Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig myndaðist Mið-Atlantshafshryggurinn?

Sigurður Steinþórsson

Mið-Atlantshafshryggurinn myndaðist við það að risameginlandið Pangæa klofnaði, Norður- og Suður-Ameríka skildust frá Evrasíu og Afríku. Þetta var flókið ferli sem hófst á júra-tímabilinu, fyrir um 170 milljónum ára. Þegar skorpufleka rekur í sundur, myndast hafsbotn á milli — (Ísland er undantekning, „hafsbotn ofansjávar“ vegna þess að möttulstrókur lyftir skorpunni staðbundið) — og sama gerðist þegar Pangæa klofnaði.

Aldur hafsbotnsins í milljónum ára.

Á myndinni má sjá aldur hinna ýmsu hluta skorpunnar undir Atlantshafi og út frá því rekja myndunarsögu hennar. Elst (fjólublátt, um 170 m.á.) er skorpan við NV-strönd Afríku og austurströnd Bandaríkjanna — fyrst klofnaði N-Ameríka frá NV-Afríku; næst opnaðist haf úr suðri milli S-Ameríku og Afríku (blátt-ljósblátt-grænt, um 130 m.á. syðst, 90 m.á. nyrst), og í framhaldi af því lengdist Atlantshaf til norðurs, fyrst þegar Labradorhaf og Davissund klufu Grænland frá meginlandi N-Ameríku (70 m.á.) og síðan þegar N-Ameríkuflekann tók að reka frá NV-Evrasíuflekanum fyrir 60 m.á.

Þegar 40 km þykkur meginlandsfleki klofnar veldur þrýstiléttir í heitum jarðmöttlinum fyrir neðan því að möttulefnið bráðnar að hluta og basaltbráð myndast sem fyllir upp bilið milli flekanna tveggja með hafsbotnsskorpu. Í framhaldinu, eftir því sem bilið milli meginlandanna vex, veldur gliðnun hafsbotnsskorpunnar sjálfrar bráðnun sem yfirleitt nægir til að mynda um 7 km þykka basaltskorpu. Hin nýmyndaða skorpa er um 1200°C heit og möttullinn undir ennþá heitari, en með tímanum kólnar bergið ofan frá og dregst saman — því eldri sem skorpan er, þeim mun dýpri er sjórinn yfir henni. Kólnunin og dýpkunin er hröðust næst eldvirka svæðinu en hægist á henni eftir því sem fjær dregur — þess vegna er réttmætt að kalla fyrirbærið „hrygg“.

Þess má að lokum geta að hryggur í miðju norðanverðu Atlantshafi „fannst“ fyrst upp úr 1850 þegar verið var að undirbúa lagningu fyrsta sæstrengsins yfir Atlantshaf, frá Írlandi til Nýfundnalands, og árið 1872 var ljóst orðið að hryggur lægi eftir miðju Atlantshafi frá norðri til suðurs — hann telst nú vera 16.000 km langur. Á 6. áratug síðustu aldar voru hafsbotnar jarðar kortlagðir og þá kom í ljós að Atlantshafshryggurinn er hluti af 40.000 km löngu hryggjakerfi sem liggur um öll höf. Og 1964 kom botnskriðskenningin fram: að hafsbotnarnir gliðni um miðhafshryggina (sjá um botnskriðskenninguna í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?).

Mynd:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

15.12.2020

Spyrjandi

Alex Bjarki Þórisson

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndaðist Mið-Atlantshafshryggurinn?“ Vísindavefurinn, 15. desember 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78184.

Sigurður Steinþórsson. (2020, 15. desember). Hvernig myndaðist Mið-Atlantshafshryggurinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78184

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndaðist Mið-Atlantshafshryggurinn?“ Vísindavefurinn. 15. des. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78184>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig myndaðist Mið-Atlantshafshryggurinn?
Mið-Atlantshafshryggurinn myndaðist við það að risameginlandið Pangæa klofnaði, Norður- og Suður-Ameríka skildust frá Evrasíu og Afríku. Þetta var flókið ferli sem hófst á júra-tímabilinu, fyrir um 170 milljónum ára. Þegar skorpufleka rekur í sundur, myndast hafsbotn á milli — (Ísland er undantekning, „hafsbotn ofansjávar“ vegna þess að möttulstrókur lyftir skorpunni staðbundið) — og sama gerðist þegar Pangæa klofnaði.

Aldur hafsbotnsins í milljónum ára.

Á myndinni má sjá aldur hinna ýmsu hluta skorpunnar undir Atlantshafi og út frá því rekja myndunarsögu hennar. Elst (fjólublátt, um 170 m.á.) er skorpan við NV-strönd Afríku og austurströnd Bandaríkjanna — fyrst klofnaði N-Ameríka frá NV-Afríku; næst opnaðist haf úr suðri milli S-Ameríku og Afríku (blátt-ljósblátt-grænt, um 130 m.á. syðst, 90 m.á. nyrst), og í framhaldi af því lengdist Atlantshaf til norðurs, fyrst þegar Labradorhaf og Davissund klufu Grænland frá meginlandi N-Ameríku (70 m.á.) og síðan þegar N-Ameríkuflekann tók að reka frá NV-Evrasíuflekanum fyrir 60 m.á.

Þegar 40 km þykkur meginlandsfleki klofnar veldur þrýstiléttir í heitum jarðmöttlinum fyrir neðan því að möttulefnið bráðnar að hluta og basaltbráð myndast sem fyllir upp bilið milli flekanna tveggja með hafsbotnsskorpu. Í framhaldinu, eftir því sem bilið milli meginlandanna vex, veldur gliðnun hafsbotnsskorpunnar sjálfrar bráðnun sem yfirleitt nægir til að mynda um 7 km þykka basaltskorpu. Hin nýmyndaða skorpa er um 1200°C heit og möttullinn undir ennþá heitari, en með tímanum kólnar bergið ofan frá og dregst saman — því eldri sem skorpan er, þeim mun dýpri er sjórinn yfir henni. Kólnunin og dýpkunin er hröðust næst eldvirka svæðinu en hægist á henni eftir því sem fjær dregur — þess vegna er réttmætt að kalla fyrirbærið „hrygg“.

Þess má að lokum geta að hryggur í miðju norðanverðu Atlantshafi „fannst“ fyrst upp úr 1850 þegar verið var að undirbúa lagningu fyrsta sæstrengsins yfir Atlantshaf, frá Írlandi til Nýfundnalands, og árið 1872 var ljóst orðið að hryggur lægi eftir miðju Atlantshafi frá norðri til suðurs — hann telst nú vera 16.000 km langur. Á 6. áratug síðustu aldar voru hafsbotnar jarðar kortlagðir og þá kom í ljós að Atlantshafshryggurinn er hluti af 40.000 km löngu hryggjakerfi sem liggur um öll höf. Og 1964 kom botnskriðskenningin fram: að hafsbotnarnir gliðni um miðhafshryggina (sjá um botnskriðskenninguna í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?).

Mynd:...