Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kasakstan er níunda stærsta land heims að flatarmáli, alls 2.724.900 km2. Það nær frá Kaspíahafi í vestri til Kína í austri og frá sléttum vestur Síberíu í norðri að Kirgistan, Úsbekistan og Túrkmenistan í suðri. Kasakstan er landlukt ríki, það er að segja það liggur ekki að sjó (Kaspíahaf er stöðuvatn). Mörg og ólík vistkerfi finnast innan landamæra Kasakstan, stór hluti landsins eru gresjur, en einnig eru þar skóglendi, fjalllendi og eyðimörk svo dæmi séu nefnd.
Svo víðfeðmt land með jafn fjölbreytt landslag og gróður og raun ber vitni elur af sér fjölskrúðugt dýralíf. Talið er að í Kasakstan finnist alls 178 spendýrategundir, 489 tegundir fugla, 12 tegundir froskdýra, 49 tegundir skriðdýra og 104 tegundir fiska. Í stuttu svari á Vísindavefnum er ómögulegt að gera grein fyrir öllum þessum fjölbreytileika, þess í stað eru hér á eftir örfá dæmi um spendýr og fugla sem eiga heimkynni í Kasakstan.
Spendýr
Um 30 tegundir rándýra lifa í Kasakstan. Þar má til dæmis nefna túrkmenistan-gaupuna (Lynx lynx isabellinus, e. turkestan lynx) sem er undirtegund evrasísku gaupunnar og finnst meðal annars í Tian Shan-fjöllum á mótum Kasakstan, Kirgisistan, Úsbekistan og Xinjiang í Norðvestur-Kína. Samkvæmt Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN) finnast níu aðrar tegundir kattardýra í landinu. Auk smærri katta svo sem sandkattar (Felis margarita, e. sand cat) og asíska villikattarins (Felis lybica ornata, e. asiatic wildcat) sem báðir lifa á þurrum svæðum eða eyðimerkum, má nefna snæhlébarða (Panthera uncia, e. snow leopard) sem finnst meðal annars í Tian Shan-fjöllum og Altai-fjöllum.
Yfirvöld í Kasakstan hafa undanfarna áratugi lagt áherslu á verndun tegunda í hættu. Einn liður í því hefur verið að „endurreisa“ stofn turan-tígrísdýrsins eða kaspían-tígursins eins og hann er einnig kallaður (Panthera tigris virgata, e. Caspian tiger eða Turanian tiger) sem ekki hefur fundist á svæðinu síðan á fyrri hluta síðustu aldar. Verkefnið felur í sér að flytja síberíu-tígra, sem eru erfðafræðilega mjög skyldir turan-tígrinum, á Ile-Balkhash-verndarsvæðið í þeirri von að þar geti vaxið upp nýr stofn.
Snæhlébarðar Panthera uncia lifa í fjallendi í austurhluta Kasakstan. Fyrir lok síðustu aldar var staða þeirra orðin mjög viðkvæm í landinu. Í kjölfar aðgerða til að vernda stofninn hefur snæhlébörðum fjölgað úr 80-100 árið 1995 í allt að 180 árið 2023.
Af öðrum rándýrum má til að mynd nefna úlfa (Canis lupus) en áætlað er að þeir séu um 30 þúsund í Kasakstan og telst stofninn vera stöðugur. Úlfar finnast um nær allt landið frá skógunum í norðri til steppanna í suðri. Víða í landinu, sérstaklega í austurhlutanum, finnast brúnbirnir (Ursus arctos, e. brown bear). Bjarnarstofninn virðist vera á uppleið en samkvæmt mati frá 2023 taldi stofninn tæplega 3.600 dýr. Hins vegar er staða hins svokallaða tian shan-brúnbjarnar (Ursus arctos isabellinus, e. Himalayan brown bear eða Tien Shan brown bear), en það er deilitegund sem lifir í Tian Shan-fjalllendinu við landamæri Kína, mun verri. Talið er að innan við 300 dýr af þessari deilitegund finnist innan landamæra Kasakstan.
Saiga-antilópan (Saiga tatarica, e. saiga antelope) er dæmi um spendýrategund sem stóð mjög illa um tíma en hefur verulega rétt úr kútnum. Í kjölfar falls Sovétríkjanna ýttu efnahagsþrengingar, veikari náttúruvernd og opnun landamæra undir gríðarlega ofveiði og veiðiþjófnað, þar sem verið var að sækjast eftir kjöti til matar en ekki síður var mikil eftirspurn eftir hornum dýranna sem notuð eru í óhefðbundnar lækningar í Kína. Því til viðbótar herjuðu alvarlegir sjúkdómar á tegundina í byrjun 21. aldarinnar og fram undir 2015. Afleiðingarnar voru þær að stofninn dróst saman um hátt í 95%. Síðustu ár hefur dæmið hins vegar algjörlega snúist við, samkvæmt upplýsingum frá IUCN er talið að fjölgunin á tímabilinu 2015-2022 hafi verið 1100% og að nú séu rúmlega 1,3 milljónir saiga-antilópur í landinu.
Önnur tegund klaufdýra sem finnst á sléttum landsins er gasella sem á latinu kallast Gazella subgutturosa (e. goitered gazelle eða black-tailed gazelle) og hefur víða útbreiðslu í Mið-Asíu og allt austur til Kína. Þessi tegund minnir mjög á afrískar gasellur svo sem thomson-gaselluna og stökkbukka. Þrátt fyrir að finnast á nokkuð stóru svæði hefur tegundinni hrakað á undanförnum árum og er nú talin vera í nokkurri hættu samkvæmt válista IUCN.
Ónagri (Equus hemionus kulan) er dæmi um dýrategund sem var útdauð í Kasakstan en hefur verið „endurreist“ á síðustu áratugum.
Svo má nefna ónagra eða gresjuhestinn (Equus hemionus kulan, e. Turkmenian kulan eða Turkmenistani onager). Þessi náfrændi hests og asna var útdauður í landinu á fyrri hluta síðustu aldar en síðustu áratugi hefur verið unnið að því að koma upp villtum stofni að nýju í Kasakstan. Endurreisnin gengur nokkuð vel og er talið er að nú séu um 4000 ónagar í landinu.
Fuglar
Af þeim tæplega 500 fuglum sem eiga heimkynna í Kasakstan verður að nefna steppuörninn (Aquila nipalensis, e. steppe eagle) sem dæmi, enda prýðir hann meðal annars fána landsins. Hann er einkennisfugl gresjanna í Kasakstan þar sem hann lifir aðallega á smáum spendýrum. Meira en helmingur af heimsstofni steppuarnarins verpir í Kasakstan.
Segja má að steppuörninn (Aquila nipalensis) sé þjóðarfugl Kasakstan þar sem hann er meðal annars að finna á fána landsins.
Önnur tegund sem finnst á steppum landsins er trölladúðra (Otis tarda, e. great bustard). Trölladúðran telst vera meðal þyngstu fugla og geta karlfuglarnir (sem eru mun stærri en kvenfuglarnir) orðið um eða yfir 15 kg. Stofn trölladúðru hefur hnignað verulega í Kasakstan og öðrum svæðum í Mið-Asíu en haldist sterkur víða annars staðar. Talið er að heimsstofninn sé um 47 þúsund fuglar og finnst um helmingur heimsstofnsins á Spáni. Enn annar tignarlegur fugl sem finnst á steppum Kasakstan er meyjartranan (Grus virgo, e. demoiselle crane). Þetta er ein fimmtán tegunda trana í heiminum og verpir hún á steppusvæðum á milli Kaspíahafs og Mongólíu.
Eins og sagði í upphafi eru hér aðeins nefnd fáein dæmi af því fjölskrúðuga dýralífi sem finnst innan landamæra Kasakstan. Í heimildalistanum hér fyrir neðan er hægt að lesa meira um þessi dýr og fleiri til.
Heimildir og frekari fróðleikur:
Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýralíf er í Kasakstan?“ Vísindavefurinn, 22. apríl 2025, sótt 22. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87525.
Jón Már Halldórsson. (2025, 22. apríl). Hvers konar dýralíf er í Kasakstan? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87525
Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýralíf er í Kasakstan?“ Vísindavefurinn. 22. apr. 2025. Vefsíða. 22. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87525>.