Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn og hvaðan komu heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar?Reglulega koma fram nýir smitsjúkdómar (e. emerging infectious diseases (EIDs)) sem menn hafa ekki áður þurft að kljást við. Um 75% af nýjum smitsjúkdómum eru svonefndar súnur (e. zoonoses), en það orð er notað um sjúkdóma sem smitast með náttúrulegum hætti á milli dýra og manna. Þar af eiga um 70% upptök sín í villtum dýrum. Þessir smitsjúkdómar geta borist beint frá villtum dýrum til manna en oft og tíðum er ferillinn þannig að sýkillinn berst fyrst til annarra dýrategunda, sem þá nefnast millihýslar, og síðan til manna. Mesta hættan á smiti frá dýrum yfir í menn er talin vera frá leðurblökum en þar á eftir koma prímatar, hófdýr og nagdýr. Einnig er rétt að nefna að nokkrar aðrar súnur í mönnum koma frá fuglum. Inflúensuveiran kom upphaflega frá fuglum og einnig má rekja alla heimsfaraldra inflúensu til fugla, eins og fram kemur hér fyrir neðan. Á heildina litið er umfang þeirra þó minna miðað við þær súnur sem koma frá spendýrum.

Dæmi um súnur, sjúkdóma sem geta borist úr dýrum í menn.
Heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar
Hin svonefnda spænska veiki átti líklega uppruna sinn úr eldisfuglum. Þar var um að ræða nýjan stofn af inflúensuveiru af A-stofni H1N1. Fólk hafði almennt litla mótstöðu gegn veirunni og veikindin voru því margfalt alvarlegri en í hefðbundnum inflúensusýkingum. Spænska veikin er skæðasta skráði faraldur sögunnar. Talið er að 50-100 milljónir manna hafi látist í faraldrinum sem geisaði víðs vegar um heim 1918-1919. Á Íslandi er talið að tæplega 500 manns hafi látist af völdum veikinnar. Asíuflensan 1957 var vegna inflúensuveiru af H2N2-gerð, upprunalega komin úr fuglum en svín voru líklega millihýsill. Veikin kom fyrst fram í Kína snemma árs 1957 en barst þaðan til annarra landa. Talið er að rekja megi á bilinu eina til tvær milljónir dauðsfalla um heim allan til asíuflensunnar. Flensan barst til Íslands haustið 1957, líklega frá Rússlandi.
Spænska veikin 1918-1919 er skæðasti heimsfaraldur sem sögur fara af.
Lokaorð
Þessir nýju smitsjúkdómar sem urðu að heimsfaröldrum eiga það ekki aðeins sameiginlegt að sýkilinn berst upphaflega úr dýrum heldur voru veirur orsök þeirra allra. Sýkillinn þarf þó ekki að vera veira, bakteríur geta líka borist á milli dýra og manna og valdið mjög skæðum og útbreiddum sjúkdómum. Þar má til dæmis nefna bakteríuna Yersinia pestis sem olli svartadauða. Sá sjúkdómur er fyrst og fremst bundinn við nagdýr, til dæmis rottur, en hann getur borist í menn með flóm nagdýra. Frumdýr, príon, sveppir og ormar geta einnig orsakað nýja smitsjúkdóma en þessar uppsprettur eru ekki eins áberandi og veirur og bakteríur. Heimildir og myndir:- Magnús Gottfreðsson. (2008). Spænska veikin á Íslandi 1918. Lærdómur í læknisfræði og sögu. Læknablaðið, 94 (11). (Sótt 22. 4. 2020).
- Saunders-Hastings, P. R., & Krewski, D. (2016). Reviewing the History of Pandemic Influenza: Understanding Patterns of Emergence and Transmission. Pathogens, 5(4), 66. (Sótt 22. 4. 2020).
- Embætti landlæknis. (2018). Farsóttaskýrsla 2017. (Sótt 22. 4. 2020).
- Embætti landlæknis o.fl. (2017). Heilbrigðisþjónustan og almannavarnir - Handbók. (Sótt 22. 4. 2020).
- Dawood, F. S. o.fl. (2012). Estimated global mortality associated with the first 12 months of 2009 pandemic influenza A H1N1 virus circulation: a modelling study. The Lancet, 12 (9), 687-695. (Sótt 22. 4. 2020).
- WHO. Global Health Observatory (GHO) data- HIV/AIDS. (Sótt 22. 4. 2020).
- Embætti landlæknis. (2019, 1. desember). Alþjóðlegur baráttudagur gegn HIV/alnæmi er 1. desember ár hvert. (Sótt 22. 4. 2020).
- European Centre for Disease Prevention and Control. Situation update worldwide. (Sótt 22. 4. 2020).
- Haraldur Briem. (2000, 20. mars). Er svartidauði enn þá til og eru til lækningar við honum? Vísindavefurinn. (Sótt 22. 4. 2020).
- Fyrri mynd: Figure 3- Examples of Zoonotic Diseases and Their Affected Populations (6323431516).jpg - Wikimedia Commons. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. (Sótt 27.04.2020).
- Seinni mynd: St. Louis Red Cross Motor Corps on duty during influenza epidemic (1918) | Rawpixel. (Sótt 22.04.2020).