Margir kvarta undan því að vaxtakostnaður þeirra hækki með hækkun stýrivaxta. Spurning mín er: Ef ég borga hærri vexti í dag en í gær vegna hækkunar stýrivaxta, hvar lendir þá það fé sem nemur hækkuninni? Sem sagt: hver hagnast?Það er tiltölulega flókið að rekja allar afleiðingar stýrivaxtabreytinga og verður ekki reynt hér. Þó er hægt að nefna nokkur atriði. Seðlabankinn beitir stýrivöxtum fyrst og fremst til að ná verðbólgumarkmiði sínu, það er 2,5% verðbólgu. Hækkun stýrivaxta dregur úr eftirspurn í hagkerfinu, bæði vegna neyslu og fjárfestinga. Hærri vextir hvetja jafnframt til sparnaðar. Auk þess getur hækkun stýrivaxta haft áhrif á gengi krónunnar, til styrkingar. Allt spornar þetta gegn verðbólgu. Það er auðvitað hagsmunamál flestra að vinna bug á verðbólgu, til dæmis launþega sem sjá þá síður kaupmátt launa sinna brenna upp á verðbólgubálinu. Þannig njóta margir góðs af hækkun stýrivaxta vegna þess að þeir verða þá síður fyrir tjóni vegna verðbólgu. Þetta er þó auðvitað ekki öll sagan. Þeir sem eru með lán geta horft fram á lakari lánskjör, það er hærri vexti, ef stýrivextir eru hækkaðir. Hækkun stýrivaxta skilar sér almennt í hærri útlánsvöxtum þótt það gerist með ýmiss konar rykkjum og skrykkjum. Sum lán eru með föstum vöxtum, önnur með breytilegum og þau síðarnefndu eru með ýmsum útfærslum. Þá eru sum lán verðtryggð og önnur óverðtryggð og stýrivextir hafa miklu minni áhrif á vaxtakjör á þeim fyrrnefndu. Almennt er þó hægt að gera ráð fyrir að hækkun stýrivaxta sé ekki fagnaðarefni fyrir þá sem skulda. Á móti kemur svo vitaskuld að aðrir eiga ýmiss konar vaxtaberandi eignir, svo sem innlán og skuldabréf. Hækkun stýrivaxta er jákvæðari frá þeirra sjónarhóli. Skuldabréfaeigendur geta þó tapað á hækkun stýrivaxta ef skuldabréfin sem þeir eiga eru með föstum vöxtum. Þeir sem kaupa ný skuldabréf fá hins vegar líklega hærri vexti á þau þegar stýrivextir eru háir. Til að flækja málið enn frekar þá er rétt að hafa í huga að vexti má skoða sem annað hvort nafnvexti eða raunvexti. Nafnvextir skipta mestu fyrir greiðslubyrði lána en raunvextir meiru að öðru leyti. Ef verðbólga rýkur allt í einu upp og Seðlabankinn bregst við með því að hækka stýrivexti getur vel verið að raunvextir séu engu að síður neikvæðir. Þá rýrna að raunvirði bæði innlán og útlán sem eru með það lágum nafnvöxtum að þeir halda ekki í við verðbólguna. Þetta gerðist til dæmis árið 2022, þá hækkaði Seðlabankinn ítrekað stýrivexti sína en þeir voru mun lægri en verðbólga. Innlánsvextir banka fóru líka hækkandi á þessum tíma en þeir voru lægri en stýrivextirnir og því langt frá því að halda í við verðbólguna. Innstæður brunnu því upp á verðbólgubálinu, þótt stýrivextir færu hækkandi en hækkun stýrivaxtanna hægði aðeins á brunanum og var auðvitað ætla að slökkva verðbólgubálið. Á sama tíma hækkuðu vextir á útlánum, bæði nýjum útlánum og áður veittum lánum sem voru með breytilegum vöxtum. Það var auðvitað ekki fagnaðarefni fyrir lántakendur, m.a. vegna þess að greiðslubyrði lána þeirra þyngdist, en mörg lánanna voru engu að síður ekki með háum raunvöxtum, jafnvel neikvæðum. Til að átta sig á áhrifum á lántakendur og lánveitendur til fulls verður svo að taka tillit til þess að þetta er að uppistöðu til sama fólkið! Útlendingar eiga ekki mikið af skuldabréfum eða innlánum í krónum og gera nánast ekkert af því að taka lán í íslenskum krónum. Það eru því Íslendingar sem lána hver öðrum krónur. Reikningurinn fyrir vexti í krónum fer því ekki út fyrir landsteinana.
Hver hagnast þegar stýrivextir hækka?
Útgáfudagur
13.11.2023
Spyrjandi
Einar Ólafsson
Tilvísun
Gylfi Magnússon. „Hver hagnast þegar stýrivextir hækka?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2023, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85758.
Gylfi Magnússon. (2023, 13. nóvember). Hver hagnast þegar stýrivextir hækka? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85758
Gylfi Magnússon. „Hver hagnast þegar stýrivextir hækka?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2023. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85758>.