti útskýra rómantík sem eins konar módernisma 19. aldar. Með rómantíkinni voru ýmis viðtekin sjónarmið upplýsingarstefnunnar um veruleikann og skáldskap tekin til endurskoðunar og þeim andæft. Seinna, eftir að blómaskeiði rómantíkurinnar lauk, brást raunsæisstefnan við ýmsum gildum rómantíkurinnar. Þannig má segja að stefnur og straumar í hugmynda- og menningarsögu verði til við margþætta endurskoðun og andóf gegn ríkjandi gildum á hverjum tíma.

Mynd:

Frekara lesefni:
  • Íslensk bókmenntasaga III, Mál og menning, Reykjavík 1996.

Tilvísun:
  1. ^ Sveinn Yngvi Egilsson, „Alþýðuskáld og ættjarðarrómantík“, í Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi (seinni hluti), Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021, bls. 461-464.

Höfundur þakkar Sveini Yngva Egilssyni, prófessor í íslenskum bókmenntum, fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

17.3.2023

Spyrjandi

Heba Harðardóttir, Valur Rafn Halldórsson, Ólafur Bergmann, Guðrún Kristín Stefánsdóttir, Þorbjörg Eva Magnúsdóttir

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er rómantík eða rómantíska stefnan?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2023, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=17905.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2023, 17. mars). Hvað er rómantík eða rómantíska stefnan? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=17905

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er rómantík eða rómantíska stefnan?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2023. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=17905>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er rómantík eða rómantíska stefnan?
Hugtakið rómantík er notað um stefnu í bókmenntum og listum sem kom fram í Evrópu um aldamótin 1800. Stefnan rann sitt skeið að mestu á enda um 1850 en áhrifa hennar gætti þó mun lengur og sums staðar eru tímamörkin önnur. Hér á landi er til að mynda litið svo á að rómantíska tímabilið í skáldskap standi frá 1830 til 1880.

Í sögulegu samhengi er rómantíkin tímabilið á milli upplýsingar- og raunsæisstefnu. Stefnan var andsvar við ýmsum áherslum upplýsingarstefnunnar, en svo nefnist áhrifamikil og víðtæk menntastefna sem átti blómaskeið sitt á 18. öld. Upplýsingarstefnan grundvallaðist á skynsemishyggju og helsta leiðarstef hennar var að fræðsla og þekking mundi leiða til framfara á öllum sviðum. Upplýsingarstefnan var afsprengi vísindabyltingar 16. og 17. aldar, þar sem reynsla varð undirstaða þekkingar og ýmis forn sannindi voru dregin í efa.

Svona skilgreinir Sveinn Yngvi Egilsson rómantík í stuttu máli í seinni hluta ritsins Íslenskar bókmenntir:

Í alþjóðlegu samhengi má líta á það sem kallast rómantík sem andsvar við áherslum upplýsingarinnar: einstaklingnum er teflt fram gegn heildarhyggju, tilfinningum gegn skynsemistrú, náttúrunni gegn tæknihyggju og þjóðerni gegn alþjóðahyggju. Hið rómantíska myndar þá eins konar andstæðu við hið klassíska sem haft var í hávegum á upplýsingartímanum.[1]

Eins og Sveinn Yngvi nefnir myndaði rómantíkin andstæðu svonefnds klassisisma, en það var bókmenntastefna sem leitaði helst fyrirmynda í skáldskap Forngrikkja og Rómverja. Klassisisminn gerði til að mynda lauslegar athuganir Aristótelesar á skáldskap að ströngum reglum sem skáld þurftu helst að fylgja í þaula. Einna lengst gekk þetta í leikritagerð, þar sem svonefnd eining staðar, tíma og atburðarásar varð að meginkröfu. Listrænt andóf gegn formkröfum klassisismans hófst einna fyrst með þýsku bókmenntastefnunni Sturm und Drang (ákefð og innri hvöt). Forsprakkar hennar fengust aðallega við leikritagerð og höfnuðu skáldskaparfræðum klassismans. Blómaskeið Sturm und Drang var frá um 1770 til um 1785 og stefnan var fyrirboði rómantísku stefnunnar.

Sögulegar forsendur rómantíkurinnar eru aðallega franska stjórnarbyltingin 1789 og iðnbyltingin á Englandi. Myndin er frægt allegórískt málverk eftir franska rómantíska málarann Eugène Delacroix (1798-1863). Þar sést kona sem tákn frelsisins leiða almenning í frönsku júlíbyltingunni 1830.

Með rómantíkinni andæfðu skáld og menntamenn skynsemishyggju upplýsingarstefnunnar en ýmsar sögulegar aðstæður undir lok 18. aldar gerðu það að verkum að trú manna á framfarir í krafti vísindalegrar þekkingar dvínaði á þessum tíma. Tveir sögulegir viðburðir í Frakklandi og á Englandi skipta þar mestu máli: franska stjórnarbyltingin 1789 og iðnbyltingin á Englandi.

Í kjölfar iðnbyltingarinnar og þeirrar fólksfjölgunar sem henni fylgdi, stækkuðu borgir en jafnframt varð skortur á húsnæði og fátækt jókst í stærri borgum. Þetta dró úr þeirri framfaratrú sem hafði fylgt upplýsingarstefnunni. Borgarmenning og borgir urðu að tákni um hnignun og rómantísk skáld boðuðu mörg hver afturhvarf til náttúrunnar. Svissnesk-franski hugsuðurinn Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) sem taldi að siðmenningin hefði spillt mönnunum, hafði þar mikil áhrif.

Eitt þriggja kjörorða frönsku byltingarinnar var frelsi (hin tvö voru jafnrétti og bræðralag). Augljósa hliðstæðu þess má greina í áherslu rómantískra skálda á listrænt frelsi skáldsins. Frelsið verður lausn listamannsins undan oki hefðarinnar og stífum reglum um skáldskap og fagurfræði, rétt eins og frelsi almennra borgara var boðað í skjali franskra byltingarsinna árið 1789.

Á rómantíska skeiðinu vék hlutlæg heimsmynd upplýsingarstefnunnar fyrir hughyggju. Veruleikinn var ekki lengur gefin stærð sem hægt var að mæla og koma böndum á með lögmálum vísindanna, heldur fóru tilfinningar og upplifanir einstaklingsins að skipta höfuðmáli. Af þeim sökum varð ástin miðlægt hugtak á tímabilinu. Hugtakið rómantísk ást er gott dæmi um arfleifð rómantísku stefnunnar, þó að ýmislegt annað hafi þar einnig áhrif.

Hugmyndir um skáldlegt innsæi og snilligáfu eiga einnig rætur að rekja til rómantíkurinnar og hryllingssagan (e. gothic novel) sem bókmenntagrein sprettur upp á þessum tíma. Segja má að röklegt viðbragð hughyggju á tímum rómantíkurinnar sé einmitt að efast um hinn skynsama mann upplýsingarinnar og taka þess í stað til skoðunar flókið og oft og tíðum myrkt sálarlíf einstaklingsins. Þekktasta dæmið þar er skáldsagan Frankenstein sem fyrst kom út 1818.

Í stuttu máli mætti útskýra rómantík sem eins konar módernisma 19. aldar. Með rómantíkinni voru ýmis viðtekin sjónarmið upplýsingarstefnunnar um veruleikann og skáldskap tekin til endurskoðunar og þeim andæft. Seinna, eftir að blómaskeiði rómantíkurinnar lauk, brást raunsæisstefnan við ýmsum gildum rómantíkurinnar. Þannig má segja að stefnur og straumar í hugmynda- og menningarsögu verði til við margþætta endurskoðun og andóf gegn ríkjandi gildum á hverjum tíma.

Mynd:

Frekara lesefni:
  • Íslensk bókmenntasaga III, Mál og menning, Reykjavík 1996.

Tilvísun:
  1. ^ Sveinn Yngvi Egilsson, „Alþýðuskáld og ættjarðarrómantík“, í Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi (seinni hluti), Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021, bls. 461-464.

Höfundur þakkar Sveini Yngva Egilssyni, prófessor í íslenskum bókmenntum, fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar....