Frá 1870 til 1914 voru allir helstu gjaldmiðlar heims með fast gengi. Það byggðist á gulli. Á bak við hvern gjaldmiðil var loforð útgefandans um að skipta seðlunum út fyrir gull ef þess væri óskað, í tilteknum hlutföllum. Sagt var að þessir gjaldmiðlar væru á gullfæti. Vegna þessa áttu seðlabankar heims mikinn gullforða. Við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar brotnaði þetta kerfi niður. Eftir síðari heimsstyrjöldina var aftur reynt að koma á alþjóðlegu fastgengiskerfi. Það byggði óbeint á gulli, því að gengi allra helstu gjaldmiðla var fest gagnvart Bandaríkjadollar, sem var á gullfæti. Þetta kerfi liðaðist smám saman í sundur á sjöunda áratug síðustu aldar. Árið 1971 gáfust Bandaríkjamenn upp á gullfætinum og í kjölfarið var horfið endanlega frá þessu alþjóðlega fastgengiskerfi. Víðtækasta fastgengiskerfi heims er nú á vegum Evrópusambandsins. Í aðdraganda þess að evran var tekin í notkun í ársbyrjun 1999 var víðtækt samstarf í gengismálum innan Evrópusambandsins. Þau núverandi eða tilvonandi Evrópusambandslönd sem nú stefna að því að taka upp evruna byrja á því að halda gengi gjaldmiðils síns nokkuð föstu gagnvart evrunni. Síðan er gengið fest alveg og loks tekin upp evra. Nú eru allmörg lönd í Austur-Evrópu í þessu ferli og er miðað við að þau taki upp evru á næstu árum. Þrjú lönd í Evrópusambandinu hafa hins vegar engar áætlanir um að taka upp evru, Bretland, Danmörk og Svíþjóð. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er gullfótur og hverjir eru kostir hans og gallar? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað er framvirkt gengi og hvernig tengist það vörðu og óvörðu vaxtajafngildi? eftir Gylfa Magnússon
- Hvers vegna er munur á kaup- og sölugengi gjaldmiðla? eftir Gylfa Magnússon
- Strategic Financial Control. Sótt 3.4.2008.
Nú er mikið talað um að krónan hafi verið sett á „flot“ og að íslenska krónan sé „flotgjaldmiðill“. Hvað meina menn með þessu?