
Apabóla er sjaldgæfur smitsjúkdómur sem er landlægur í nokkrum löndum mið- og vesturhluta Afríku. Dökkrauði liturinn á heimskortinu sýnir staðfest tilvik WAC-hóps apabólu þann 13.6.2022.
Hvernig er sjúkdómsferli þeirra sem sýkjast af apabólu?
Ef einkenni koma fram má skipta sjúkdómsferli apabólu í fjóra hluta til einföldunar: meðgöngutíma, hitafasa, útbrotafasa og batafasa. Eftir að einstaklingur hefur smitast af MPX tekur vanalega um 5-14 daga fyrir einkenni að koma fram (þetta kallast meðgöngutíminn). Hins vegar getur meðgöngutíminn náð alveg upp í 21 dag. Í kjölfarið á meðgöngutímanum kemur hitafasinn fram. Þessi fasi einkennist af ósértækum einkennum veirusýkingar á borð við hita, eitlastækkanir, slappleika og þreytu. Hiti er með algengustu einkennum apabólu; hins vegar er talið að um 15-20% þeirra sem fá apabólu greinist aldrei með hita. Eitlastækkanir, sérstaklega á hálsi, eru gagnlegar til að greina apabólu frá til dæmis hlaupabólu og mislingum. Hitafasinn varir gjarnan í 1-4 daga en síðan koma útbrotin fram sem einkenna útbrotafasann. Þessi útbrot eru langsamlega algengasta birtingarform apabólu og koma fram í 95-100% tilfella. Útbrotin byrja sem rauðleitir, flatir blettir á húð sem þróast síðan á eftirfarandi máta: upphleyptir blettir, blöðrur með tærum vökva, blöðrur með greftri, opin sár, sár með skán sem síðan fellur af, heilbrigð húð grær yfir. Útbrotin byrja gjarnan (en ekki alltaf) á andliti og dreifast þaðan yfir á líkama og útlimi. Einnig eru útbrotin oftast á svipuðum stað í þroska. Útbrot geta einnig myndast á slímhúðum, til dæmis í munni, endaþarmi og á kynfærum.
Útbrot eru langsamlega algengasta birtingarform apabólu og koma fram í 95-100% tilfella.
Er hægt að deyja af apabólu?
Hlutfall þeirra sem greinast með apabólu og deyja (e. case fatality ratio, CFR) hefur almennt verið erfitt að meta, enda ekki að fullu ljóst að við séum að grípa öll tilfelli hverju sinni. Einnig skiptir gerð MPX máli: besta mat á CFR fyrir tilfelli vegna WAC-veira er í kringum 1% en 10% fyrir tilfelli vegna CAC-veira. Hins vegar eru þessar tölur fengnar úr löndum þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu, næringu og hreinu vatni er oft verulega ábótavant.Af hverju fara tilfelli apabólu nú vaxandi?
Þrátt fyrir að vera almennt sjaldgæfur sjúkdómur hefur algengi apabólu farið stigvaxandi síðustu ár af margþættum orsökum; hugsanlegar orsakir eru meðal annars eyðing skóga, loftslagsbreytingar, stríð, fólksflutningar og minnkandi ónæmi gegn bólusótt eftir útrýmingu sjúkdómsins. Þannig hefur lengi verið búist við því að þessi smitsjúkdómur nái frekari dreifingu utan Afríku, auk þess að algengið fari vaxandi innan þeirra landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Fyrir árið 2022 höfðu innflutt tilfelli apabólu ásamt takmarkaðri dreifingu manna á milli aðeins greinst í fjórum löndum: Ísrael, Singapúr, Bretlandi og Bandaríkjunum.Hvernig berst apabóla til manna og af hverju heitir sjúkdómurinn þessu nafni?
Það er mjög mikilvægt að undirstrika að apabóla berst sjaldan til manna frá öpum. Af hverju er þá vísað í apa í nafni sjúkdómsins (og veirunnar)? Ástæðan er einfaldlega sú að apabóla greindist fyrst í öpum á rannsóknarstofu árið 1958. Margskonar nagdýr eru hýsildýr veirunnar, og þaðan getur veiran borist til bæði apa og manna. Eftir að einstaklingur hefur sýkst af MPX og sjúkdómur hefur komið fram getur veiran smitast milli manna með nokkrum leiðum: með dropasmiti (mögulega úðasmiti) frá öndunarfærum, snertismiti (útbrotin sjálf eru mest smitandi hluti af apabólu) eða með svonefndum fómítum (hlutir í umhverfi sem smitefni berst á). Til dæmis er vel þekkt að apabóla dreifist með smituðum rúmfötum. Hins vegar hefur dreifing manna á milli almennt verið lítil og nokkuð auðveld að hafa hemil á með viðeigandi smitvörnum. Dreifing manna á milli í núverandi faraldri er með sömu leiðum og áður - þó er athyglisvert að stór hluti tilfella er í karlmönnum sem sofa hjá karlmönnum (e. men who have sex with men, MSM). Talið er að leiðandi orsök fyrir þessu sé sú að smit barst fyrir tilviljun inn í hóp MSM, og dreifðist síðan með þeirri náinni snertingu sem fylgir kynlífi. Frekari rannsóknir á eðli dreifingarinnar í þessum faraldri eru í gangi. Þannig er mikilvægt að undirstrika að allir geta fengið apabólu og náið samneyti manna á milli dugar eitt sér til að smitast. Einstaklingur með apabólu er talinn hætta að smita þegar heilbrigð húð hefur gróið yfir öll fyrri sár. Heimildir:- World Health Organization. (2022, 21. maí). Multi-country monkeypox outbreak in non-endemic countries. (Sótt 13.6.2022).
- BBC. (2022, 24. maí). Monkeypox: Cases detected in three more countries for first time. (Sótt 13.6.2022).
- ProMED. (2022, 13. júní). Monkeypox -Africa (09): Central African Region. (Sótt 13.6.2022).
- World Health Organization. (2021). Monkeypox: Epidemiology, preparedness and response for African outbreak contexts. (Sótt 13.6.2022).
- World Health Organization (2022, 19. maí). Monkeypox. (Sótt 13.6.2022).
- Sklenovská, N. og Van Ranst, M. (2018) Emergence of Monkeypox as the Most Important Orthopoxvirus Infection in Humans. Front. Public Health 6:241. (Sótt 13.6.2022).
- European Medicines Agency. (2022, 28. janúar). Tecovirimat SIGA. (Sótt 13.6.2022).
- Isaacs, Stuart N. (2022, 10. júní). Monkeypox. UpToDate. (Sótt 13.6.2022).
- European Medicines Agency. (2020, 27. maí). Imvanex. (Sótt 13.6.2022).
- U.S. Food & Drug Administration. (2021, 21. júní). JYNNEOS. (Sótt 13.6.2022).
- U.S. Food & Drug Administration. (2019, 13. desember). ACAM2000. (Sótt 13.6.2022).
- ICTV. (2021, júlí). Poxviridae - dsDNA Viruses - dsDNA Viruses (2011). (Sótt 13.6.2022).
- ViralZone. (2014). Orthopoxvirus. (Sótt 13.6.2022).
- CDC. (2022, 7. júní). Monkeypox - Poxvirus. (Sótt 13.6.2022).
- CDC. (2017, 12. júlí). Vaccine Basics - Smallpox. (Sótt 13.6.2022).
- Metzger, W. (2007, júlí). Vaccines for preventing smallpox. PMC. (Sótt 13.6.2022).
- Monkeypox. (Sótt 13.06.2022).
- File:Monkeypox By Country.svg - Wikimedia Commons. (Sótt 13.06.2022).