Af hverju eykst algengi apabólu með minnkandi ónæmi gegn bólusótt?Apabóla er sjaldgæfur smitsjúkdómur sem er landlægur í nokkrum löndum mið- og vesturhluta Afríku. Í svari við spurningunni Hvað er apabóla? er fjallað almennt um sjúkdóminn og af hverju tilfellum af honum fer nú fjölgandi. Við bendum lesendum á að lesa það svar einnig. Notkun bóluefnis gegn bólusótt, ásamt gífurlegum lýðheilsuinngripum, leiddi til þess að bólusótt varð fyrsti (og eini) smitsjúkdómurinn í mönnum sem tókst að útrýma. Þetta var formlega tilkynnt árið 1980 en bólusetning gegn bólusótt var stöðvuð víða fyrir þann tíma. Bólusótt orsakaðist af bólusóttarveirunni (e. smallpox virus), en sú veira var frekar náskyld apabóluveiru (e. monkeypox virus, MPX). Aðrar skyldar veirur eru kúabóluveira (e. cowpox virus) og vaccinia-veira. Kúabóluveiran er talin vera sú veira sem Edward Jenner notaði sem fyrsta bóluefni við bólusótt; rannsókn á árangri slíkrar bólusetningar birtist árið 1798. Þannig var kúabóluveiran notuð lengi sem bóluefni við bólusótt. Síðar meir, eða um lok 19. aldar, var byrjað að skipta yfir í að nota vaccinia-veiruna, sem þótti öruggari og auðveldari í notkun. Hins vegar er nákvæmur uppruni þessarar veiru enn umdeildur. Þegar verið var að útrýma bólusótt var þannig notast við bóluefni sem innihélt afbrigði af vaccina-veirunni, en það afbrigði var fengið úr kálfavessa (e. calf lymph).

Bólusótt orsakaðist af bólusóttarveirunni sem var frekar náskyld apabóluveiru. Bólusetning við bólusótt virðist veita í það minnsta 85% vernd gegn apabólu en ekki er vitað hversu lengi verndin dugar. Á myndinni sem er frá 1972, sést einstaklingur sem veiktist af bólusótt.
- Ýtarlega heimildaskrá er að finna neðst í svari við spurningunni Hvað er apabóla?
- Smallpox - Wikipedia. (Sótt 13.06.2022).