Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ísland er eldfjallaeyja í stöðugri myndun á miðjum Atlandshafshryggnum þar sem tveir flekar færast í sundur. Þó að landið sé ungt að aldri miðað við heimsálfurnar hvoru megin við, hefur það verið að myndast í tugi milljóna ára.[1]Elstu jarðmyndanir á landi eru um 13-16 milljón ára á norðvesturlandi og allra austast, en eldra land er sokkið í sjó. Því mætti ætla að lífverur eins og köngulær hafi getað numið hér land á tímabili sem spannar margar milljónir ára. Og það er nær örugglega rétt. Hins vegar er talið að nánast allt líf á Íslandi hafi þurrkast út á ísöldunum fyrir um 70-10 þúsund árum síðan[2] og þar með væntanlega allar tegundir köngulóa.[3]
Ýmsar kenningar eru uppi um landnám íslenskra lífvera. Ein gerir ráð fyrir landnámi yfir landbrýr sem hugsanlega tengdu Grænland og Ísland við meginland Evrópu.[4] Önnur gengur út á að hér hafi þrifist eitthvað líf á meðan ísöldum stóð, á svæðum sem stóðu upp úr ísnum. Sú kenning kallast Nunatak-kenningin[5] en orðið nunatak kemur úr grænlensku og er alþjóðaorð fyrir jökulsker. Þessar kenningar hafa hins vegar verið dregnar í efa af nýlegri rannsóknum.[6] Í fyrsta lagi eru ekki til góð jarðfræðigögn sem benda til tilvistar landbrúa. Í öðru lagi var það land sem hugsanlega stóð upp úr ísnum að líkindum einstaklega harðbýlt og ólíklegt að þar hafi nokkurt líf þrifist. Í þriðja lagi benda erfðafræðirannsóknir til þess að íslenskar plöntur og dýr séu náskyld sömu tegundum í nágrannalöndunum og hafi komist hingað mjög nýlega.[7] Eina þekkta undantekningin um lífverur sem hér hafa þrifist á ísaldarskeiðum eru tvær tegundir marflóa sem lifa í jarðvatni.[8] Einnig má telja líklegt að örverur eins og bakteríur hafi lifað hér af bæði í jarðvatni sem og á hverasvæðum, þar sem hiti var viðvarandi undir ís. En líklegt er að nánast allar aðrar lífverur landsins hafi numið land eftir ísaldarskeiðin.
Líklegt er talið að nánast allar lífverur landsins, fyrir utan tvær tegundir marflóa og örverur eins og bakteríur, hafi numið land á Íslandi eftir ísaldarskeiðin.
Íslenska köngulóafánan samanstendur því af 'nýjum' landnemum sem hingað hafa komið síðustu 10-12 þúsund árin.[9] Almennt er talið að landnám smádýra tengist sjóstraumum að einhverju leyti og svo ríkjandi vindáttum.[10] Við lok ísalda rann sjór frá austanverðu Atlantshafi, svo sem frá Noregsströndum til Íslands. Skordýrafræðingurinn Buckland og samstarfsmenn hans leggja til að uppruni ýmissa smádýra sé einmitt frá Noregi og hluti þeirra hafi komið með rekís þöktum einhverjum gróðri. Líffræðingurinn Agnar Ingólfsson benti á að dýr í grýttum fjörum á Íslandi eru hluti þeirra fjörudýra sem finnast í vesturhluta Noregs. Hér eru sömu tegundir en þó mun færri. Leiddi hann líkur að því að fjörudýrin hafi því einnig numið land á Íslandi tiltölulega snemma eftir að síðasta ísaldartímabili lauk og borist með sjóstraumum, fljótandi þangi og jafnvel rekís.[11] Köngulær hafa eflaust borist með þessum leiðum til landsins strax eftir ísaldartímabil. Skordýr sem geta flogið hafa einnig numið hér land rétt eins og fuglar. Slík dýr hafa numið land víða að en þó koma flestar tegundir flugdýra einnig frá vesturströnd Skandinavíu eða Bretlandseyjum, það er nálægu landi úr austri. Í þessu samhengi er athyglisvert að 99% íslenskra köngulóa sem lifa í náttúrunni og því ekki háðar manninum, er einmitt einnig að finna í Skandinavíu en það styður að þaðan hafi þær flestar borist.[12]
Köngulær eru auðvitað vænglausar en búa þó yfir leiðum til að berast með lofstraumum. Fjöldi köngulóategunda dreifir sér með hinni svokölluðu loftbelgs-aðferð (e. ballooning). Hún felst í því að köngulærnar senda silkiþræði út frá spunavörtum í hagstæðu loftstreymi og vindurinn ber þær á loft, ef til vill með aðstoð rafsviðs. Þannig geta þær borist hátt upp í skotvinda (e. jet stream) og jafnvel dreifst um allan heim.[13] Köngulær hafa fundist í skotvindum í allt að 5 km hæð og mörg dæmi eru þekkt um að þær lendi á skipum á hafi úti. Sumar gerðir köngulóa eru þannig með þeim lífverum sem hvað fyrst berast til nýrra eyja. Frábært dæmi um þetta er að meðal fyrstu lífvera sem sáust í Surtsey skömmu eftir að hún reis úr hafi 1967 voru einmitt köngulær.[14] Til Surtseyjar bárust einnig ýmis smádýr með fljótandi gróðri (e. tussock) og líklega bárust köngulær þannig bæði til Surtseyjar sem og til Íslands frá Noregi. Ein tegund íslenskra köngulóa kemur þó ekki frá Evrópu en Islandiana princeps sem hér lifir finnst eingöngu vestanhafs. Líklegt er að þessi tegund hafi borist með vindum úr Vesturheimi. Langflestar tegundir íslenskra köngulóa (73%) eru af voðköngulóarætt (Linyphiidae) en loftbelgsflug er einmitt sérstaklega einkennandi fyrir þessa ætt. Tegundir hennar eru langoftast smávaxnar og geta því borist með silki sem fullorðin dýr. Það auðveldar að sjálfsögðu landnám þeirra á eyjum.
Pardosa-úlfakönguló að undirbúa loftbelgsflug.
En námu allar köngulær Ísland strax eftir ísöld? Það er ólíklegt. Fjöldi tegunda hefur eflaust borist hingað snemma eftir ísöld en gögn benda til þess að landnám köngulóa eigi sér enn stað. Til dæmis er flestra íslenskra köngulóa, jafnvel tiltölulega sjaldgæfra tegunda, getið í riti Danans Jens Brændegård frá 1958. Þar vantar þó nokkrar tegundir sem nú eru mjög algengar hér, til dæmis Latithorax faustus, Centromerita bicolor og Bathyphantes gracilis.[15] Það má því leiða að því líkur að þessar tegundir hafi numið land á síðustu áratugum. Einnig hafa örfáar tegundir fundist í fyrsta skipti eftir rannsóknir sem birtust 1996[16] sem gæti gefið vísbendingar um að enn séu köngulær að berast hingað með loftstraumum og nema land í kjölfarið.
Af þeim rúmlega hundrað tegundum köngulóa sem safnað hefur verið á Íslandi teljast allnokkrar ekki til íslenskra tegunda. Til dæmis hafa að minnsta kosti 13 tegundir borist með innfluttum varningi og halda áfram að berast hingað án þess að nema land. Sumar aðrar tegundir sem hafa borist með manninum hafa hins vegar náð fótfestu og má telja 'íslenskar' þar sem þær eru líklega komnar til að vera. Í heildina eru því þekktar um 90 íslenskar tegundir en þar af eru sumar bundnar við gróðurhús, svo sem Zygiella x-notana og Ostearius malanopygius. Aðrar finnast eingöngu í húsakynnum eins og Pholcus phalangioides og nokkrar tegundir af ættkvíslinni Tegenaria. Tæplega 80 tegundir lifa í íslenskri náttúru. Líklegt er að einhverjar þeirra hafi borist með mönnum en erfitt er að staðfesta slíkt.
Samantekt:
Rúmlega hundrað tegundir köngulóa hafa fundist á Íslandi. Mjög ólíklegt er að einhverjar þeirra hafi lifað af ísaldirnar heldur hafi þær numið land á Íslandi á síðustu 10 til 12 þúsund árum. Áhrif mannsins á dreifingu köngulóa eru augljós með innfluttum varningi sem þær hafa slæðst með auk tegunda sem eru háðar manninum um búsetu. Af þeim sem finnast í íslenskri náttúru er langflestar einnig í Skandinavíu og hafa líklega flestar borist þaðan með loftbelgsflugi eða gróðri. Landnám íslenskra köngulóa stendur enn og líklega hafa allnokkrar tegundir numið hér land upp á eigin spýtur síðustu áratugi. Þar spila loftlagsbreytingar eflaust inn í en hlýnandi veðurfar gerir nú fleiri norrænum tegundum kost á því að spreyta sig hér.
Tilvísanir:
Bell JR, Bohan DA, Shaw EM, Weyman GS. 2005. Ballooning dispersal using silk: world fauna, phylogenies, genetics and models. Bulletin of Entomological Research 95: 69-114.
Blytt A. 1882. Die Theorie der wechselnden konti-nentalen und insularen Klimate. Englers Botanische Jahrbücher 2: 1–50.
Blytt A. 1893. Zur Geschichte der nordeuropäischenFlora: Englers Botanische Jahrbücher 17, Beiblatt 41:1–30.
Brændegård 1958. Araneida. The Zoology of Iceland 3 (54). 113 bls.
Buckland PC, Perry D, Gislason GM, Dugmore AJ. 1986. The pre-Landnam fauna of Iceland: a palaeontological contribution. Boreas 15: 173-184.
Ingólfsson A. 1992. The origin of the rocky shore fauna of Iceland and the Canadian Maritimes. Journal of Biogeography 19: 705-712.
Kornobis E, Pálsson S, Kristjánsson BK, Svavarsson J. 2010. Molecular evidence of the survival of subterranean amphipods (Arthropoda) during Ice Age underneath glaciers in Iceland. Molecular ecology 19: 2516-2530.
Nordhagen R. 1963. Recent discoveries in the South Norwegian flora and their significance for the understanding of the history of the Scandinavian mountain flora during and after the last glaciation. North Atlantic Biota and their History (ed. by A. Löve and D. Löve), 241–260. Pergamon Press, Oxford.
Ólafsson E. 1978. The development of the land-arthropod fauna on Surtsey, Iceland, during 1971-1976 with notes on terrestrial Oligochaeta. Surtsey Research 8: 41-46.
Panagiotakopulu E. 2014. Hitchhiking across the North Atlantic–Insect immigrants, origins, introductions and extinctions. Quaternary International 341: 59-68.
Panagiotakopulu E, Sadler JP. 2021. Biogeography in the Sub-Arctic: The Past and Future of North Atlantic Biotas. Wiley.
Rundgren S. 2007. Glacial survival, post-glacial immigration, and a millennium of human impact: On search for a biogeography of Iceland. Insect Systematics & Evolution 64: 5-44.
Steindórsson S. 1963. Ice age refugia in Iceland as in-dicated by the present distribution of plant species. North Atlantic Biota and their History (eds. by A.Löve and D. Löve), 303–320. Pergamon Press, Oxford.
Ingi Agnarsson. „Hversu lengi hafa köngulær verið á Íslandi og hvernig komust þær hingað?“ Vísindavefurinn, 28. nóvember 2023, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85849.
Ingi Agnarsson. (2023, 28. nóvember). Hversu lengi hafa köngulær verið á Íslandi og hvernig komust þær hingað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85849
Ingi Agnarsson. „Hversu lengi hafa köngulær verið á Íslandi og hvernig komust þær hingað?“ Vísindavefurinn. 28. nóv. 2023. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85849>.