Á Íslandi eru stýrivextir nú þeir vextir sem Seðlabanki Íslands býður innlánsstofnunum þegar þær fá lán í 7 daga gegn veði í skuldabréfum. Þegar þetta er ritað, í lok maí 2008, eru stýrivextir 15,5%. Áður voru stýrivextir þeir vextir sem bankinn bauð í svokölluðum endurhverfum verðbréfaviðskiptum, þegar hann keypti af innlánsstofnunum skuldabréf og samdi um leið um að selja þeim sömu bréf aftur eftir tiltekinn tíma. Það er í raun fyrst og fremst formsatriði hvort rætt er um endurhverf verðbréfaviðskipti eða lán gegn veði, í báðum tilfellum fær lántakinn lán gegn því að leggja fram skuldabréf. Seðlabankinn býður innlendum fjármálafyrirtækjum einnig upp á önnur lánsform, til dæmis lán til eins dags, og upp á innlán. Vextir í þeim viðskiptum taka alla jafna náið mið af stýrivöxtum. Krefjist Seðlabankinn hárra vaxta í útlánum til annarra innlendra fjármálafyrirtæki, þá sjá þau sér síður hag í að taka lán með þessum hætti. Þá hafa þau minna fé til að lána öðrum og þar með hækka vextir almennt. Ef Seðlabankinn hins vegar krefst lágra vaxta þá fá önnur innlend fjármálafyrirtæki aðgang að ódýrara lánsfé en ella. Þá geta þau boðið öðrum hagstæðari kjör og þar með lækka vextir almennt. Sjá einnig:
- Hvert er hlutverk seðlabankastjóra? eftir Gylfa Magnússon
- Hvenær var gengið síðast fellt á Íslandi og í hvaða tilgangi var það? eftir Gylfa Magnússon
- Hvers vegna ýtir flæði erlends fjármagns inn til landsins undir styrkingu krónunnar? eftir Gylfa Magnússon
- Hvert er gengi krónunnar? eftir EDS
- Hvað er gullfótur og hverjir eru kostir hans og gallar? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað er átt við með fljótandi gengi? eftir Gylfa Magnússon
- Fyrir hverja og hvaða fjármagn gildir sú ákvörðun, þegar Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um vexti? eftir Gylfa Magnússon
- Fjármálaráðuneytið. Sótt 30.5.2008.
Sigurbjörn Friðriksson, Guðmundur Pálsson, Andrés Bjarnason, Dagný Ósk, Brynjólfur Sveinsson, Árný Jóhannesdóttir, Þura Garðarsdóttir, Árni Þór Finnsson, Brynja Guðjónsdóttir, Skúli Gautason, Kristján Guðmundsson, Ólafur Ágúst og Kristján Guðmundsson.